Einar Þorgilsson

Einar Þorgilsson

Þingseta

Alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1919–1923 (utan flokka (Sjálfstæðisflokkurinn eldri), Utanflokkabandalagið, Sparnaðarbandalagið).

Æviágrip

Fæddur í Ásmúla í Holtum 25. ágúst 1865, dáinn 15. júlí 1934. Foreldrar: Þorgils Gunnarsson (fæddur 16. ágúst 1832, dáinn 21. desember 1886) síðar bóndi í Moldartungu í Holtum og kona hans Helga Ásmundsdóttir (fædd 3. desember 1831, dáin 10. júní 1909) húsmóðir. Afi Matthíasar Á. Mathiesens alþingismanns og ráðherra og langafi Árna M. Mathiesens alþingismanns. Maki (5. janúar 1895) Geirlaug Sigurðardóttir (fædd 17. júlí 1866, dáin 30. desember 1951) húsmóðir. Foreldrar: Sigurður Halldórsson og kona hans Guðlaug Þórarinsdóttir. Börn: Dagbjört (1896), Sigurlaug (1897), Ragnheiður (1900), Þorgilsína Helga (1902), Þorgils Guðmundur (1903), Ólafur Tryggvi (1904), Valgerður (1905), Svava (1906), Dagný (1908).

Gagnfræðapróf Flensborg 1884.

Kennari í Hafnarfirði 1885–1887 og í Garðahreppi 1895–1898. Hóf útgerð 1886, árabáta- og þilskipaútgerð til 1924 og síðan togaraútgerð. Formaður á árabátum 1886–1895. Bóndi í Hlíð í Garðahreppi 1895–1900, á Óseyri við Hafnarfjörð 1900–1910 og hóf samhliða útgerð, verslun og fiskverkun. Kaupmaður og útgerðarmaður í Hafnarfirði 1910–1934. Framkvæmdastjóri og einn eigenda Fiskveiðihlutafélags Faxaflóa 1905–1907.

Hreppstjóri Garðahrepps 1896–1908. Sýslunefndarmaður 1896–1908. Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1910–1916 og 1918–1924. Formaður stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 1918–1921.

Alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1919–1923 (utan flokka (Sjálfstæðisflokkurinn eldri), Utanflokkabandalagið, Sparnaðarbandalagið).

Ævisögu hans skrifaði Ásgeir Jakobsson: Hafnarfjarðarjarlinn (1987).

Æviágripi síðast breytt 19. júní 2015.