Ferill 1114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1690  —  1114. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (gjaldfrjálsar skólamáltíðir).

Frá innviðaráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við tekjur Jöfnunarsjóðs skv. 8. gr. a á árunum 2024–2027 bætist árlegt framlag úr ríkissjóði sem Jöfnunarsjóður úthlutar til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum.
    Framlagið skal skiptast hlutfallslega á milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan og greiðist mánaðarlega til sveitarfélaga frá 1. ágúst 2024 til loka árs 2027, að undanskildum júlímánuði ár hvert. Ef ekki kemur til úthlutunar til sveitarfélags á grundvelli ákvæðisins skal reiknað framlag Jöfnunarsjóðs til viðkomandi sveitarfélags endurgreitt ríkissjóði.
    Ákveði sveitarfélag að taka gjald fyrir skólamáltíðir á grundvelli 23. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, eftir að Jöfnunarsjóður hefur úthlutað framlagi til þess á grundvelli 1. og 2. mgr., skal sveitarfélagið endurgreiða Jöfnunarsjóði úthlutað framlag til þess fyrir það tímabil sem sveitarfélagið hefur tekið gjald fyrir skólamáltíðir, og skal fjárhæðin renna í ríkissjóð. Sama á við ef sjálfstætt rekinn grunnskóli, sem gert hefur þjónustusamning við sveitarfélag á grundvelli 43. gr. a laga um grunnskóla, ákveður að taka gjald fyrir skólamáltíðir.
    Jöfnunarsjóði er heimilt að halda eftir öðrum framlögum sjóðsins til sveitarfélagsins hafi sveitarfélagið fengið ofgreitt framlag, sbr. 3. mgr.
    Ráðherra skal skipa starfshóp skipaðan einum fulltrúa innviðaráðherra, sem jafnframt er formaður, einum fulltrúa mennta- og barnamálaráðherra og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem skal leggja mat á nýtingu og áhrif framlagsins. Meðal annars skal meta áhrif á markmið um að auka jöfnuð og draga úr fátækt meðal barna, hvort allir árgangar nýti sér gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hver sé ávinningur einstakra sveitarfélaga og landshluta. Þá skal meta reynslu og ánægju nemenda og foreldra. Niðurstaða hópsins skal liggja fyrir eigi síðar en 30. júní 2026.

2. gr

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innviðaráðuneytinu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og mennta- og barnamálaráðuneytið. Með því er lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætti við lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Í ákvæðinu er kveðið á um að við tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga bætist árlegt framlag ríkisins á árunum 2024–2027, sem Jöfnunarsjóður skal úthluta til þeirra sveitarfélaga sem bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Til að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði gáfu ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga frá sér sameiginlega yfirlýsingu 7. mars 2024. Í yfirlýsingunni kom fram að stjórnvöld myndu grípa til tiltekinna aðgerða til að styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar sem fram koma í yfirlýsingunni snúa að ýmsum efnahags- og kjaramálum sem styðja við lífskjör launafólks með sérstakri áherslu á húsnæðisuppbyggingu, húsnæðisstuðning og málefni barnafjölskyldna. Ein aðgerðin snýr að því að útfæra leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar á árunum 2024–2027 en með því er stutt við markmið stjórnvalda um að draga úr fátækt meðal barna.
    Í yfirlýsingu stjórnvalda kemur fram að áætluð bein kostnaðarþátttaka forráðamanna vegna skólamáltíða allra grunnskólabarna nemi um fimm milljörðum kr. á ári. Til að markmiðum aðgerðarinnar verði náð mun ríkissjóður greiða árlegt framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til greiðslu kostnaðar vegna skólamáltíða allra grunnskólabarna sem nemur 75% þess kostnaðar og mun Jöfnunarsjóður greiða framlög til sveitarfélaga sem bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Frumvarpi þessu er ætlað að ná framangreindum markmiðum.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Almennt um skólamáltíðir og hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga, sbr. 5. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Sveitarfélögum er jafnframt heimilt að gera þjónustusamninga um rekstur sjálfstætt rekinna grunnskóla við rekstraraðila, sbr. 43. gr. a laganna. Skv. 23. gr. laganna skulu nemendur í grunnskóla eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja en í tilviki sjálfstætt rekinna grunnskóla skal mæla fyrir um gjaldtöku af nemendum í þjónustusamningi, sbr. 8. tölul. 4. mgr. 43. gr. a laganna. Það er því lögbundið verkefni sveitarfélaga að bjóða grunnskólabörnum máltíð á skólatíma.
    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Skv. 1. mgr. 8. gr. laganna er hlutverk Jöfnunarsjóðs að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.
    Jöfnunarsjóður veitir ýmis framlög til sveitarfélaga á grundvelli laganna. Sem dæmi veitir sjóðurinn framlög vegna sameiningar sveitarfélaga, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr., framlög til að jafna stöðu sveitarfélaga við uppbyggingu og breytingar á fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk, sbr. 1. mgr. 13. gr. b, framlög til að mæta kostnaði einstakra sveitarfélaga vegna samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna, sbr. ákvæði til bráðabirgða XXV, og kostnað sveitarfélaga vegna stuðnings við tónlistarnám, sbr. ákvæði til bráðabirgða XV. Úthlutuð framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru lögbundinn tekjustofn sveitarfélaga, sbr. b-lið 1. mgr. 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, en skv. 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar skulu tekjustofnar sveitarfélaga ákveðnir með lögum. Er því nauðsynlegt að mæla um fyrir framlög Jöfnunarsjóðs með skýrum hætti í lögum.

3.2. Framlag úr Jöfnunarsjóð vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um að á árunum 2024–2027 bætist árlegt framlag úr ríkissjóði við tekjur Jöfnunarsjóðs en mælt er fyrir um tekjur Jöfnunarsjóðs að öðru leyti í 8. gr. a laga um tekjustofna sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að fjárhæðin verði ákveðin í fjárlögum en samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda frá því í febrúar 2024 kemur fram að fjárhæðin fyrir allt skólaárið skuli nema 3.750 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæðin taki breytingum á árunum 2025–2027 samkvæmt almennri verðlagsuppfærslu fjárlaga hverju sinni.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður úthluti framlögum til þeirra sveitarfélaga sem bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Í aðgerð stjórnvalda um að skólamáltíðir skuli vera gjaldfrjálsar er gert ráð fyrir að ríkið komi að 75% kostnaðarþátttöku forráðamanna vegna skólamáltíða. Ljóst er að kostnaður sveitarfélaga vegna skólamáltíða er mismunandi og dæmi eru um að sveitarfélög bjóði nú þegar upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Sú fjárhæð sem miðað er við í yfirlýsingu stjórnvalda frá 7. mars 2024 byggist á meðalkostnaði forráðamanna barna vegna skólamáltíða. Í frumvarpinu er farin sú leið að miða framlög til sveitarfélaga við árlegt framlag ríkisins og síðan eru framlög til sveitarfélaga reiknuð hlutfallslega í samræmi við heildarfjölda nemenda í grunnskólum 1. janúar skólaárið á undan. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að það sé skilyrði fyrir úthlutun framlaga að sveitarfélög greiði mótframlag vegna skólamáltíða með einhverjum hætti, heldur er sveitarfélögum veitt svigrúm til að ákveða útfærslu á gjaldfrjálsum skólamáltíðum sem er í samræmi við 23. gr. laga um grunnskóla.
    Ákveði sveitarfélag að taka gjald fyrir skólamáltíð, hvort sem það er vegna allra nemenda í sveitarfélaginu eða eftir atvikum hluta þeirra, í styttri eða lengri tíma, mun ekki koma til þess að sveitarfélagið fái úthlutað framlagi úr Jöfnunarsjóði og er það í samræmi við markmið aðgerðarinnar. Rennur þá reiknað framlag til viðkomandi sveitarfélags aftur til ríkisins. Ef sveitarfélag tekur ákvörðun um að taka gjald fyrir skólamáltíð eftir að Jöfnunarsjóður hefur úthlutað framlagi til viðkomandi sveitarfélags er gert ráð fyrir að sveitarfélagið endurgreiði Jöfnunarsjóði úthlutað framlag til sveitarfélagsins fyrir það tímabil sem sveitarfélagið hefur tekið gjald fyrir skólamáltíðir.
    Sem dæmi þá býður sveitarfélagið X upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í upphafi skólaárs og fær úthlutað framlagi úr Jöfnunarsjóði. Um áramót tekur sveitarfélagið nýja ákvörðun um að taka gjald fyrir skólamáltíðir frá janúar til maí en fær áfram úthlutað framlagi frá Jöfnunarsjóði. Í slíku tilviki ber sveitarfélaginu að endurgreiða Jöfnunarsjóði framlög sjóðsins sem úthlutað hefur verið eftir að sveitarfélagið hóf gjaldtöku fyrir skólamáltíðir. Þá er Jöfnunarsjóði jafnframt heimilt að halda eftir öðrum framlögum sjóðsins til sveitarfélagsins sem nemur þeirri upphæð sem ofgreidd hefur verið.
    Í frumvarpinu er lagt upp með að sömu reglur gildi um sjálfstætt rekinn grunnskóla með þjónustusamning við sveitarfélag, sem tekur gjald fyrir skólamáltíðir. Er það í samræmi við markmið um að aðgerðin nái til allra grunnskólabarna. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög geti nýtt heimild 8. tölul. 4. mgr. 43. gr. a laga um grunnskóla til að setja skilyrði um hámark gjaldtöku þegar kemur að skólamáltíðum í þjónustusamningum sínum við sjálfstætt rekna grunnskóla.
    Í frumvarpinu er jafnframt mælt fyrir um að skipaður verði starfshópur með fjórum fulltrúum, einn skipaður af innviðaráðherra, einn af menntamálaráðherra og tveir skipaðir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, til að leggja mat á nýtingu og áhrif framlagsins og skal hópurinn skila skýrslu í lok júní 2026.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Rétt er að árétta að með frumvarpinu er ekki gerð breyting á heimildum sveitarfélaga til að taka ákvörðun um að taka gjald fyrir skólamáltíðir sem er nú þegar lögbundið hlutverk sveitarfélaga, sbr. 23. gr. laga um grunnskóla. Fellur það því enn undir sjálfstjórn sveitarfélaga að ákvarða hvernig kostnaði við skólamáltíðir í grunnskólum er háttað.
    Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um heimild Jöfnunarsjóðs til að halda eftir öðrum framlögum til sveitarfélaga sem þegar hafa fengið framlag vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða en taka síðar ákvörðun um að taka gjald fyrir skólamáltíðir. Heimild Jöfnunarsjóðs til að halda eftir framlögum byggir þannig á skýru lagaákvæði sem uppfyllir lagaáskilnað 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum.

5. Samráð.
    Hagsmunaaðilar eru m.a. grunnskólanemar, foreldrar og forráðamenn barna í grunnskólum og sveitarfélög. Frumvarpið er unnið í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og mennta- og barnamálaráðuneytið. Það er lagt fram af sérstöku tilefni, þ.e. sem liður í aðgerðum til stuðnings kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði til að draga úr fátækt meðal barna og var því ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.
    Stofnaður var sérstakur samráðshópur sveitarfélaga og ríkis til að skoða hugsanlegar leiðir til útfærslu niðurgreiðslunnar og gerðu fulltrúar sambandsins í hópnum eftirfarandi athugasemdir við drög að frumvarpinu en rétt er að geta þess að í drögunum var fjárhæð framlags ríkisins sérstaklega tiltekin í 1. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi kom fram það sjónarmið að betra hefði verið að sleppa aðkomu Jöfnunarsjóðs en skilningur sé á því að það er einföld leið fyrir ríkið til að koma fjármunum til sveitarfélaga. Í öðru lagi er óskað eftir því að fram komi að framlag ríkisins í Jöfnunarsjóðs verði endurskoðað árlega. Um sé að ræða fjögurra ára verkefni og því verði að gera ráð fyrir að upphæðin þurfi að taka breytingum með tilliti til hækkaðs verðlags og fjölda barna, en sambandið hefur efasemdir um að árleg verðlagsuppfærsla fjárlaga sé fullnægjandi. Ef upphæðin verði ekki endurskoðuð muni sveitarfélögin sitja uppi með stærri hluta af verkefninu en gert var ráð fyrir. Til greina gæti komið að starfshópurinn, sem er ætlað að leggja mat á nýtingu og áhrif framlagsins, fari árlega yfir verkefnið og geri tillögur að fjárhæð framlags ríkissjóðs næsta árs. Verðlagsgrunnur á þessu ári og fjöldi barna um áramótin næstu verði tilgreind sem grunnfjárhæð ríkisframlagsins í Jöfnunarsjóð. Þá er í þriðja lagi lagt til að ekki verði gerð krafa um að sveitarfélög sendi inn upplýsingar um gjaldfrjálsar skólamáltíðir heldur verði kerfið einfaldað þannig að öll sveitarfélög fái greitt samkvæmt nemendafjölda með þeim formerkjum að framlagið renni til niðurgreiðslu skólamáltíða. Sveitarfélögum verði svo treyst fyrir því að nýta fjármagnið með þeim hætti. Það tryggi einnig jafnræði þar sem framlag ríkisins skili sér til allra barna. Bent er á að Jöfnunarsjóður hefur nú þegar heimildir til að kalla eftir upplýsingum vegna úthlutana úr sjóðnum og fela mætti starfshópnum að fá árlega upplýsingar frá sveitarfélögunum til að mæta kröfum um eftirlit með nýtingu fjármunanna.
    Að lokum bendir hópurinn á að til þess að stuðla að kostnaðarvitund vegna niðurgreiðslunnar gætu sveitarfélög farið þá leið að óska eftir því að forráðamenn virkjuðu annars vegar niðurgreiðslu sveitarfélags og hins vegar ríkis um leið og barn væri skráð fyrir skólamáltíð.
    Farið var yfir sjónarmið fulltrúa sambandsins og tekin var afstaða til þeirra. Fyrst ber að horfa til þess að frumvarpið hefur stuttan líftíma og ljóst að forsendur fyrir upphæð framlagsins fyrir árin 2024 og 2025 verða lítið breyttar frá þeirri áætlun sem lá fyrir þegar yfirlýsing stjórnvalda frá því í febrúar var gefin út. Þá er gert ráð fyrir að starfshópurinn sem á að leggja mat á áhrif og nýtingu framlagsins skili skýrslu í júní 2026 og kann þá að koma til þess að hópurinn leggi til aðra fjárhæð sem gæti tekið gildi fyrir árið 2027. Þar sem framlagið er ekki hugsað til lengri tíma að svo stöddu þykir ekki tilefni til að endurskoða það árlega með vísan til framangreinds, en þó er rétt að geta þess að ef framlagið verður hugsað til lengri tíma kunna önnur sjónarmið að eiga við.
    Þá er ekki talin ástæða til að falla frá því skilyrði að sveitarfélög þurfi að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Um er að ræða grundvallarforsendu framlagsins, sbr. yfirlýsingu stjórnvalda frá því í febrúar sl., og þá verður ekki séð að það verði mikil fyrirhöfn fyrir sveitarfélög að upplýsa Jöfnunarsjóð um hvort boðið sé upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Telur ráðuneytið því ekki tilefni til að breyta frumvarpinu að þessu leyti.
    Ekki er talin ástæða til að mæla fyrir um þá leið í frumvarpi þessu að sveitarfélög virki niðurgreiðslu sveitarfélags og ríkisins með skráningu, þar sem í frumvarpinu er eingöngu fjallað um með hvaða hætti framlag ríkisins skuli renna til sveitarfélaga. Sveitarfélögum er síðan veitt svigrúm á grundvelli sjálfstjórnarréttar þeirra til að ákvarða hvernig niðurgreiðslu ríkisins verði háttað í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
    Gerð var hins vegar sú breyting á frumvarpsdrögunum að ekki er getið um þær fjárhæðir sem ríkissjóður mun bæta við tekjur Jöfnunarsjóðs á gildistíma frumvarpsins heldur er gert ráð fyrir að þær verði ákveðnar í fjárlögum ár hvert. Er það í samræmi við almenna lagaframkvæmd varðandi viðbótartekjur jöfnunarsjóðs, sbr. ákvæði til bráðabirgða XXV við lögin.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur áhrif á ríkissjóð en gert er ráð fyrir því að ríkissjóður greiði árlegt framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á árunum 2024–2027. Í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda frá því í febrúar 2024 er miðað við að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar frá og með haustönn á árinu 2024. Miðað er við að framlag úr ríkissjóði verði 3.750 millj. kr. fyrir fullt skólaár og á árinu 2024 verði fjárhæð aðlöguð að því að einungis sé miðað við gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá og með haustönn. Er þá miðað við fjóra og hálfan mánuð eða samtals kr. 1.500 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir því að fjárhæðin taki breytingum á árunum 2025–2027 samkvæmt almennri verðlagsuppfærslu fjárlaga hverju sinni. Frumvarpið hefur einnig áhrif á sveitarfélög að því leyti sem þau taka ákvörðun um að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Gert er ráð fyrir því að áætluð bein kostnaðarþátttaka forráðamanna vegna skólamáltíða allra grunnskólabarna nemi um fimm milljörðum kr. á ári að teknu tilliti til þeirrar fjárhæðar sem sveitarfélög leggja þegar til vegna skólamáltíða og miðast framlag ríkissjóðs við 75% þess kostnaðar sem eftir stendur. Taki öll sveitarfélög þá ákvörðun að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir mun kostnaður sveitarfélaga því vera samtals 1.250 millj. kr. á ári. Hlutur Reykjavíkurborgar af þeirri fjárhæð er áætlaður um 500 millj. kr. og hlutur hinna 63 sveitarfélaganna því um 750 millj. kr.
    Rétt er að árétta í þessu samhengi að skv. 23. gr. laga um grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Eru því ákveðnar lögbundnar kröfur gerðar til skólamáltíða og miðar þetta frumvarp við að kostnaðarþátttaka sveitarfélaga sé 25% til viðbótar þeim kostnaði sem sveitarfélög taka þegar þátt í, vegna skólamáltíða. Frumvarpið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að sveitarfélög þurfi að sýna Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fram á mótframlag til að fá úthlutað úr Jöfnunarsjóði eins og áður hefur komið fram. Sveitarfélög hafa því svigrúm til að ákveða að kostnaðarþátttaka þeirra vegna skólamáltíða verði með öðrum hætti en frumvarp þetta gerir ráð fyrir á grundvelli sjálfstjórnarréttar þeirra. Grundvallarskilyrðið fyrir úthlutun Jöfnunarsjóðs er fyrst og fremst að sveitarfélög sýni fram á að skólamáltíðir séu gjaldfrjálsar að öllu leyti og fyrir alla nemendur. Heildaráhrif á fjárhag sveitarfélaga ráðast því af útfærslu hvers sveitarfélags fyrir sig um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
    Ljóst er að efni frumvarpsins hefur bæði bein og óbein áhrif á einstaklinga og hópa. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar um samsetningu fjölskyldna eru mun fleiri einstæðir foreldrar konur en karlar og því mun frumvarpið hafa jákvæð áhrif á fleiri konur en karla. Í rannsóknarskýrslu sem unnin var af Kolbeini Stefánssyni félagsfræðingi um lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004–2016 kom fram að nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum væru börn einstæðra foreldra. Í skýrslunni er einnig bent á að ókeypis skólamáltíðir geti skipt sköpum fyrir börn af fátækum heimilum og er frumvarpinu ætlað að auka jöfnuð meðal barna, óháð fjárhag foreldra og styðja markmið stjórnvalda um að draga úr fátækt meðal barna. Þá hefur frumvarpið áhrif á lýðheilsu en ófullnægjandi næring er ein af meginorsökum margra langtímaafleiðinga barnafátæktar.
    Þess skal getið að mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins var lagt fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, en sambandið veitti ekki sérstaka umsögn um kostnaðarmat frumvarpsins að öðru leyti en því sem rakið er í kafla 5.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. og 2. mgr. er mælt fyrir um að við tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga bætist framlag úr ríkissjóði sem Jöfnunarsjóði ber að úthluta til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum. Í því felst að sveitarfélag þarf að bjóða öllum nemendum gjaldfrjálsar skólamáltíðir að öllu leyti, og ekki er því nægilegt að veita hluta nemenda afslátt vegna skólamáltíða. Miðað er við að árlegt framlag verði ákveðið í fjárlögum ár hvert en í yfirlýsingu stjórnvalda frá því í febrúar 2024 er gert ráð fyrir að framlagið nemi árlega 3.750 millj. kr. miðað við fullt skólaár. Auk þess er miðað við að fjárhæðin taki breytingum miðað við almenna verðlagsuppfærslu fjárlaga ár hvert. Sjá nánar kafla 6 í greinargerð frumvarpsins.
    Ákvæðið gerir ráð fyrir því að Jöfnunarsjóður veiti eingöngu framlög til þeirra sveitarfélaga sem bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir og því má gera ráð fyrir að Jöfnunarsjóður kalli eftir slíkum upplýsingum frá sveitarfélögum.
    Í ákvæðinu er jafnframt mælt fyrir um hvernig framlagið til sveitarfélaga er reiknað út. Útreikningur fer þannig fram að miðað er við að heildarframlag ríkissjóðs ár hvert skiptist hlutfallslega til sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan. Framlagið greiðist svo mánaðarlega til sveitarfélaga frá 1. ágúst 2024 til loka árs 2027, að undanskildum júlímánuði eða í ellefu greiðslum ár hvert. Þessar reglur fela í sér að framlög Jöfnunarsjóðs vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða taka breytingum í upphafi skólaárs miðað við heildarnemendafjölda í grunnskólum 1. janúar árið áður og framlagið tekur síðan aftur breytingum í janúar ár hvert í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga. Þá kemur fram í 2. mgr. sú regla að ef sveitarfélag tekur ákvörðun um að bjóða ekki upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir rennur reiknað framlag Jöfnunarsjóðs til viðkomandi sveitarfélags aftur til ríkisins. Er þetta í samræmi við markmið frumvarpsins en framlag ríkisins í Jöfnunarsjóð er háð því að sveitarfélög bjóði upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef sveitarfélag hefur fengið úthlutað framlagi vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða en tekur síðar ákvörðun um að taka gjald fyrir skólamáltíðir, eða sjálfstætt rekinn grunnskóli sem er með þjónustusamning við sveitarfélagið tekur slíkt gjald, skal sveitarfélag endurgreiða Jöfnunarsjóði þau framlög sem sveitarfélaginu hafa verið úthlutuð eftir að það hóf gjaldtöku vegna skólamáltíða. Skal fjárhæðin svo endurgreidd ríkissjóði, sbr. umfjöllun um 2. mgr. ákvæðisins. Þetta er nánar útskýrt í kafla 3.2.
    Í 4. mgr. kemur fram að Jöfnunarsjóði er heimilt að halda eftir öðrum framlögum sjóðsins til sveitarfélagsins komi til þess að sveitarfélag hafi fengið ofgreitt framlag, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Ljóst er að ef til þess kemur að sveitarfélag fær ofgreitt framlag mun í flestum tilvikum staðan vera sú að hentugast verður fyrir sveitarfélagið og Jöfnunarsjóð að Jöfnunarsjóður haldi eftir framlögum sjóðsins til sveitarfélagsins vegna ofgreiðslunnar. Öll sveitarfélög fá hins vegar ekki greidd framlög úr sjóðnum og því kann að koma til þess að Jöfnunarsjóður fari fram á að sveitarfélag endurgreiði ofgreiðsluna. Áréttað er að Jöfnunarsjóði er heimilt að halda eftir hvaða framlagi sem er sem veitt er á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga og eðli máls samkvæmt rennur sú upphæð sem Jöfnunarsjóður heldur eftir aftur til ríkissjóðs, sbr. 3. mgr.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um skipun starfshóps sem er ætlað það hlutverk að meta nýtingu og áhrif framlagsins og skal hópurinn skila skýrslu um niðurstöður sínar eigi síðar en 30. júní 2026. Ekki er kveðið á um það hvenær hópurinn skuli skipaður en gert er ráð fyrir því að það verði gert með góðum fyrirvara.
    Að öðru leyti er vísað í umfjöllun í 3. kafla.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um gildistöku og þarfnast það ekki skýringa.