Ferill 1047. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1714  —  1047. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um slátrun húsdýra og þjónustu erlendra sérfræðinga.

     1.      Að hve miklu leyti er slátrun húsdýra háð þjónustu erlendra sérfræðinga?
    Ísland er aðili að EES-samningnum og á grundvelli hans og þeirrar löggjafar sem tekin er upp í samninginn gilda hér á landi reglur um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þó að nokkuð sé um að erlendir dýralæknar sinni eftirlitsstörfum í sláturhúsum er ekki þar með sagt að slátrun búfjár sé háð þjónustu erlendra sérfræðinga enda er íslenskum atvinnurekendum almennt í sjálfsvald sett hverja þeir ráða til starfa hjá sér.

     2.      Er unnið að því í ráðuneytinu að gera slátrun húsdýra óháða þjónustu erlendra sérfræðinga?
    Það fer engin vinna fram á vegum ráðuneytisins við að gera slátrun búfjár óháða þjónustu erlendra sérfræðinga þar sem slík vinna kynni stangast á við ákvæði laga nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. reglugerð (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Evrópusambandsins eins og henni var breytt með ákvæðum EES-samningsins.
    Í því sambandi vill ráðuneytið benda sérstaklega á álit umboðsmanns Alþingis nr. 9510/2017, þar sem athugun umboðsmanns beindist m.a. að því hvort það samræmdist lögum sem gilda um starfsemi Matvælastofnunar að stofnunin réði dýralækna sem ekki hefðu vald á íslenskri tungu. Var það niðurstaða umboðsmanns að það hefði ekki verið í samræmi við 5. mgr. 6. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
    Í álitinu vakti umboðsmaður athygli á ákvæðum laga nr. 105/2014 og því að skv. 1. gr. laganna hafa ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 lagagildi hér á landi, sem kynni að hafa þýðingu fyrir réttindi dýralækna sem hafa ekki vald á íslensku til að starfa hér á landi í opinberri þjónustu ef til stendur að ráða í starf þar sem íslenskukunnátta skiptir ekki máli vegna eðlis starfsins, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar (ESB) nr. 492/2011.
    Á grundvelli framangreinds og með hliðsjón af þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og ekki síst til þess að Matvælastofnun geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu var gerð breyting á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, þar sem fallið var frá ófrávíkjanlegri kröfu um íslenskukunnáttu dýralækna í opinberri þjónustu.

     3.      Stýrist tímasetning slátrunar af því hvenær þjónusta erlendra sérfræðinga er í boði? Ef svo er, að hve miklu leyti?
    Tímasetning slátrunar stýrist ekki af því hvenær þjónusta erlendra sérfræðinga er í boði. Sauðfjárslátrun er eina slátrunin sem er árstíðabundin, þ.e. sú slátrun fer ávallt fram á haustin og á það sér líffræðilegar skýringar. Í sauðfjárslátrun kann því að vera meiri þörf á þjónustu erlendra sérfræðinga.