Ferill 1075. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1680  —  1075. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016 (grunnfjárhæðir og fjöldi heimilismanna).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá innviðaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssamtökunum Þroskahjálp og ASÍ.
    Nefndinni bárust þrjár umsagnir sem aðgengilegar eru á síðu málsins á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.
    Í fyrsta lagi er lagt til að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta skv. 1. mgr. 16. gr. og frítekjumörk skv. 1. mgr. 17. gr. laganna taki til allt að sex heimilismanna, í stað fjögurra. Í öðru lagi er lögð til sú breyting á 2. mgr. 16. gr. laganna að grunnfjárhæð húsnæðisbóta til einstaklingsheimila hækki um 25% frá því sem nú gildir og aðrar grunnfjárhæðir hækki til samræmis við stuðla í a-lið 1. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að fjárhæð eignamarka skv. 1. mgr. 18. gr. laganna hækki og verði 12.500.000 kr.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Frumvarpið er lagt fram sem liður í aðgerðum til stuðnings kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði sem undirritaðir voru 7. mars 2024, og er markmið þess að styðja við heimili á leigumarkaði undir þeim tekju- og eignamörkum sem frumvarpið mælir fyrir um. Þeim breytingum sem lagðar eru til er helst ætlað að styðja við fjölmennari fjölskyldur, en auk þess gera breytingar á frítekjumarki foreldrum ungmenna kleift að styðja við börn sín lengur þannig að þau geti búið lengur í foreldrahúsum, líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að auka ráðstöfunartekjur heimila og draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda. Meiri hlutinn tekur undir markmið og efni frumvarpsins og telur brýnt að það verði að lögum. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að reglur sveitarfélaga kveði oft á um hámark samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings. Þær reglur geti haft áhrif á fjárhæð stuðnings samkvæmt frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur undir það sem fram kemur í greinargerð að æskilegt sé að sveitarfélög taki til skoðunar hvort breyta þurfi reglum um hámark samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðning svo að þær hækkanir sem lagðar eru til í frumvarpinu skili sér til þeirra sem fá greiddar húsnæðisbætur.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 13. maí 2024.

Steinunn Þóra Árnadóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Óli Björn Kárason. Bryndís Haraldsdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Jóhann Páll Jóhannsson. Guðmundur Ingi Kristinsson.