Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 527  —  479. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um Náttúrufræðistofnun.

Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.



I. KAFLI

Yfirstjórn og skipulag.

1. gr.

Yfirstjórn og hlutverk.

    Náttúrufræðistofnun er ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra.
    Náttúrufræðistofnun stundar undirstöðurannsóknir á náttúru Íslands, vinnur staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland og rekur náttúrurannsóknastöð við Mývatn, sbr. lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

2. gr.

Forstjóri o.fl.

    Við Náttúrufræðistofnun skal starfa forstjóri skipaður af ráðherra til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og annast rekstur hennar.
    Forstjóri ber ábyrgð á:
     1.      að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og stefnu stjórnvalda,
     2.      fjárreiðum stofnunarinnar og reikningshaldi,
     3.      að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt og í samræmi við ársáætlun,
     4.      að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárveitingar og gerð ársáætlunar fyrir stofnunina í heild og
     5.      ráðningu starfsfólks og fer með yfirstjórn starfsmannamála.
    Náttúrufræðistofnun skal árlega gera áætlun um störf stofnunarinnar, birta skýrslu um starfsemi sína og setja sér stefnu til lengri tíma um starfsemi og meginverkefni stofnunarinnar í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál.

II. KAFLI

Verkefni og starfsemi.

3. gr.

Verkefni.

    Náttúrufræðistofnun er ráðuneytinu og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar á fagsviðum stofnunarinnar. Stofnunin skal í starfsemi sinni vinna að lögbundnum markmiðum og stefnu stjórnvalda hverju sinni. Náttúrufræðistofnun skal eiga faglegt samstarf við háskóla, stofnanir, fyrirtæki og alþjóðleg samtök í samræmi við verkefni stofnunarinnar. Aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar eru:
     1.      að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands,
     2.      að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn á vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru,
     3.      að skrá kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru og sjá um gerð og útgáfu korta, m.a. um jarðfræði og útbreiðslu tegunda,
     4.      að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings,
     5.      að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna,
     6.      að vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra og fugla,
     7.      að sjá um fuglamerkingar og hefur stofnunin ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi,
     8.      að greina frá niðurstöðum rannsókna í fræðslu- og vísindaritum,
     9.      að skrá berg- og jarðgrunna landsins kerfisbundið,
     10.      að skrá náttúruminjar, annast mat á verndargildi þeirra og hafa umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár,
     11.      að bera ábyrgð á vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru að því marki sem hún er ekki falin öðrum stofnunum með lögum eða reglum settum á grundvelli þeirra,
     12.      að annast uppbyggingu og viðhald viðmiðana og aðgengilegs landshnitakerfis og hæðarkerfis fyrir allt Ísland,
     13.      að hafa frumkvæði að gerð og notkun staðla á sviði landupplýsinga,
     14.      að gera og viðhalda landupplýsingum um:
                  a.      vatnafar,
                  b.      yfirborð,
                  c.      vegi og samgöngur,
                  d.      örnefni úr örnefnagrunni,
                  e.      stjórnsýslumörk,
                  f.      mannvirki,
                  g.      hæðarlínur og hæðarpunkta,
     15.      að fara með framkvæmd laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, þ.m.t. að sjá um rekstur, viðhald og tæknilega þróun landupplýsingagáttar,
     16.      að skrá og viðhalda örnefnagrunni í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum; innihald gagnagrunnsins skal vera aðgengilegt gjaldfrjálst og almenningi skal gert kleift að skrá örnefni í grunninn,
     17.      að gera og viðhalda stafrænum landupplýsingagrunnum í samráði við viðeigandi stjórnvöld,
     18.      að sinna öðrum verkefnum samkvæmt sérlögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Náttúrufræðistofnun getur með leyfi ráðherra gerst aðili að sýningarsöfnum sem rekin eru af öðrum en ríkinu. Hún aðstoðar við gerð sýninga og henni er heimilt að lána til þeirra gripi úr vísindasöfnum sínum um lengri eða skemmri tíma.

4. gr.

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn.

     Náttúrufræðistofnun starfrækir Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn sem hefur þau verkefni að stunda rannsóknir á náttúrufari Mývatns- og Laxársvæðisins, sbr. ákvæði laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Afla skal vísindalegrar þekkingar sem nýtist við verndun svæðisins í víðum skilningi, en í því felst að fá yfirlit yfir náttúru þess og breytingar á henni, rannsaka orsakasamhengi í vistkerfi Mývatns og Laxár og kanna áhrif af umsvifum manna.

5. gr.

Náttúrustofur.

    Ráðherra er heimilt að leyfa starfrækslu allt að átta náttúrustofa er starfa á vegum sveitarfélaga óháð kjördæmaskipan og skal um hverja stofu gera samning milli ráðherra og þeirra sveitarfélaga sem standa að náttúrustofu. Náttúrustofur og Náttúrufræðistofnun skulu hafa með sér samvinnu samkvæmt nánari ákvörðun þeirra hverju sinni.
    Eitt eða fleiri sveitarfélög geta átt og rekið náttúrustofu með stuðningi ríkisins. Ábyrgð á rekstri og starfsemi náttúrustofu er hjá þeim sveitarfélögum sem gert hafa samning um rekstur hennar. Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu er ákveðið í fjárlögum hverju sinni og miðast við fjárhæð sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem er allt að jafnhá þeirri fjárhæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu. Framlag ríkissjóðs er háð því að fyrir liggi samningur um rekstur náttúrustofu, sbr. 1. mgr. Í samningi skal meðal annars kveðið á um aðsetur og starfssvæði náttúrustofu, skilgreind verkefni, framlag ríkissjóðs og fjárskuldbindingar sveitarfélaga vegna reksturs hennar sem skulu miðast við 30% af framlagi ríkisins.
    Helstu hlutverk náttúrustofu eru:
     1.      að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,
     2.      að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,
     3.      að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,
     4.      að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu á verksviði stofunnar að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,
     5.      að annast almennt eftirlit með náttúru landsins samkvæmt náttúruverndarlögum, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar. Umhverfisstofnun gerir samninga um slíkt eftirlit við náttúrustofur sem staðfestir eru af ráðherra.
    Náttúrustofur skulu fyrir lok apríl ár hvert skila skýrslu til ráðherra um starfsemi sína næstliðið ár ásamt ársreikningi.
    Heimilt er náttúrustofu að gerast aðili að sýningarsafni, en fjárhagur slíks safns og stofunnar skal vera aðskilinn.
    Stjórn náttúrustofu skal skipuð að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélag eða sveitarfélög sem starfrækja náttúrustofu skipa þrjá menn í stjórn og skal einn þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Stjórnin ræður forstöðumann, fjallar um árlega fjárhagsáætlun fyrir stofuna og fylgist með fjárhag hennar og starfsemi. Stjórnin getur sett gjaldskrá fyrir rannsóknir, vöktun og ráðgjöf á verksviði stofunnar, sbr. 4. tölul. 3. mgr.
    Forstöðumaður náttúrustofu skal hafa háskólapróf í náttúrufræði eða þekkingu sem meta má til jafns við það. Hann er í fyrirsvari fyrir stofuna í heild, stjórnar daglegum rekstri hennar og ræður að henni annað starfslið með samþykki stjórnar, eftir því sem fé er veitt til hverju sinni.

III. KAFLI

Gjaldtaka.

6. gr.

Sala á þjónustu og gjaldskrá.

    Náttúrufræðistofnun er heimilt að afla sér tekna með sölu á sérhæfðri ráðgjöf og þjónustu við vinnslu og afgreiðslu gagna sem eru í vörslu stofnunarinnar. Stofnuninni er jafnframt heimilt að taka gjald til að standa straum af rekstrarkostnaði fyrir rannsóknir og sérhæfða ráðgjöf sem falla undir verkefnasvið stofnunarinnar, þ.m.t. greiningu vegna inn- og útflutnings á dýrum og plöntum sem heyra undir samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, eftirlit vegna rannsókna og nýtingar á hveraörverum samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, leyfisveitingar vegna útflutnings á náttúruminjum og fyrir greiningar á náttúrusýnum.
    Stofnuninni er heimilt að veita viðtöku fjárframlögum, vísindastyrkjum, vísindalegum eintökum, náttúrugripum og sambærilegum gjöfum frá einstaklingum eða öðrum.
    Ráðherra setur, að fengnum tillögum stofnunarinnar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og afgreiðslu gagna og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna þannig að mætt sé öllum þeim kostnaði sem af því hlýst.

IV. KAFLI

Miðlun upplýsinga og höfundaréttur.

7. gr.

Miðlun og varðveisla upplýsinga og afnotaréttur.

    Náttúrufræðistofnun skal eiga aðgang að vísindalegum upplýsingum sem opinberar stofnanir geta látið í té og varða starfssvið hennar. Skýrslur íslenskra og erlendra vísindamanna um rannsóknir á náttúru landsins skulu varðveittar í heimildasafni stofnunarinnar.
    Skylt er stofnuninni að varðveita vísindalegar upplýsingar og niðurstöður rannsókna í aðgengilegu formi.
    Náttúrufræðistofnun miðlar upplýsingum og veitir aðgang að gögnum sem eru í vörslu stofnunarinnar enda brjóti afhending þeirra ekki gegn lögvernduðum rétti þriðja aðila. Ef um er að ræða frumgögn sem eiga uppruna utan stofnunarinnar skal samið um frekari dreifingu við upprunaaðila.
    Heimilt er að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði landmælinga og kortagerðar sem eru í vörslu stofnunarinnar að því tilskildu að uppruna sé getið og að áreiðanleiki upplýsinga sé tryggður.
    Grunngögn um íslenska náttúru í vörslu stofnunarinnar, svo sem um fuglamerkingar og endurheimtur, upplýsingar um dreifingu plantna og dýra, sem og skrásett safnaeintök, skulu vera aðgengileg vísindamönnum til frekari rannsókna og flokkuð á samræmdan hátt.

8. gr.

Höfundaréttur.

    Ríkið er eigandi að öllum réttindum sem Náttúrufræðistofnun öðlast og hefur eignast.
    Náttúrufræðistofnun gætir hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem hún hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við rannsóknir, mælingar, kort, myndir eða annað efni. Ríkið á höfundarétt að gögnum sem starfsmenn vinna á vegum stofnunarinnar nema um annað sé samið. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög.

V. KAFLI

Almenn ákvæði.

9. gr.

Frjáls för um landið við söfnun náttúrugripa og uppsetningu mælingapunkta.

    Starfsfólki Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofa sem stunda almennar náttúrurannsóknir og söfnun náttúrugripa og annarra heimilda um náttúruna á vegum hins opinbera skal frjáls för um landareignir. Skylt er einnig að heimila þá för um landareignir og uppsetningu mælingapunkta sem nauðsynleg getur talist við framkvæmd laga þessara. Ber að sýna landeiganda tillitssemi og valda ekki ónæði að þarflausu.
    Starfsfólki Náttúrufræðistofnunar er heimilt að safna náttúrugripum í þágu stofnunarinnar hvar sem er án þess að endurgjald komi fyrir. Þetta gildir þó ekki ef um er að ræða náttúrugripi sem fémætir eru fyrir landeiganda eða aðra rétthafa lands.
    Nú leiðir rannsókn í ljós verðmæti sem áður voru ókunn og ber þá rannsakanda að tilkynna það rétthafa lands þar sem verðmætin eru.
    Náttúrugripi má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni. Sama á við um örverur sem eiga uppruna sinn á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra.

10. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er með reglugerð heimilt að setja nánari ákvæði um verkefni og starfsemi Náttúrufræðistofnunar að fengnum tillögum forstjóra, þ.m.t. um:
     1.      varðveislu vísindalegra upplýsinga og niðurstöðva rannsókna og aðgang að þeim,
     2.      viðmiðun ISN2016, grunnstöðvanet og mælistöðvar til notkunar við landmælingar og kortagerð,
     3.      innihald landfræðilegs gagnasafns um Ísland,
     4.      landshæðarkerfi Íslands,
     5.      náttúrustofur og
     6.      náttúrurannsóknir við Mývatn.
    Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun, nánari ákvæði um skipulag Náttúrufræðistofnunarinnar, þ.m.t. staðsetningu starfsstöðva hennar með það að markmiði að fjölga störfum á landsbyggðinni.
    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd ákvæða um miðlun og varðveislu upplýsinga skv. 7. gr. að fengnum tillögum forstjóra Náttúrufræðistofnunar.

11. gr.

Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024 og skulu Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn þá flytjast til Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem mun frá sama tíma bera heitið Náttúrufræðistofnun. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, og lög um Landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006. Frá sama tíma eru embætti forstjóra Landmælinga Íslands og forstöðumanns Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn lögð niður.

12. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018: Eftirfarandi breytingar verða á 4. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna:
                  a.      Orðin „Landmælingar Íslands“ falla brott.
                  b.      Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnun Íslands“ kemur: Náttúrufræðistofnun.
     2.      Lög um um stjórn vatnamála, nr. 36/2011: Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnun Íslands“ í 2. mgr. 9. gr. og 1. og 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun.
     3.      Lög um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012: Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnunar.
     4.      Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997: Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnun Íslands“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun.
     5.      Lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, nr. 44/2011:
                  a.      Í stað orðanna „Landmælingar Íslands skulu“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun skal.
                  b.      2. og 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Beiðni um slíkt skal send Náttúrufræðistofnun sem tekur ákvörðun um hvort tenging sé heimil. Jafnframt getur Náttúrufræðistofnun haft frumkvæði að því að aðrir en stjórnvöld tengi gögn sín við landupplýsingagátt.
                  c.      Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna „Landmælingar Íslands fara“ í 1. mgr. kemur: Náttúrufræðistofnun fer.
                      2.      Í stað orðanna „Landmælingar Íslands sjá“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: Náttúrufræðistofnunin sér.
                      3.      Í stað orðanna „Landmælingar Íslands skulu“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Stofnunin skal.
                      4.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Hlutverk Náttúrufræðistofnunar.
                  d.      Í stað orðanna „Landmælingar Íslands gera“ í 1. málsl. 10. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun gerir.
                  e.      Í stað orðanna „Landmælingum Íslands“ í 12. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun.
                  f.      Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.
     6.      Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013:
                  a.      Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnun Íslands” í 3. mgr. 13. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskildu ákvæði 4. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 14. gr., kemur: Náttúrufræðistofnun.
                  b.      Í stað orðanna „skv. 10. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur“ í 4. mgr. 13. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun.
                  c.      Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 6. mgr. 13. gr. og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Náttúrufræðistofnunar.
                  d.      Í stað orðanna „samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992“ í 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun.
     7.      Lög um örnefni, nr. 22/2015:
                  a.      Í stað orðanna „Landmælingum Íslands“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun.
                  b.      Í stað orðanna „Landmælingar Íslands“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun.
                  c.      1. mgr. 9. gr. orðast svo:
                      Um örnefnagrunn fer samkvæmt ákvæðum laga um Náttúrufræðistofnun.
     8.      Búnaðarlög, nr. 70/1998: Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnun Íslands“ í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun.
     9.      Lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016: Orðið „Íslands“ í 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.
     10.      Lög um um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001: Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 2. mgr. 4. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur í viðeigandi beygingarfalli: Náttúrufræðistofnunar.
     11.      Lög um Náttúruminjasafn Íslands, nr. 35/2007: Orðið „Íslands“ í 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
     12.      Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998: Orðið „Íslands“ í 4. mgr. 5. gr., 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 34. gr. laganna fellur brott.
     13.      Lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006: Orðið „Íslands“ í 3. mgr. 15. gr. b laganna fellur brott.
     14.      Lög um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002: Í stað orðanna: „lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, með síðari breytingum“ í b -lið 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: lögum um Náttúrufræðistofnun.
     15.      Lög um um mengun hafs og stranda, nr. 33/2004: Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnun Íslands“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Náttúrufræðistofnun.
     16.      Lög um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007: Orðið „Íslands“ í 4. og 5. mgr. 12. gr. og tvívegis í 20. gr. laganna fellur brott.
     17.      Lög um um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995: Orðið „Íslands“ í 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.
     18.      Lög um um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994:
                  a.      Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnun Íslands“ í 2. mgr. 3. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskildum ákvæðum 1. mgr. 4. gr. og 8. mgr. 14. gr., kemur: Náttúrufræðistofnun.
                  b.      1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
                      Náttúrufræðistofnun stundar rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, metur ástand þeirra og gerir í framhaldi tillögur til ráðherra um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun.
                  c.      Í stað orðanna: „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 3. mgr. 4. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Náttúrufræðistofnunar.
                  d.      8. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
                      Náttúrustofa Austurlands annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun. Náttúrustofa Austurlands gerir Náttúrufræðistofnun grein fyrir niðurstöðu, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun.
     19.      Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004: IV. kafli laganna, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, fellur brott, ásamt fyrirsögn.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Starfsfólk Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, sem er í starfi við gildistöku laga þessara verður starfsfólk Náttúrufræðistofnunar. Starfsfólk þessara stofnana mun verða starfsfólk Náttúrufræðistofnunar með sömu ráðningarkjörum og áður giltu.
    Tímabundin setning forstöðumanns Náttúrufræðistofnunar Íslands rennur út 31. desember 2023 og er ráðherra þá heimilt að setja tímabundið forstjóra Náttúrufræðistofnunar til 1. júlí 2024. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um setningu í embættið til þess tíma.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    
Umhverfis- orku- og loftslagsráðherra kynnti sumarið 2022 verkefni sem fólst í því að greina tækifæri til endurskipulagningar á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Samkvæmt núverandi stöðu eru stofnanir ráðuneytisins 13 með um 600 starfsmenn á yfir 40 starfsstöðvum víða um land. Verkefnið var unnið á grundvelli áherslna ráðherra í umhverfis-, orku- og loftslagsmálum og áherslum stjórnvalda um einföldun stofnanakerfisins. Miðaði verkefnið að því að skapa vettvang fyrir kraftmikið fagstarf og árangur. Um einföldun stofnanakerfisins var m.a. horft til vinnu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra, sem skipaður var 2022, um einföldun á stofnanakerfinu og að ætlunin væri m.a. að bæta þjónustu, auka skilvirkni og auðvelda stafræna þróun ríkisins. Einnig var höfð til viðmiðunar skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá árinu 2021: „Stofnanir ríkisins. Fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni“ þar sem m.a. kemur fram að Ríkisendurskoðun telji mikilvægt að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til tillagna sem lagðar hafa verið fram í fjölda skýrslna um aukið samstarf og jafnvel sameiningu ríkisstofnana frá miðjum 10. áratug síðustu aldar.
    Verkefni þetta hófst þegar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fundaði með forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins í júní 2022 á Þingvöllum. Á fundinum kom fram að hugsunin væri sú að nýta þekkingu, innviði og greiningar sem þá þegar höfðu verið gerðar og að í vinnunni hefði verið lögð áhersla á að auka samþættingu stefnumótunar og áætlanagerðar. Lögð hefði verið áhersla á gott samstarf við forstöðumenn í greiningarferlinu sem og annað starfsfólk stofnana ráðuneytisins. Í kjölfarið setti ráðuneytið af stað frumathugun með gagnaöflun og fjölda vinnufunda. Í þeirri vinnu áttu sér stað gagnlegar umræður og þróaðist verkefnið áfram með þéttri aðkomu starfsfólks ráðuneytisins og stofnana. Til skoðunar voru öll verkefni stofnana ráðuneytisins og voru þau flokkuð í þrjá verkefnahópa þar sem skýr kjarnahæfni var skilgreind í hverjum verkefnahópi út frá eðli verkefna, árangurslyklum og áherslum. Í fyrsta lagi var um að ræða vernd og sjálfbæra umgengni, í öðru lagi rannsóknir, mælingar og vöktun og í þriðja lagi stjórnsýslu. Byggðust tillögur stýrihóps ráðuneytisins um stofnanabreytingar til ráðherra á þróaðri útgáfu þessarar nálgunar. Í greiningunni voru áherslur ráðuneytisins kortlagðar sem og framtíðarsýn og helstu markmið málaflokka. Einnig var farið yfir önnur markmið ráðuneytisins og stjórnvalda. Fyrir hvert markmið voru settir fram hvatar, framtíðarsýn, markmið og árangurslyklar. Í ágúst 2022 var netkönnun gerð til að kanna viðhorf starfsfólks stofnana til sameiningar stofnana og/eða samþættingu verkefna þeirra. Könnunin var lögð fyrir starfsfólk í öllum stofnunum, alls 470 talsins. Fjöldi þeirra sem svaraði var 346 eða 74%. Útkoman úr könnunni leiddi í ljós jákvætt viðhorf þar sem 48,2% töldu að mikil eða mjög mikil tækifæri lægju í sameiningu stofnana. Alls 63% töldu einnig að mikil tækifæri lægu í samþættingu verkefna eða samvinnu stofnana sem heyrðu undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
    Frumathuguninni lauk með því að stýrihópur ráðuneytisins skilaði ráðherra greinargerð í desember 2022. Ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins stýrði stýrihópnum en auk hans sátu í hópnum verkefnastjóri, annað starfsfólk ráðuneytisins og ráðgjafar. Í greinargerð stýrihópsins voru lagðar fram tillögur um breytingar á stofnanaskipulagi. Tillögurnar fólu í sér að leggja til þrjár öflugar stofnanir í stað tíu, sem bæru ábyrgð á helstu málaflokkum ráðuneytisins. Í fyrsta lagi að í nýrri Loftslagsstofnun yrði um að ræða samruna Orkustofnunar og þess hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar sem lýtur að stjórnsýslustarfsemi stofnunarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum. Í öðru lagi að í nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun yrði um að ræða samruna eftirtalinna stofnana: Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Minjastofnunar og þess hluta Umhverfisstofnunar er lýtur að náttúruvernd. Í þriðja lagi var lögð til stofnun nýrrar Náttúruvísindastofnunar þar sem sameinaðar yrðu Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Landmælingar Íslands og Íslenskar orkurannsóknir. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tók ákvörðun í febrúar 2023 um að framfylgja tillögum stýrihópsins. Í júlí 2023 var þó ákveðið að fresta áformum um að hafa ÍSOR og Veðurstofu Íslands með í nýrri stofnun á sviði náttúruvísinda. Þau áform eru talin þarfnast frekari skoðunar við vegna sérstöðu stofnananna. Í fyrsta áfanga er því nú fyrirhugað að færa verkefni Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn inni í Náttúrufræðistofnun Íslands með nýjum heildarlögum um stofnunina þar sem heiti hennar er breytt í Náttúrufræðistofnun.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni þess að lagt var af stað í greiningu á tækifærum til endurskipulagningar á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins var m.a. mikill fjöldi stofnana ráðuneytisins, sem eru flestar fremur litlar að umfangi og með einungis 20–50 starfsmenn. Ljóst er að almennt fylgir sameiningum stofnana nokkurt hagræði í rekstri en aðaláhersla var í vinnunni lögð á að skapa vettvang fyrir kraftmeira fagstarf og árangur, þ.e. að auka getu rekstrareininga til að vinna að markmiðum um aukin gæði með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi til lengri tíma. Í því sambandi var litið til áherslna um einföldun stofnanakerfisins eins og fram kemur í inngangskafla greinargerðar þessarar. Helstu markmið verkefnis um breytt stofnanaskipulag voru nánar tiltekið eftirfarandi:
          Að til yrðu stærri og kröftugi stofnanir sem efldu þekkingar- og lærdómssamfélag sérfræðinga.
          Að samnýta þekkingu, innviði og gögn.
          Að til yrðu faglega spennandi og áhugaverðir vinnustaðir.
          Að skapa meiri sveigjanleika stofnana til að takast á við umfangsmikil og flókin verkefni.
          Aukin samþætting stefnumótunar, einfaldari áætlanagerð og aukin rekstrarhagkvæmni.
          Betri umgjörð mannauðsmála og stuðningur við öflugt þverfaglegt teymisstarf.
          Að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifðust um landið.
          Að styðja við starfseiningar sem tryggðu stöðugar umbætur og nýsköpun í opinberum rekstri.
          Aukinn árangur með stafrænni umbreytingu.
          Að bregðast við kröfu um áreiðanlegri, skilvirkari og aðgengilegri þjónustu.
          Aukinn samfélagslegur ávinningur.
    Frumvarpið felur í sér tillögu um að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands. Tillagan leiðir til þess að þörf er á umtalsverðum breytingum á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, og því í stað þess að leggja til breytingar á þeim lögum eru lögð til ný lög um stofnunina og að lög nr. 60/1992 verði felld úr gildi. Einnig er lagt til að ákvæði laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, færist að mestu leyti í ný lög um Náttúrufræðistofnun. Í ljósi þeirrar tillögu að Landmælingar Íslands verði lagðar niður og þær verði hluti af Náttúrufræðistofnun er gert ráð fyrir að fyrrgreind lög um þá stofnun verði felld úr gildi. Þá er jafnframt þörf á að breyta lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, og fella brott kafla um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Jafnframt þarf að breyta heiti framangreindra stofnana í þeim lögum sem kveða á um tiltekin hlutverk og verkefni sem þær hafa með höndum.

3. Meginefni frumvarpsins.
1. Efnisatriði frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér talsverðar breytingar frá lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Færa þarf hlutverk og verkefni Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn inn í Náttúrufræðistofnun Íslands sem mun framvegis bera nýtt heiti, þ.e. Náttúrufræðistofnun. Breyttri stofnun er ætlað að fara með hlutverk og verkefni hlutaðeigandi stofnana og vera ráðuneytinu og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni á verksviði stofnunarinnar. Komi framangreindar breytingar til framkvæmda felur það í sér að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn renna inn í nýja og breytta Náttúrufræðistofnun.
    Í frumvarpinu er fjallað um yfirstjórn, hlutverk og skipulag Náttúrufræðistofnunar í I. kafla.
    Í II. kafla er fjallað um helstu verkefni og starfsemi stofnunarinnar, þ.e. þau svið og málefni sem henni er ætlað að fara með. Þar er listi yfir verkefni og jafnframt fjallað um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn og náttúrustofur.
    Í III. kafla er fjallað um sölu á þjónustu og gjaldskrá. Gert er ráð fyrir að kostnaður við starfrækslu Náttúrufræðistofnunar greiðist af fjárveitingum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum líkt og verið hefur án þess að það sé sérstaklega tekið fram. Í kaflanum eru ákvæði um sölu á sérhæfðri ráðgjöf, þjónustu og upplýsingum á sviði stofnunarinnar og gjaldtöku til að standa straum af rekstrarkostnaði fyrir rannsóknir og ráðgjöf, sem eru þegar í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, auk þess sem við bætast ákvæði þar að lútandi úr lögum um landmælingar og grunnkortagerð.
    Í IV. kafla er fjallað um höfundarétt, miðlun og aðgang að upplýsingum og gögnum sem stofnunin býr til og safnar. Þar er m.a. gert ráð fyrir að stofnunin miðli upplýsingum og veiti aðgang að gögnum í samræmi við lög um endurnot opinberra upplýsinga, nr. 45/2018, og upplýsingalög, nr. 140/2012, þótt það sé ekki sérstaklega tekið fram enda leiðir það af framangreindum lögum.
    Frumvarpinu er ekki ætlað að kveða á um breytingar á hlutverki hlutaðeigandi stofnana svo nokkru nemi, að því frátöldu að í frumvarpinu eru ekki tekin upp ákvæði 2. mgr. 2. gr. og 7. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur sem snúa að uppbyggingu setra sem hvert um sig hefur sjálfstæðan fjárhag. Sú breyting endurspeglar þær breytingar sem þegar hafa orðið í rekstri Náttúrufræðistofnunar Íslands sem nánar er útskýrt í 2. kafla greinargerðar þessarar.
    Í V. kafla eru almenn ákvæði og þar á meðal lítillega breytt ákvæði laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, um heimild starfsfólks stofnunarinnar til að fara um landareignir í þeim tilgangi að sinna rannsókna- og mælingastörfum og nýta heimild til söfnunar náttúrugripa, skyldu rannsakanda til að tilkynna um áður ókunn verðmæti og leyfi stofnunarinnar fyrir útflutningi náttúrugripa. Einnig er um að ræða heimild ráðherra til setningu reglugerða, gildistökuákvæði, ýmsar breytingar á öðrum lögum og bráðabirgðaákvæði.

2. Setur á grundvelli laga um Náttúrufræðistofnun Íslands lögð niður.
Í 2. mgr. 2. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, segir að stofnunin geti byggst upp af allt að fimm setrum sem hvert um sig hafi sjálfstæðan fjárhag. Auk seturs í Reykjavík geti ráðherra heimilað eitt setur í hverjum landsfjórðungi. Setrin hafa verið tvö síðan lögin tóku gildi, eitt á Akureyri og annað í Reykjavík, sem árið 2010 var flutt í Garðabæ. Síðastliðna rúma þrjá til fjóra áratugi hefur ekki þótt ástæða til að stofna til fleiri setra og ekkert útlit fyrir að það breytist. Ákvæði um sjálfstæðan fjárhag setra og ákveðin völd forstöðumanna þeirra við fjármálastjórn gerðu rekstur stofnunarinnar þungan í vöfum um langt skeið. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í nóvember 2004 um stjórnsýslu- og fjárhagsendurskoðun á Náttúrufræðistofnun Íslands, kemur fram að þáverandi stjórnskipulag stofnunarinnar sé óþarflega flókið miðað við stærð hennar og ábyrgð ekki nægilega skýr. Breyta þurfi stjórnskipulagi til að auka sveigjanleika og skýra ábyrgð. Óeðlilegt sé að setur fái sjálfstæðar fjárveitingar og að forstöðumenn þeirra hafi ákveðið sjálfstæði í stefnumótun og fjármálum. Þetta færi þeim ákveðið vald óháð því valdi og ábyrgð sem forstjóra sé falið af ráðherra. Ríkisendurskoðun taldi óæskilegt að binda stjórn og skipulag stofnana með lögum og reglugerðum og lagði til að setraskiptingin yrði lögð af til að bæta úr annmörkum stjórnskipulagsins og jafnframt að stofnunin fengi óskipta fjárveitingu.
    Brugðist var við ábendingum og tillögum Ríkisendurskoðunar og stjórnskipulagi Náttúrufræðistofnunar Íslands breytt árið 2005 og setrin lögð niður í reynd. Í staðinn var tekið upp deildaskipulag þar sem forstöðumenn deilda sækja umboð sitt beint til forstjóra. Starf forstöðumanns Reykjavíkurseturs var í raun lagt niður, en til að uppfylla ákvæði laganna um forstöðumenn setra var forstjóri stofnunarinnar settur í það starf samhliða forstjórastarfinu. Forstöðumaður Akureyrarseturs var skilgreindur í skipulaginu sem forstöðumaður Akureyrardeildar og fékk sömu stöðu og aðrir forstöðumenn deilda. Eftir að forstöðumaður Akureyrardeildar lauk störfum var enginn ráðinn í hans stað. Árið 2007 var fjárlagalið Náttúrufræðistofnunar Íslands breytt og síðan þá hefur stofnunin fengið eina óskipta fjárhæð til rekstrar eins og Ríkisendurskoðun lagði til. Breytingarnar hafa reynst vel og auðveldað verulega rekstur stofnunarinnar og gert hann skilvirkari. Hér er lagt til að málinu verði fylgt eftir með nauðsynlegum lagabreytingum, setraskiptingin verði formlega lögð af og þar með störf forstöðumanna setra og ákvæðið um aðsetur í Reykjavík fellt brott. Breytingin er í fullu samræmi við þá stefnu stjórnvalda að kveða ekki á um stjórnskipulag og skipurit stofnana í lögum um viðkomandi stofnun heldur nota samræmd almenn ákvæði.

3. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn.
    Í samningi stjórnar Laxárvirkjunar, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og forsætisráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands, sem undirritaður var hinn 16. maí 1973 af hálfu forsætisráðherra og hinn 19. maí 1973 af hálfu annarra samningsaðila, var mælt fyrir um að ríkisstjórnin léti semja frumvarp til laga um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins og legði það fyrir Alþingi. Samningur þessi markaði endalok hinnar svokölluðu Laxárdeilu sem staðið hafði um nokkurra ára skeið vegna fyrirhugaðrar virkjunar Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Var Náttúruverndarráði falið að semja frumvarpið að fengnum umsögnum ýmissa aðila er málið varðaði en endanleg gerð þess var unnin í samráði við menntamálaráðuneytið sem þá fór með náttúruverndarmál innan Stjórnarráðsins. Varð frumvarpið að lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974 (nú lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004). Síðan þá hefur Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verið starfandi og er frumvarpi þessu ekki ætlað að gera breytingu þar á. Mikilvægt er að samningur sá er gerður var 1973 verði áfram virtur.
    Breytingar sem nú eru lagðar til fela í sér að stofnunin verði starfrækt undir væng Náttúrufræðistofnunar. Því mun ákvæði 7. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, færast inn í lög um Náttúrufræðistofnun og ákvæði 8. gr. laganna um forstöðumann náttúrurannsóknastöðvarinnar og fagráð falla brott. Aðeins eru felld úr gildi ákvæði laganna er snúa að náttúrurannsóknastöðinni sem sjálfstæðri ríkisstofnun og skipulagi hennar sem slíkrar. Í því felst að ákvæði um fagráð skv. 2. mgr. 8. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, er fellt brott. Fagráð þetta hittist nú einu sinni á ári og er tilgangurinn að viðhalda tengslum náttúrurannsóknastöðvarinnar við stofnanir sem eiga fulltrúa í ráðinu en það eru Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Háskóli Íslands auk fulltrúa sveitarfélagsins. Með sameiningunni verður verkefnum komið fyrir í stærri stofnun þar sem þessa faglegu tengingu er að finna, bæði við Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands. Samkvæmt reglugerð um náttúrurannsóknastöðina er hlutverk fagráðsins að vera forstöðumanni náttúrurannsóknastöðvarinnar til ráðgjafar um vísindastarf stofnunarinnar, rannsóknastefnu og fagleg tengsl við aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir á vatnasviði Mývatns og Laxár í samræmi við lög. Í ljósi þessa er eðlilegt að fagráðið falli úr lögunum með sameiningunni.
    Náttúrurannsóknastöðin hefur lengst af starfstíma sínum verið hluti af annarri stofnun, fyrst Náttúruverndarráði 1974–1997, síðan Náttúruvernd ríkisins 1997–2002 og loks Umhverfisstofnun 2002–2004 en það ár var stöðin gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun. Umhverfisstofnun sinnti bókhaldsumsjón náttúrurannsóknastöðvarinnar fyrstu árin eftir 2004 vegna mannfæðar og aðstöðuleysis stöðvarinnar, en eftir að Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við að ein ríkisstofnun annaðist bókhaldsþjónustu annarrar var umsjón með bókhaldinu færð frá Umhverfisstofnun til umhverfisráðuneytisins. Mestu máli skiptir að áfram verði uppfyllt það ákvæði fyrstu laganna um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974, að ríkið starfræki náttúrurannsóknastöð við Mývatn og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun verði falið að taka við þessu lögbundna hlutverki.
    Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hefur staðið fyrir vöktun og rannsóknum við Mývatn og Laxá í fimm áratugi. Brýnt er að áfram verði tryggð samfella í náttúruvöktun stöðvarinnar og að það mikilvæga vísinda- og fræðastarf sem þar fer fram haldi áfram. Eitt af markmiðunum með því að færa verkefni náttúrurannsóknastöðvarinnar inn í Náttúrufræðistofnun er að efla rannsóknir og þverfaglegt starf og stuðla að samþættingu verkefna á sviði rannsókna og vöktunar.
    Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn er lítil stofnun með stórt hlutverk, en fastráðnir starfsmenn eru aðeins tveir. Aðstöðuleysi er farið að segja til sín og stofnunin hefur ekki næga burði ein og sér eigi hún að uppfylla þær margvíslegu stjórnsýsluskyldur sem ríkisstofnunum ber að sinna. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur þá aðstöðu, búnað og starfsfólk sem þarf til að sinna verkefninu og tryggja stofnanaumgjörð sem upp á vantar. Með sameiningu við stærri einingu er því ekki síst horft til samnýtingar á húsnæði, búnaði og starfsfólki.
    Starfsemi Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn fellur mjög vel að starfsemi þeirra stofnana sem sameinast í Náttúrufræðistofnun þótt umfangið sé miklu minna og verksvið þrengra. Með breytingunum verður bundið í lög að Náttúrufræðistofnun starfræki náttúrurannsóknastöð við Mývatn og sinni meginverkefnum hennar, en þau eru núna tíunduð í reglugerð sem sett er á grundvelli laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004.
    Hugmyndir um sameiningu Náttúrufræðistofnunar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn eiga sér langan aðdraganda. Í nóvember 2014 tók til starfa stýrihópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem var falið að vinna frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar. Meðal þeirra sviðsmynda sem hópurinn skoðaði var sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Þær meginforsendur sem lagðar voru til grundvallar verkefninu voru að stefna bæri að aðskilnaði milli rannsóknar- og vöktunarverkefna og stjórnsýslu annars vegar og framkvæmdaverkefna stofnana hins vegar, jafnframt að leitast við að styrkja og samræma rannsókna- og vöktunarinnviði svo að fyrir lægi skýr sýn á það hvaða rannsóknir og vöktun á náttúru landsins væri rétt að stunda á vegum stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Stýrihópurinn fundaði alls tíu sinnum, en að auki boðaði ráðuneytið fund með helstu hagaðilum í febrúar 2015 þar sem fjallað var um umgjörð stefnumörkunar og efnisþætti varðandi rannsóknar- og vöktunaráætlanir um náttúru Íslands. Því til viðbótar fundaði ráðgjafi stýrihópsins sérstaklega með forstjórum einstakra stofnana, skrifstofustjórum og ráðuneytisstjóra þar sem fjallað var um einstök viðfangsefni. Skýrsla starfshópsins var afhent ráðherra 24. mars 2015. Í niðurstöðum stýrihópsins var að finna tillögur um að sameina Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Í niðurstöðunum er bent á að náttúrurannsóknastöðin væri lítil starfseining með aðeins tvo starfsmenn og verkefni hennar eigi mikla samleið með verkefnum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í tillögunum var lagt til að rannsóknastöðin verði áfram við Mývatn og að starfseminni yrði ekki breytt heldur yrði sköpuð traustari umgjörð um hana sem hluta af stærri ríkisstofnun. Stýrihópurinn taldi að slík sameining yrði báðum stofnunum til hagsbóta. Áform um sameiningu gengu ekki eftir á þessum tíma en sömu röksemdir eiga við nú um hagkvæmni og ávinning af sameiningu.

4. Landmælingar Íslands.
    Landupplýsingar og kort eru mikilvæg til að veita upplýsingar um umhverfi og náttúru og til að vakta breytingar og náttúruvá. Aðferðir við öflun fjarkönnunargagna (loftmyndir, drónagögn og gervitunglamyndir) stafrænna korta og margvíslegra landupplýsinga um yfirborð jarðarinnar og hafsbotnsins hafa breyst hratt undanfarin ár og samhliða hefur notkun slíkra gagna aukist gríðarlega, til að mynda með lausnum á borð við Google Maps. Vegna þessarar þróunar hafa kortastofnanir víða um heim unnið að því að endurskoða hlutverk sitt, m.a. frá því að gefa út hefðbundin landakort yfir í að sinna nýjum verkefnum, eins og að innleiða og viðhalda svokallaðri grunngerð landupplýsinga og hafa aðgengilegar upplýsingar um gæði og öryggi gagna. Vegna þessa hefur orðið mikil breyting á starfsumhverfi og skipulagi Landmælinga Íslands og stöðugt er unnið að því að þróa starfsemina í takt við nýjar þarfir og breytta tækni. Einn þáttur í þeirri breytingu snýr að breyttu samkeppnisumhverfi þar sem einkafyrirtæki, alþjóðleg fyrirtæki og geimferðastofnanir geta nú með nýjum aðferðum aflað gagna sem ríkið þurfti áður að gera. Því hefur stofnunin dregið sig úr því sem kalla mætti samkeppnisrekstur á liðnum árum og hætti stofnunin t.d. loftmyndatökum af Íslandi árið 1998 og árið 2007 var kortalager og útgáfuréttur landakorta seldur með útboði. Einnig voru gögn stofnunarinnar gerð gjaldfrjáls árið 2013 með samþykki Alþingis. Í flestum nágrannalöndum Íslands hafa opinberar landupplýsingar verið gerðar gjaldfrjálsar og hefur notkun gagnanna stóraukist í kjölfarið, m.a. á sviði nýsköpunar.
    Í dag sinna Landmælingar Íslands fyrst og fremst þjónustu og samræmingarhlutverki meðal opinberra stofnana og sveitarfélaga vegna grunngagna um Ísland. Segja má að stofnuninni sé ætlað að tryggja að slík gögn séu tiltæk, aðgengileg og varðveitt óháð því hver aflar þeirra, t.d. þegar kaup á gögnum eru boðin út. Einnig er mikilvægt grunnverkefni Landmælinga að reka hnita- og hæðarkerfi landsins sem er undirstaða undir allar staðarákvarðanir, svo sem vegna framkvæmda, eignamarka, orkunýtingar, ferðaþjónustu, skipulagsmála, landnýtingar og samgangna. Þessi verkefni verða seint talin til samkeppnisrekstrar því að ríkið þarf að tryggja að grunngögn sem aflað er fyrir opinbert fé nýtist sem best og séu traust, örugg og aðgengileg. Hnita- og hæðakerfi landsins er einnig undirstöðuverkefni sem snýr t.d. að návæmni og öryggi, m.a. á sviði vöktunar á náttúruvá og varnarsamstarfs við önnur ríki.
    Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á starfsemi Landmælinga Íslands eins og hún er tilgreind í lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006. Í frumvarpinu eru ákvæði gildandi laga að mestu leyti færð inn í lög um Náttúrufræðistofnun eða sameinuð sambærilegum ákvæðum sem þar eru fyrir. Skilgreiningar sem nú eru í lögum um landmælingar og grunnkortagerð eru þó ekki færðar inn í lögin þar sem slíkar skilgreiningar eru í lögum um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar og reglugerðum á grundvelli þeirra laga. Því þarf ekki að hafa slíkar skilgreiningar í lögum um stofnunina.

5. Markmið sameiningar.
    Með sameiningu hlutaðeigandi stofnana er leitast við að einfalda stofnanaumgjörðina í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Sameiningin Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn er liður í því að efla faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna, kortlagningar og vöktunar á náttúru Íslands, sem styður eina af megináherslum ráðuneytisins, þ.e. að auka öryggi gagnvart náttúruvá með mælingum, vöktun og vörnum, samhliða öflugu rannsóknarstarfi. Tryggja þarf markvissa uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða með góðu aðgengi að rannsóknum og gögnum og áreiðanlegum rauntímamælingum. Einnig þarf að tryggja forsendur fyrir öflugum grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum sem eru unnar á grundvelli samráðs milli eininga. Ný stofnun þarf að hafa skýra og greinargóða yfirsýn yfir náttúru Íslands á hverjum tíma, búa yfir áreiðanlegum gögnum og vera öflug í miðlun upplýsinga og fræðslu. Meginmarkmiðið er að gögn um náttúrurannsóknir og mælingar séu opin þeim sem þurfa og að nýting auðlinda og náttúru landsins sé studd með rannsóknum og gögnum. Með þessu skapast aðstæður fyrir nýja stofnun til að stuðla að bættu öryggi íbúa og innviða, markvissum viðbrögðum og aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga, vernd náttúru, sjálfbærri nýtingu auðlinda og náttúru og kolefnishlutleysi Íslands 2040.
    Greiningarvinna umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins leiddi í ljós samlegð með starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Landmælinga Íslands. Þar má telja ýmis konar ávinning af sameiningu sem lýtur að faglegum viðfangsefnum, mannauði og þekkingu, fjármagni, innri virkni og þjónustu.
    Í tengslum við fagleg viðfangsefni er ávinningurinn af sameiningu talinn eftirfarandi: Skýr kjarni í starfsemi stofnana sem skapar aukin tækifæri faglega til þróunar og nýsköpunar og eflingar og árangurs, stærri vinnustaðir sem geta fremur tekist á við stórar áskoranir og umhverfi stöðugrar þróunar og markvissara þverfaglegt samstarf innan stofnana og þeirra í milli.
    Í tengslum við mannauð og þekkingu má gera ráð fyrir að sameiningin leiði til aukinnar hæfni, getu og sérhæfingar og eftirsóknarverðari og fjölbreyttari vinnustaða þar sem aukin tækifæri verða til starfsþróunar.
    Varðandi fjármagn má gera ráð fyrir að frekar verði tryggt að nýting fjármagns verði í takt við áherslur, um verði að ræða einfaldari fjárlagagerð og aukna rekstrarhagkvæmni auk betri nýtingar á húsnæði.
    Í tengslum við innri virkni má gera ráð fyrir að skýrari tenging á starfsemi stofnana verði við stefnu ráðuneytisins, aukin tækifæri gefist til einföldunar á regluverki og að sameiningin muni leiða til aukinnar skilvirkni og framleiðslu, tækifæri verði til aukinnar upplýsingagjafar, gagnsæis og aðgengis að gögnum og að um verði að ræða samþættingu krafta, þekkingar og fjármagns til að mæta loftslagsáskorunum og öðrum brýnum viðfangsefnum. Aukin tækifæri felist í betri þjónustu með skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu, færri snertiflötum og stafrænni þróun og lausnum.

6. Gildandi lög og reglur.
    Kveðið er á um meginhlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, en hún hefur einnig umfangsmikið hlutverk samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Í því felst m.a. vöktun á lykilþáttum íslenskrar náttúru, gerð áætlunar um vöktun og ábyrgð á birtingu niðurstaðna vöktunar og miðlun upplýsinga um þær. Einnig skráning náttúruminja, mat á verndargildi þeirra, umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár, ábyrgð á vöktun í samræmi við ákvæði laganna, veiting umsagna, fræðsla og ráðgjöf, umsýsla vegna starfs fagráðs um náttúruminjaskrár, seta í ráðgjafarnefnd um náttúruminjaskrár, umsagnir um undanþágur, afnám eða breytingu friðlýsinga og fl.
    Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umtalsvert hlutverk í samstarfi við Umhverfisstofnun samkvæmt lögum um lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994, að því er snýr að ráðgjöf, umsögn, rannsóknum og skráningu. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur auk þess hlutverk samkvæmt eftirtöldum lögum:
          Lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Veiting umsagna um leyfi til rannsókna og nýtingar og ábyrgð á eftirliti með nýtingu á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum.
          Lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016. Tilnefning fulltrúa í ráðgjafarnefnd um stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára.
          Búnaðarlögum, nr. 70/1998. Tilnefning fulltrúa í erfðanefnd landbúnaðarins.
          Lögum um leit rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001. Veiting umsagnar um leyfi til leitar og rannsókna- og vinnsluleyfi og skipun fulltrúa í samráðshóp eftirlitsaðila.
          Lögum um náttúruminjasafn Íslands, nr. 35/2007. Náttúrufræðistofnun er vísindalegur og faglegur bakhjarl safnsins og náið samstarf er við safnið á grundvelli samkomulags. Vísindasöfn Náttúrufræðistofnunar eru auk safnkosts safnsins undirstaða fræðslu og sýningarstarfsemi og rannsókna náttúruminjasafnsins.
          Lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018. Ráðgjöf.
          Lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Ráðgjöf.
          Lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Ráðgjöf og samstarf.
          Lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004. Ráðgjöf.
          Lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997. Gagnaöflun.
          Lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007. Samráð, álitsgjöf og ráðgjöf.
          Lögum um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995. Nefndastörf og rannsóknir á náttúru svæðisins.
    Landmælingar Íslands fara með framkvæmd laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, en í þeim lögum er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar. Stofnunin fer einnig með framkvæmd laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, nr. 44/2011, en í því felst m.a. rekstur, viðhald og tæknileg þróun landupplýsingagáttar og ráðgjöf til stjórnvalda. Landmælingar Íslands hafa einnig hlutverki að gegna samkvæmt eftirtöldum lögum:
          Lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Samráð vegna skrár yfir vegi í náttúru Íslands.
          Lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018. Hér er um að ræða ráðgjafarhlutverk stofnunarinnar.
          Lögum um örnefni, nr. 22/2015. Hlutverk varðandi örnefnagrunn og skylda til að upplýsa Landmælingar Íslands.
    Fjallað er um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn og hlutverk hennar í lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, og reglugerðum samkvæmt þeim.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur að undanförnu unnið að umfangsmiklum stofnanabreytingum. Í vinnslu eru frumvörp þar sem lagðar verða til þrjár öflugar stofnanir í stað átta. Fyrirliggjandi frumvarp er hluti af þessum tillögum þar sem gert er ráð fyrir að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands undir heitinu Náttúrufræðistofnun. Breyting þessi á stofnunum hefur áhrif á starfsfólk viðkomandi stofnana og ráðuneyti, sveitarfélög og almenning. Fyrir liggur samskiptaáætlun sem er fylgt eftir af stýrihópi ráðuneytisins. Auk þessa hefur náið samráð verið viðhaft við viðkomandi stofnanir, starfsmenn þeirra og stjórnir og verkefnið kynnt fyrir starfsmönnum ráðuneytisins sem og öðrum ráðuneytum, kjarafélögum, þingflokkum, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, Sambandi íslenskra sveitarfélagi, Félagi fornleifafræðinga og Félagi forstöðumanna. Við samruna stofnana þarf að huga vel að mannauðsmálum og líðan starfsfólks og upplýsingamiðlun í gegnum allar breytingar og er því að störfum sérstakur mannauðshópur sem stýrt er af ráðuneytinu og í sitja fulltrúar viðkomandi stofnana ásamt ráðgjafa. Hlutverk hópsins er að greina stöðu mannauðmála gagnvart ýmsum stefnutengdum málum eins og jafnlaunavottun, starfaflokkun, launasetningu, lýsingu starfa og verkefna, mönnunarþörf, styrkleika- og hæfnigreiningu mannauðsins, sem og þróun starfa til framtíðar.
    Áform um lagasetningu vegna fyrirhugaðrar sameiningar tíu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis í þrjár öflugar stofnanir fóru í innra samráð í maí 2023 og í ytra samráð í samráðsgátt stjórnvalda 30. maí til 13. júní 2023, mál nr. S-103/2023. Ráðuneytinu bárust alls 20 umsagnir um áformin.
    Í umsögnum Byggðaráðs Skagafjarðar og Fljótsdalshrepps eru áformin litin jákvæðum augum.
    Ráðuneytinu barst einnig umsögn frá fyrrverandi veðurstofustjóra, þar sem segir að ýmislegt sé jákvætt í sameiningaráformunum. Í umsögninni voru hins vegar gagnrýnd áform um nýja Náttúruvísindastofnun og segir að í eðli sínu séu umræddar stofnanir gerólíkar. Í umsögninni var Veðurstofan aðallega nefnd í því sambandi. Segir að meginhlutverk Veðurstofunnar sé víðfeðmt og að stærstum hluta frábrugðið nánast öllum öðrum stofnunum. Kemur einnig fram gagnrýni á að í áformunum sé ekki litið til stofnana sem heyra undir önnur ráðuneyti. Í umsögn fyrrverandi forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, segir einnig að margt sé gott í umræddum áformum, þar á meðal eldri tillögur, eins og sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Hann gagnrýnir þó að áformin nái ekki einnig til stofnana annarra ráðuneyta. Í umsögninni kemur einnig fram gagnrýni á áform um nýja Náttúruvísindastofnun. Segir að um sé að ræða gerólíkar stofnanir með ólík hlutverk sem stangist á og að sameining myndi draga úr mikilvægi þeirra sem eftirlitsaðila, ráðgjafa og umsagnaraðila um málefni er varði vernd og nýtingu náttúrunnar. Gagnrýnin lýtur í umsögninni aðallega að þátttöku Veðurstofunnar og ÍSOR í nýrri Náttúruvísindastofnun.
    Í umsögn Félags fornleifafræðinga segir að ekki verði séð að ábendingar Ríkisendurskoðunar hafi verið hafðar til hliðsjónar að öllu leyti auk þess sem skortur hafi verið á samráði og rökstuðningi fyrir áformunum. Umsögnin er að öðru leyti bundin við áform um nýja Náttúruverndar- og minjastofnun.
    Í umsögn Andrésar Skúlasonar, formanns fornminjanefndar, koma fram athugasemdir við að ekki hafi verið unnið frekar með hugmyndir um aukið samstarf stofnana. Þar er gagnrýnd sú nálgun að sameina stofnanir sökum stærðar þeirra þar sem þær séu eðlisólíkar og undirmannaðar. Í umsögninni er bent á að ekki liggi fyrir hvernig eigi að efla stofnanir og að tölur um sparnað séu órökstuddar. Þá er m.a. gagnrýnt að Úrvinnslusjóður og stofnun Vilhjálms Stefánssonar séu ekki með í áformunum. Að mati umsagnaraðila gætu áformin leitt til uppsagna margra sérfræðinga, sem mundi leiða til þess að þekking tapaðist. Þá hefði verið þörf á ýtarlegri samrunaáætlun og vísi að skipuriti fyrir nýjar stofnanir. Skortur hafi verið á samráði og ekki lýst ítarlega mati á áhrifum. Skoðanakönnun meðal starfsmanna stofnana hafi verið oftúlkuð hvað varðar afstöðu til sameininga.
    Að mati Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins fela áformin í sér mikilvægar breytingar í þágu hagræðingar og aukinnar skilvirkni, sem setji gott fordæmi. Hvetja samtökin til endurskipulagningar og aukinnar skilvirkni eftirlits og að dregið verði úr opinberum samkeppnisrekstri og útvistun verkefna aukin.
    Í umsögn Landverndar er talið að áformin séu of mikið bundin við stofnanir ráðuneytisins. Segir þar að markmið sameiningar séu eingöngu á grundvelli rekstrar og byggðarþróunar. Bent er það tryggja þurfi að ekki verði rof á lykilstarfsemi stofnana við sameiningar og að tryggja þurfi fagfólki áframhaldandi starf og að þekking og reynsla glatist ekki. Að mati Landverndar er rétt að byrja á því að sameina stofnanir sem sinna náttúruvernd.
    Í umsögn Viðskiptaráðs er sameiningaráformum fagnað og hvatt til frekari sameininga. Í því sambandi er vísað til kostnaðar við umfangsmikið stofnanakerfi og bent á að áformin samræmist þróun í Evrópu.
    Í umsögn Jarðborana hf. var gagnrýnt að ÍSOR væri hluti af sameiningaráformum hvað varðar nýja Náttúruvísindastofnun.
    Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða telja ýmislegt jákvætt við áformin. Að mati samtakanna ætti áhersla að vera á skilvirka stjórnsýslu, vel útfærð markmið og skýra verkaskiptingu.
    Fjórðungssamband Vestfirðinga kveðst í umsögn sinni styðja áformin og lítur þar til byggðasjónarmiða. Leggur fjórðungssambandið áherslu á eflingu atvinnustarfsemi á Vestfjörðum og telur að markmið sameiningar eigi að tengja við markmið og aðgerðir Byggðaáætlunar. Að mati sambandsins eru einnig tækifæri í samþættingu og samstarfi stofnana annarra ráðuneyta, sem og ráðuneyta.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að sameiningar séu farsælt skref til að tryggja heilbrigða stjórnsýslu og gott samstarf stofnana og sveitarfélaga. Huga þurfi vel að þekkingu og mannauði. Þá þurfi stjórnsýsla að vera skilvirk og stafræn og leiðsagnarhlutverk stofnana að haldast.
    Félag íslenskra náttúrufræðinga bendir á mikilvægi samstarfs við verkalýðshreyfinguna og aðra hagsmunaaðila. Kveðst félagið ekki gera athugasemdir við áformin ef réttum ferlum og ákvæðum laga sé fylgt. Lögð er áhersla á mannauðinn og að verklag og framkvæmd séu fyrirsjáanleg. Mikilvægt sé að frumvörp um sameiningar liggi fyrir áður en framkvæmd sameiningar eigi sér stað. Kveðst félagið gera ráð fyrir að starfsfólk gangi til sömu starfa eftir samruna og fyrir hann. Skýrt þurfi að vera hvort öllum verði boðið starf eða geti sótt um starf og er bent á að ekkert liggi fyrir um starfskjör starfsfólks. Halda þurfi til haga að hvers konar áunninn réttindi starfsfólks haldist. Í umsögninni er lagt til að um verði að ræða aðlögunartíma í frumvörpum um nýjar stofnanir eftir að lögin hafi tekið gildi.
    Að lokum er í umsögn umhverfis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar lögð áhersla á að staðinn verði vörður um starfsstöðvar á Vestfjörðum og að stofnanir verði styrktar.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fagnar því hversu margir umsagnaraðilar taka jákvætt í sameiningaráformin. Hvað varðar athugasemdir er lúta að Veðurstofunni og ÍSOR þá eru þær hafðar til hliðsjónar við frekari greiningu á möguleikum er varða þessar stofnanir, en eins og frumvarpið ber með sér þá eru þessar stofnanir ekki hluti af frumvarpinu. Einnig skal tekið fram að áform eru um að stofnun Vilhjálms Stefánssonar renni inn í Háskólann á Akureyri á næstunni og er gert ráð fyrir að frumvarp í þá veru verði lagt fram á haustþingi 154. löggjafarþings. Hvað varðar athugasemdir er lúta að Úrvinnslusjóði þá er framtíðarskipulag hans til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu.
    Í umsögnum er nokkuð vikið að því að frekari gaum þurfi að gefa tækifærum er lúta að verkefnum annarra ráðuneyta og stofnana. Tekið er undir þær athugasemdir og áformað að halda þeirri vegferð áfram að kanna tækifæri í samlegð slíkra verkefna við verkefni ráðuneytisins og stofnana þess og möguleika á tilfærslu verkefna.
    Að lokum skal bent á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir að starfsfólk Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn verði við gildistöku laganna starfsfólk Náttúrufræðistofnunar með sömu ráðningarkjörum og áður giltu, sbr. einnig athugasemdir við ákvæðið. Sumt starfsfólk kann þó að þurfa að hlíta breytingum á störfum eða starfssviði í samræmi við nýtt skipurit eftir að ný stofnun hefur tekið til starfa. Hvað varðar forstöðumenn þessara stofnana er gert ráð fyrir að embætti þeirra verði lögð niður og að þeim verði boðið annað starf hjá Náttúrufræðistofnun. Í tengslum við athugasemdir er lúta að samrunaáætlun og stefnumótun vegna Náttúrufræðistofnunar hefur samrunaáætlun um ferli sameiningarinnar verið gerð í samráði við forstöðumenn umræddra stofnana. Ýmsa undirbúningsvinnu þarf að vinna auk þess sem gert er ráð fyrir að hafist verði handa við heildstæða stefnumótun fyrir málefni Náttúrufræðistofnunar verði frumvarpið að lögum. Í stefnumótuninni felst að móta nýja framtíðarsýn, meginmarkmið og áherslur, með víðtækri þátttöku starfsfólks.
    Frumvarp þetta var samið í samvinnu við viðkomandi stofnanir auk þess sem drög að frumvarpinu voru kynnt sérstaklega fyrir starfsfólki þeirra áður en þau voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 18. september 2023, sjá mál nr. S-166/2023. Alls sjö umsagnir bárust á umsagnartímanum.
    Sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um frumvarpið er samhljóma fyrri umsögn samtakanna um áformaða lagasetningu. Í umsögninni er frumvarpinu fagnað og ráðuneytið hvatt til að nýta tækifæri við sameiningu opinberra stofnana til endurskoðunar á starfsemi þeirra með það að markmiði að draga úr samkeppnisrekstri þeirra og innhýsingu verkefna.
    Samband íslenskra sveitarfélaga segir í umsögn sinni að sambandið leggist ekki gegn frumvarpinu í ljósi samlegðar með viðkomandi stofnunum. Þá liggi fyrir að hvorki eigi að fækka starfsmönnum né starfsstöðvum við sameininguna. Mikilvægt sé að halda í mannauð og þekkingu starfsfólks stofnana til þess að sameiningin verði farsæl. Sameiningar stofnana hafi á undanförnum árum valdið töluverðu raski á starfsemi þeirra og tíma hafi tekið að byggja upp haldbæra þekkingu á einstökum málaflokkum.
    Landsvirkjun styður frumvarp um fyrirhugaða Náttúrufræðistofnun og segir að fjölmennari stofnun muni skapa frekari tækifæri til að styrkja umsýslu og byggja upp þekkingu ásamt bættu samspili málefna innan nýrrar stofnunar. Segir Landsvirkjun að sameining átta stofnana ráðuneytisins í þrjár, sem gegni lykilhlutverki í átt að loftslagsmarkmiðum Íslands sé fagnaðarefni og til þess gert að auka skilvirkni og gegnsæi og bæta upplýsingaflæði. Hvetur Landsvirkjun til þess að tryggt verði að lagaumgjörð og regluverk verði skýrt þannig að ekki muni leika vafi á ábyrgð og hlutverki nýrrar stofnunar.
    Landgræðslan segir í umsögn sinni að stofnunin fagni því ef ný stofnun verði öflug með aukinn slagkraft til að vinna fyrirliggjandi verkefni. Bent er á að mögulega séu ekki fyllilega nýtt tækifæri til að skoða þá skörun sem sé og hafi verið milli umræddra stofnana og annarra, til að mynda Landgræðslunnar. Þetta sé vert að hafa í huga í þeirri nýju og breyttu stofnanauppbyggingu sem unnið sé að, eins og fram hafi komið af hálfu ráðuneytisins í samráðskafla frumvarpsdraganna.
    Landvernd telur það vera til bóta að efla tengingar milli náttúruvísinda þar sem þau hafi mikilvægt hlutverk á tímum þar sem loftslagsbreytingar, mengun og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni ógni lífvænleika jarðar. Gæta þurfi þess að verkefni falli ekki niður við sameininguna og að þekking tapist ekki. Náttúruvísindi séu undirfjármögnuð og vanti gögn. Sameiningin þurfi að hafa þau áhrif að styrkja og efla vísindastarf. Þá sé sérstaklega mikilvægt að eftirlitshlutverk og rannsóknarhlutverk viðkomandi stofnana verði eflt sem og þær heimildir og hlutverk sem þær hafi við vernd náttúrunnar.
    Í umsögn Þingeyjarsveitar er sérstök athygli vakin á mikilvægi Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn í rannsóknum á lífríki Mývatn og Laxár. Einnig er bent á nauðsyn þess að sambærileg starfsemi verði áfram í Mývatnssveit, sem sinni m.a. langtímavöktun á lífríkinu.
    Í umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga eru gerðar almennar athugasemdir við framkvæmdina en um leið fagnað merki um betra samráð og samskipti utan hinna formlegu samráðsferla. Félagið leggur áfram áherslu á að réttum ferlum sé fylgt við stofnanabreytingar, starfsfólki sé sýnd virðing og að verklag og framkvæmd sé fyrirsjáanleg. Grundvallaratriði sé að starfsfólk gangi til sömu starfa eftir samrunann, a.m.k. til að byrja með. Félagið fagnar þeirri aðferðarfræði í frumvarpinu er varðar starfsfólk og þeirra störf. Ákvæði til bráðabirgða endurspegli þó ekki að öllu leyti þá umfjöllun sem sé að finna í greinargerð, þ.e. að kjör og réttindi haldist. Launakjör ráðist af kjarasamningum og kjarasamningar opinberra starfsmanna séu tvískiptir, miðlægur kjarasamningur og stofnanasamningur. Stofnanasamningar mæli m.a. fyrir um röðun í launaflokka, m.a. á grundvelli mats á menntun, starfstengdum þáttum og persónulegum þáttum ásamt fleiri atriðum. Einnig séu ýmis ákvæði miðlægs kjarasamnings þannig útfærð að réttindi miðist við samfellt starf hjá sömu stofnun. Í því sambandi er bent á grein 10.1.1 um námsleyfi og grein 17.1.1. um lengdan uppsagnafrest í kjarasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga og ríkisins. Félagið bendir á að þegar hliðstæðar sameiningar hafa átt sér stað hafi hingað til verið reynt að tryggja samfellu í starfseminni. Þó að störf séu lögð niður við flutning verkefna stofnananna þá þurfi að halda til haga að hvers konar áunnin réttindi starfsfólks muni ekki tapast. Komi slíkt upp verði að telja að vegið yrði ómálefnalega að réttindum starfsfólks þeirra stofnana sem renna inn í Náttúrufræðistofnun. Leggur félagið til að í frumvarpinu verði bráðabirgðaákvæði sem taki á þessum atriðum. Þá er að mati félagsins nauðsynlegt að gerð stofnanasamninga við viðkomandi stéttarfélög vegna sameiningarinnar verði hraðað og þeir liggi helst fyrir áður en hin fyrirhugaða sameinaða stofnun taki formlega til starfa. Leggur félagið einnig til bráðabirgðaákvæði sem taki á atriðum er varði stofnanasamninga. Í umsögninni segir þá að lykilatriði að farsælli sameiningu sé að forstjóri sé til staðar sem taki við keflinu og innleiði sameininguna. Að mati félagsins eru sex mánuðir lágmarkstími til að ganga frá öllum atriðum. Að mati félagsins er afar stuttur tími ætlaður í undirbúning sameiningar. Félagið nefnir einnig að staða náttúrustofa sé að mörgu leyti óskýr. Telur félagið mikilvægt að staða og stjórnskipan náttúrustofanna sé skýr og tryggð þannig að hlutverki og markmiði þeirra sé náð.
    Afar mikilvægt er hversu jákvæðar undirtektir frumvarpið hefur fengið í samráðsferlinu. Taka má undir ábendingar um að mikilvægt sé að halda í mannauð og þekkingu starfsfólks til að sameiningin verði farsæl auk þess sem mikilvægt er að byggja áfram upp faglega þekkingu. Þakkaðar eru ábendingar um efnislegar breytingar er lúta að verkefnum eða þáttum í starfsemi nýrrar stofnunar, sem munu verða teknar til nánari skoðunar, en jafnframt er bent á að frumvarpi þessu er ekki ætlað að leggja til slíkar breytingar. Vegna athugasemda í umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga hefur verið leitast við að gera bráðabirgðaákvæði frumvarpsins skýrara og kemur þar nú fram að starfsfólk Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, sem er í starfi við gildistöku bráðabirgðaákvæðisins, verði starfsfólk Náttúrufræðistofnunar með sömu ráðningarkjörum og áður giltu. Að lokum skal tekið fram að auk framangreinds samráðs hefur ráðuneytið kallað eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og annarra í samráðsgátt stjórnvalda vegna endurskipulagningar stofnanakerfisins og þar á meðal leitað eftir því að tilteknum lykilspurningum sé svarað. Ætlunin er að vinna með þær athugasemdir og sjónarmið sem þar munu koma fram í undirbúningsvinnunni fram undan.

6. Mat á áhrifum.
    Eins og fram kemur í 3. kafla leiddi greiningarvinna umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í ljós faglegan ávinning af sameiningaráformum, ávinningi í tengslum við mannauð og þekkingu, fjármagn, innri virkni og þjónustu. Gert er ráð fyrir að skýr kjarni í starfsemi Náttúrufræðistofnunar veiti aukin fagleg tækifæri til þróunar og nýsköpunar og eflingar og árangurs. Stærri vinnustaður geti fremur tekist á við stórar áskoranir og umhverfi stöðugrar þróunar og markvissara þverfaglegt samstarf innan stofnana og þeirra í milli. Þá er gert ráð fyrir að sameiningin leiði til aukinnar hæfni, getu og sérhæfingar og að vinnustaðurinn verði eftirsóknarverðari og fjölbreyttari og aukin tækifæri verði til starfsþróunar. Gera má ráð fyrir að nýting fjármagns verði frekar í takti við áherslur stjórnvalda, fjárlagagerð verði einfaldari og rekstrarhagkvæmni aukist auk betri nýtingar á húsnæði. Vonir eru til skýrari tengingar á starfsemi stofnana við stefnu ráðuneytisins, aukinna tækifæra til einföldunar á regluverki og aukinnar skilvirkni og framleiðslu. Tækifæri eru þá til aukinnar upplýsingagjafar, gagnsæis, bætts aðgengis að gögnum og samþættingu krafta, þekkingar og fjármagns til að mæta loftslagsáskorunum og öðrum brýnum viðfangsefnum. Aukin tækifæri felast einnig í betri þjónustu við almenning og stjórnvöld, þ.m.t. sveitarfélög, og aðra með skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu, færri snertiflötum vegna sameiningar málaflokka og stafrænni þróun og lausnum.
    Tillaga að fækkun stofnana og skiptingu verkefna byggist á þessari nálgun. Náttúrufræðistofnun er ætlað að taka við verkefnum er lúta að rannsóknum, mælingum, kortlagningu, skráningu, upplýsingamiðlun, vöktun o.fl. sem nú er sinnt í þremur stofnunum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Því er lagt til að þessar þrjár stofnanir verði sameinaðar, þ.e. að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn sameinist Náttúrufræðistofnun Íslands í Náttúrufræðistofnun.
    Eins og fram hefur komið má gera ráð fyrir að sú stofnanabreyting sem frumvarpið boðar hafi áhrif á starfsfólk viðkomandi stofnana og ráðuneyti, sveitarfélög og almenning. Ekki er alfarið hægt að útiloka áhrif í tengslum við jafnrétti kynjanna ef einhverjar breytingar verða gerðar á störfum í kjölfar nýs skipurits.
    Sameining stofnana hefur í för með sér hagræðingu til lengri tíma sem nýtt verður til að efla hina nýju stofnun. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess muni hafa áhrif á útgjöld eða afkomu ríkissjóðs. Til skemmri tíma er þó líklegt að einhver kostnaður falli til vegna sameiningar stofnana svo sem vegna mögulegra biðlauna, breytinga á nýtingu húsnæðis, tækjabúnaðar, upplýsingakerfa o.fl. og verður honum mætt innan útgjaldaramma.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um yfirstjórn og hlutverk Náttúrufræðistofnunar og greint frá helstu hlutverkum hennar sem fram koma í 1. mgr. 4. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, 1. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, og í ákvæðum um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn í lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004. Þrátt fyrir að frumvarpið feli í sér heildarlög um nýja Náttúrufræðistofnun er lagt upp með að hún hafi að meginstefnu til sömu hlutverk og verkefni og viðkomandi stofnanir hafa samkvæmt gildandi lögum.

Um 2. gr.

    Greinin felur í sér ákvæði um forstöðumann ríkisstofnunar og hlutverk hans og ábyrgð hvað varðar stjórn stofnunarinnar.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að forstjóri sé skipaður til fimm ára eins og almennt er gert ráð fyrir í lögum, nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, er gert ráð fyrir að forstjóri hafi háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Í lögum um Landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, er gert ráð fyrir að forstjóri Landmælinga hafi háskólamenntun og reynslu af stjórnun og í lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, segir að forstöðumaður skuli hafa háskólamenntun í náttúrufræðum sem nýtist honum í starfi. Í frumvarpi þessu þykir nægjanlegt að forstjóri Náttúrufræðistofnunar hafi háskólamenntun sem nýtist honum í starfi, sem veitir ákveðinn sveigjanleika í við ráðningu hans. Skýrt er í greininni að forstjóri beri ábyrgð á starfsemi og rekstri Náttúrufræðistofnunar, sem er meginhlutverk hans.
    Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda m.a. um forstöðumenn ríkisstofnana og er ábyrgð þeirra til að mynda skilgreind í 38. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er tilgreint hvað felst í ábyrgð forstjóra Náttúrufræðistofnunar. Honum er ætlað að sjá til þess að stofnunin starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem gilda um starfsemi hennar. Einnig ber honum að fylgja stefnu stjórnvalda eins og við á hverju sinni. Forstjóri ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Ef útgjöld stofnunar fara fram úr fjárlagaheimildum eða verkefnum hennar ekki sinnt á forsvaranlegan hátt líkt og forstöðumanni ber að tryggja má veita honum áminningu skv. 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Forstöðumaður hefur því yfirumsjón með rekstri stofnunar, framkvæmd verkefna hennar og starfsmannamálum. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, ber forstöðumaður ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að starfsemi skili árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og samþykktar áætlanir. Í 36. gr. sömu laga er vísað til 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins varðandi ábyrgð forstöðumanna þar sem í 2. mgr. kemur fram að ábyrgðin nái m.a. til þess að rekstur og fjárstýring ríkisaðila sé skilvirk og í samræmi við samþykktar áætlanir. Forstjóri stofnunarinnar ber ábyrgð á yfirstjórn starfsmannamála og er það því í höndum forstjóra að ráða aðra starfsmenn stofnunarinnar.
    Í 3. mgr. er tekið fram að stofnunin skuli árlega gera áætlun um störf stofnunarinnar, birta skýrslu um starfsemi sína og setja sér stefnu til lengri tíma um starfsemi og meginverkefni stofnunarinnar í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru talin upp sömu verkefni Náttúrufræðistofnunar og tilgreind eru í 4. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. 1. mgr. 4. gr. laganna er þó ekki tekin upp í frumvarpið. Í því felst þó engin raunveruleg breyting því að efni hennar leiðir af 1. gr. frumvarpsins. Þá er einnig lagt til að núverandi orðalag verði stytt hvað varðar það verkefni Náttúrufræðistofnunar að skrá berg- og jarðgrunna landsins og vinna að flokkun námasvæða, sjá 9. tölul. 1. mgr. Lagt er til að tekið verði út að stofnunin vinni að flokkun námasvæða þar sem því verkefni er nú sinnt af Vegagerðinni. Við upptalningu á verkefnum í greininni bætast verkefni Landmælinga Íslands, sbr. 4. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006. Auk þess er lagt til að efni 8. gr. laga nr. 60/1992, um aðild Náttúrufræðistofnunar að sýningarsöfnum, útlán gripa o.fl., færist í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins um verkefni stofnunarinnar. Vísað er þó til gripa Náttúrufræðistofnunar sjálfrar en ekki gripa setra, enda hafa setrin verið aflögð.
    Ákvæði 1. mgr. felur í sér almennt ákvæði um að stofnunin sé ráðuneytinu til ráðgjafar á fagsviðum stofnunarinnar og skuli í starfsemi sinni vinna að lögbundnum markmiðum og stefnu stjórnvalda hverju sinni. Einnig er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun skuli eiga faglegt samstarf við háskóla, stofnanir, fyrirtæki og alþjóðleg samtök í samræmi við verkefni stofnunarinnar en það ákvæði á sér fyrirmynd í 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006.

Um 4. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um þau verkefni sem færast til Náttúrufræðistofnunar frá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn. Fjallað er nánar um samlegð og hagræðingu sem hlýst af sameiningu stöðvarinnar við Náttúrufræðistofnun í 3. kafla greinargerðarinnar, um meginefni frumvarpsins. Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að í stað ákvæða 9.–14. gr. laga nr. 60/1992, sem fjalla um náttúrustofur, verði til einföldunar ein lagagrein. Engar breytingar eru hins vegar lagðar til á núverandi starfsemi náttúrustofa.

Um 6. gr.

    Um er að ræða nánast óbreytt ákvæði 5. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, um gjaldtöku, gjaldskrá o.fl., auk þess sem bætt er við efnisákvæðum 7. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, um gjaldskrá og öflun tekna. Ekki þarf að taka fram að stofnunin er fjármögnuð samkvæmt fjárlögum en ákvæðið felur í sér að stofnunin hafi heimild til að afla sér tekna með sölu á sérhæfðri ráðgjöf og þjónustu við vinnslu og afgreiðslu gagna sem eru í vörslu stofnunarinnar. Í því sambandi ber einnig að hafa í huga ákvæði upplýsingalaga, nr. 140/2012, og laga um endurnot opinberra gagna, nr. 45/2018, sem fela í sér takmarkanir á gjaldtöku. Framsetning greinarinnar felur ekki í sér neina breytingu varðandi sölu Náttúrufræðistofnunar Íslands eða Landmælinga Íslands á gögnum og þjónustu.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að tekið verði upp nánast óbreytt ákvæði 6. gr. laga nr. 60/1992, að undanskildu því að tvær málsgreinar bætast við sem eru sama efnis og 6. gr. laga um landmælingar og kortagerð, nr. 103/2006. Það ákvæði kveður á um skyldu til að miðla upplýsingum og veita aðgang að gögnum sem eru í vörslu stofnunarinnar, enda brjóti afhending ekki gegn lögvernduðum rétti þriðja aðila. Einnig er þar kveðið á um heimild til að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði landmælinga og kortagerðar að því tilskildu að uppruna sé getið og að áreiðanleiki upplýsinga sé tryggður.

Um 8. gr.

    Lagt er til í greininni að kveðið verði á um höfundarétt í lögum um Náttúrufræðistofnun, þ.e. eignarétt að gögnum o.fl. í eigu stofnunarinnar. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 5. gr. laga um landmælingar og kortagerð, nr. 103/2006. Í ákvæðinu er kveðið á um eignarétt ríkisins að öllum réttindum sem Náttúrufræðistofnun öðlast og hefur eignast. Með því er átt við að ríkið á öll réttindi sem Landmælingar Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa hingað til aflað og síðan að öllu því efni sem Náttúrufræðistofnun öðlast í framtíðinni. Tekið er fram að stofnunin gætir hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem hún hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við rannsóknir, mælingar, kort, myndir eða annað efni. Tekin eru af tvímæli um að ríkið á höfundarétt að gögnum sem starfsmenn vinna á vegum stofnunarinnar nema um annað sé samið. Í rannsóknastofnunum þar sem mikið af gögnum safnast í starfseminni er ljóst að þótt einstaklingar vinni að söfnun gagnanna og greiningu á þeim, þá eiga þeir ekki höfundarétt að þeim. Þeir fá laun fyrir að safna gögnunum og vinna úr þeim. Þetta er þó ekki nógu ljóst í höfundalögum nema varðandi vinnu við tölvuforrit og því þykir rétt að eyða óvissu um þetta atriði. Tekið skal þó fram að starfsmaður stofnunar getur átt sæmdarrétt í þeim tilvikum sem höfundaréttur skapast. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög, nr. 73/1972.

Um 9. gr.

    Ákvæðið er efnislega sambærileg ákvæði 15. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Orðalagi er þó breytt lítillega sökum þess að verkefni Landmælinga Íslands eru þar einnig tilgreind.
    Í 1. mgr. er steypt saman ákvæðum 8. gr. laga um landmælingar og kortagerð, nr. 103/2006, er fjallar um skyldu til að heimila för um landareign og uppsetningu mælingapunkta sem nauðsynleg er til að framkvæma lögin og sambærilegu ákvæði 1. mgr. 15. gr. laga nr. 60/1992.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild til að safna náttúrugripum í þágu stofnunarinnar sem er sams konar heimild og fram kemur í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 60/1992.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu rannsakanda til að tilkynna rétthafa lands um áður ókunn verðmæti ef rannsókn leiðir í ljós slík verðmæti. Sams konar ákvæði er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 60/1992.
    Í 4. mgr. er kveðið á um bann við útflutningi náttúrugripa og örvera nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar. Fyrirmynd að þessu ákvæði er í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 60/1992.

Um 10. gr.

    Greinin mælir fyrir um heimild ráðherra til að setja reglugerðir um verkefni og starfsemi Náttúrufræðistofnunar, m.a. þau sem nú þegar eru til reglugerðir um samkvæmt þeim lögum og lagaákvæðum sem felld verða úr gildi og nefnd eru í greininni. Verkefnin eru þó ekki tæmandi talin í greininni. Fyrirmyndin að greininni er 16. gr. laga nr. 60/1992, þó með þeirri breytingu að heimild ráðherra til setningu reglugerða er gerð skýrari og frekar tryggt að núgildandi reglugerðir um verkefni stofnunarinnar hafi lagastoð.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð, að höfðu samráði við stofnunina, nánari ákvæði um skipulag hennar. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, kveður ráðherra t.d. á um aðsetur stofnunar sem heyrir undir hann og er því m.a. unnt að kveða á um þá staðsetningu í reglugerð um skipulag stofnunarinnar. Í 2. mgr. er einnig gert ráð fyrir að ráðherra geti tekið ákvörðun um staðsetningar starfsstöðva stofnunarinnar líkt og á við um aðsetur hennar. Eins og áður hefur komið fram var eitt af markmiðum verkefnisins um breytt stofnanaskipulag að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifast um landið. Í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036, nr. 27/152, er að finna aðgerð um staðarval ríkisstarfa, þar sem markmiðið er að dreifing opinberra starfa verði jöfnuð og stuðlað að fjölbreyttu atvinnulífi sem víðast um landið (aðgerð B.6). Einnig er þar að finna aðgerð B.7 um óstaðbundin störf þar sem markmiðið er að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni. Þessar aðgerðir og markmið hafa verið leiðarljós við umræddar stofnanabreytingar eins og endurspeglast í 2. mgr.
    Gert er ráð fyrir að þörf verði á að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd ákvæða 7. gr. um miðlun og varðveislu upplýsinga. Því er í 3. mgr. 10. gr. kveðið á um setningu slíkra reglna.

Um 11. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2024 og að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn flytjist þá til Náttúrufræðistofnunar. Á sama tíma falli úr gildi lög um Landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, og lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Að höfðu samráði við forstöðumenn umræddra stofnana þykir ekki þörf á sérstökum aðlögunartíma, m.a. sökum þess að starfsmenn Landmælinga og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn verða við gildistöku laganna starfsmenn Náttúrufræðistofnunar.
    Við sameiningu umræddra þriggja stofnana er óhjákvæmilegt að leggja niður embætti forstöðumanna þeirra stofnana sem verða hluti af Náttúrufræðistofnun, þ.e. Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Núverandi forstjóri Landmælinga Íslands er með tímabundna setningu til loka árs 2023. Fyrir setninguna var hann starfsmaður þessarar sömu stofnunar og mun því njóta sömu kjara og annað starfsfólk stofnunarinnar við gildistöku laganna, sjá nánar ákvæði til bráðabirgða. Forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn nær 70 ára aldri í byrjun árs 2024 og er því ekki tilefni til að kveða á um í lögum um Náttúrufræðistofnun að honum skuli boðið starf í stofnuninni.

Um 12. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á hinum ýmsu lögum sem Náttúrufræðistofnun Ísland, Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn starfa eftir. Tilgangur greinarinnar er að yfirfæra viðkomandi verkefni og hlutverk Landmælinga og náttúrurannsóknastöðvarinnar til Náttúrufræðistofnunar. Um helstu verkefni og hlutverk er fjallað í athugasemdum við 1. og 3. gr. frumvarpsins og vísast til þeirrar umfjöllunar hvað það varðar.
    Að langmestu leyti felur 12. gr. frumvarpsins í sér breytingar á stofnanaheitum í lögum. Í þeim tilvikum sem fleiri en ein af umræddum stofnunum hafa lögbundið ráðgjafarhlutverk eru slík hlutverk sameinuð. Í greininni er einnig lagt til að bráðabirgðaákvæði sem hafa runnið sitt skeið verði felld úr gildi. Lagt er til að IV. kafli, 7. og 8. gr., laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, falli brott en ákvæði 7. gr. færist í ný lög um Náttúrufræðistofnun. Jafnframt að ákvæði 8. gr. laga um forstöðumann náttúrurannsóknastöðvarinnar og fagráð, nr. 97/2004, verði fellt brott. Aðeins er lagt til að felld verði úr gildi ákvæði laganna er snúa að náttúrurannsóknastöðinni sem sjálfstæðri ríkisstofnun og skipulagi hennar sem slíkrar. Í því felst m.a. tillaga um að fagráð skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 97/2004 verði lagt niður. Tilgangur fagráðsins er að viðhalda tengslum náttúrurannsóknastöðvarinnar við stofnanir sem eiga fulltrúa í ráðinu en það eru Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Háskóli Íslands auk fulltrúa sveitarfélagsins. Með sameiningunni verður verkefnum komið fyrir í stærri stofnun þar sem þessa faglegu tengingu er að finna. Samkvæmt reglugerð nr. 664/2012, um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn o.fl., er hlutverk fagráðsins að vera forstöðumanni náttúrurannsóknastöðvarinnar til ráðgjafar um vísindastarf stofnunarinnar, rannsóknastefnu og fagleg tengsl við aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir á vatnasviði Mývatns og Laxár í samræmi við lög. Í ljósi þessa er eðlilegt að ákvæði um fagráðið falli brott við gildistöku ákvæða frumvarps þessa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að starfsfólk Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, sem þar starfar við gildistöku laganna, verði starfsfólk Náttúrufræðistofnunar. Þessi leið felur það í sér að störfin eru ekki lögð niður heldur flutt til annarrar stofnunar með því að hún yfirtekur ráðningarsamninga starfsfólks. Réttindi og kjör viðkomandi starfsmanna færast því til Náttúrufræðistofnunar verði frumvarpið að lögum. Er því almennt ekki gert ráð fyrir að samruninn hafi áhrif á kjör og réttindi starfsfólks, en sumir starfsmenn kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á störfum eða starfssviði í samræmi við nýtt skipurit eftir að ný stofnun hefur tekið til starfa. Gera má ráð fyrir að þetta fyrirkomulag valdi mun minni röskun en ef störf væru lögð niður og starfsfólk endurráðið. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar verði ábyrgur fyrir stefnumótun stofnunarinnar eftir samrunann og vinni að endurskipulagningu og nýju skipuriti stofnunarinnar.
    Í 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til að setja forstjóra Náttúrufræðistofnunar tímabundið í embætti þar til ráðningarferli vegna ráðningar nýs forstjóra er lokið. Núverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands er með tímabundna setningu til loka árs 2023. Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er skylt að auglýsa embættið, sem verður laust í upphafi árs 2024. Mikilvægt er að kveða á um þessa heimild ráðherra í ljósi þess að gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. janúar 2024. Ljóst er að nokkurn tíma mun taka að ráða nýjan forstjóra Náttúrufræðistofnunar.