Gísli Jónsson

Gísli Jónsson

Þingseta

Alþingismaður Barðstrendinga 1942–1956 og 1959, alþingismaður Vestfirðinga 1959–1963 (Sjálfstæðisflokkur).

Forseti efri deildar 1953–1956. 2. varaforseti efri deildar 1942–1943 og 1946–1947.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Litlabæ á Álftanesi 17. ágúst 1889, dáinn 7. október 1970. Foreldrar: Jón Hallgrímsson (fæddur 19. maí 1855, dáinn 24. mars 1921) útvegsbóndi þar og kona hans Guðný Jónsdóttir (fædd 12. ágúst 1857, dáin 11. júní 1928) húsmóðir. Maki (3. júlí 1920): Hlín Þorsteinsdóttir (fædd 5. desember 1899, dáin 9. nóvember 1964) húsmóðir, afasystir Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar alþingismanns. Foreldrar: Þorsteinn Jónsson og kona hans Guðrún Bjarnadóttir. Börn: Guðrún (1921), Þorsteinn (1924), Haraldur (1928).

Nam járnsmíði á Ísafirði 1908–1909, vélsmíði í Englandi 1914 og Kaupmannahöfn 1915. Stundaði nám við vélfræðideild Stýrimannaskólans 1913–1914, við Vélstjóraskóla Íslands 1915–1916, lauk prófi frá honum (skírteini nr. 1).

Kyndari 1910–1911. Vélstjóri á togurum 1911–1913. Vélstjóri á strandferðaskipum 1914–1915. Vélstjóri á skipum Eimskipafélags Íslands 1915 og 1917, yfirvélstjóri á skipum þess 1918–1924. Skipaður 1924 umsjónarmaður skipa og véla, sá um smíði allra nýsköpunartogara ríkissjóðs 1945–1950, lausn 1968. Jafnframt framkvæmdastjóri ýmissa félaga og fyrirtækja í Reykjavík og á Bíldudal frá 1933.

Í sjó- og verslunardómi Reykjavíkur 1933–1937. Formaður Vélstjórafélags Íslands 1919–1924. Kosinn 1942 í úthlutunarnefnd bifreiða. Skipaður 1942 í skipulagsnefnd skipaviðgerða, 1943 í milliþinganefnd um skipasmíðastöð í Reykjavík og skipulagningu strandferða, 1943 í Reykhólanefnd, 1944 í milliþinganefnd um póstmál. Átti sæti í milliþinganefnd um vernd barna og unglinga á glapstigum 1947–1948. Í Þingvallanefnd 1950–1957, formaður. Í Norðurlandaráði 1952–1956 og 1959–1963, formaður Íslandsdeildar þess 1959–1963, forseti ráðsins 1960, varaforseti 1959 og 1961–1963. Í kosningalaganefnd 1954 og í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum 1956. Í byggðajafnvægisnefnd 1954–1956. Í stjórn landshafnar í Rifi 1951–1960 og 1953 og 1960 í skattalaganefnd.

Alþingismaður Barðstrendinga 1942–1956 og 1959, alþingismaður Vestfirðinga 1959–1963 (Sjálfstæðisflokkur).

Forseti efri deildar 1953–1956. 2. varaforseti efri deildar 1942–1943 og 1946–1947.

Samdi ferðasögur og á síðustu æviárunum æviminningar: Frá foreldrum mínum, og nokkrar skáldsögur.

Æviágripi síðast breytt 13. september 2019.

Áskriftir