Ferill 826. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1801  —  826. mál.
Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa ráðuneytið og stofnanir þess boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo er, hvernig hefur henni verið háttað? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra sjá til þess að starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess fái slíka fræðslu?

    Ráðuneytið hefur ekki boðið upp á fræðslu sem einvörðungu hefur verið tileinkuð hatursorðræðu og kynþáttahatri. Umræða þessu tengd hefur hins vegar farið fram á sameiginlegum vettvangi innan ráðuneytisins, t.d. á starfsmannafundum og á opnum umræðufundi með Mental ráðgjöf. Ráðuneytið hefur jafnframt kynnt sér hugbúnaðarlausnina Öldu sem ætluð er til að bæta vinnustaðamenningu að þessu leyti.
    Ráðuneytið óskaði jafnframt eftir upplýsingum frá stofnunum sínum um hvort þær hefðu boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk sitt um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo væri, hvernig henni hefði verið háttað.
    Stofnanir ráðuneytisins eru Fjarskiptastofa, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri. Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, Hugverkastofan, Landbúnaðarháskóli Íslands, Menntasjóður námsmanna, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
    Þær stofnanir ráðuneytisins sem bjóða eða hafa boðið upp á fræðslu sem fellur að einhverju leyti undir efni fyrirspurnarinnar eru Háskóli Íslands og Rannís.
    Að aftan eru upplýsingar um hvernig fræðslu framangreindra stofnana er háttað.
    Í svari Háskóla Íslands kom fram að í undirbúningi er að halda fræðsludagskrá fyrir allt starfsfólk Háskóla Íslands, þar sem nokkur þemu eru tekin fyrir á hverju ári, m.a. hinsegin mál, uppruni og rasismi, öráreitni, fötlun, kynferðisleg áreitni og ómeðvitaðir fordómar. Hatursorðræða fléttast inn í framangreind þemu og verður jafnframt skoðað að bæta hatursorðræðu við sem sérstöku þema. Mannauðssvið stendur árlega fyrir fjölbreyttum fræðsluviðburðum og hefur á síðasta ári m.a. verið fjallað um ýmis málefni sem snúa að fjölbreytileika í víðum skilningi. Má þar nefna fræðslu um hinseginleikann, einhverfu í daglegu lífi, og þjónustu við blinda nemendur. Jafnframt hafa þessi málefni verið tekin inn í stjórnendaþjálfun við skólann og á starfsdögum mismunandi eininga. Mannauðssvið leggur einnig áherslu á að námskeiðin séu fjölbreytt og þjónusti mismunandi hópa innan skólans. Í því samhengi er reglulega boðið upp á ákveðin námskeið á ensku og lögð áhersla á að ná til allra hópa innan skólans þegar upplýsingum um fræðslu er komið á framfæri. Háskóli Íslands hefur jafnframt, frá árinu 2009, staðið fyrir Jafnréttisdögum (www.jafnrettisdagar.is), sem undanfarin ár hefur verið samstarfsverkefni allra íslensku háskólanna, á vegum samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna. Á Jafnréttisdögum hefur verið fjallað um fjölmargt sem hefur mjög skýra skírskotun til hatursorðræðu, m.a. á málþingum, fræðsluviðburðum og öðrum viðburðum. Gert er ráð fyrir að það verkefni styrkist enn frekar með aukinni rafrænni miðlun efnis á næstu árum. Loks má nefna samstarfssamning Menntavísindasviðs HÍ við Samtökin '78, sem undirritaður var í maí 2021, með því markmiði að efla fræðslu og ráðgjöf á sviðinu tengt kynja-, jafnréttis- og hinseginfræðum.
    Í svari Rannís kemur fram að stofnunin starfar eftir eigin jafnréttisstefnu sem samræmist lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Stefnan var uppfærð árið 2021 og vísar nú einnig í lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og í henni eru því ekki einungis skilgreiningar á hugtakanotkun sem snúa að einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni, ofbeldi á vinnustað og hatursfullri orðræðu heldur einnig bann við mismunun, hatursorðræðu og áreiti vegna kynþáttar. Þessi málefni eru einnig kynnt hvert skipti sem nýliðakynning er haldin. Innan Rannís er einnig starfandi samráðsnefnd sem tekur á slíkum málum komi þau upp. Með auknum áherslum á inngildingu hafa verið fengin fræðsluerindi fyrir starfsfólk sem vissulega hafa farið yfir hatursorðræðu en út frá öðrum þáttum, m.a. fræðslu frá Samtökunum '78, Þroskahjálp og fyrirlestur um þriðju vaktina/jafnrétti kynjanna í heimilisstörfum. Jafnframt hélt Sóley Tómasdóttir jafnréttis- og fjölbreytileikafræðslu fyrir stjórnendur og teymisstjóra stofnunarinnar, en þar var m.a. fræðsla um málefnið er fyrirspurnin snýr að og stefnt er að sambærilegri fræðslu fyrir starfsfólk. Rannís hefur ekki enn haldið sérstaka fræðslu fyrir allt starfsfólk um kynþáttafordóma og hatursorðræðu en á dagskrá er að Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sérfræðingur hjá Rannís og inngildingarfulltrúi Landskrifstofu Erasmus+, verði með slíka fræðslu á vormisseri.
    Aðrar stofnanir ráðuneytisins hafa ekki boðið upp á markvissa fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur.