Hannes Jónsson

Hannes Jónsson

Þingseta

Alþingismaður Vestur-Húnvetninga 1927–1937 (Framsóknarflokkur, Bændaflokkurinn).

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur í Þórormstungu í Vatnsdal 17. nóvember 1893, dáinn 17. nóvember 1977. Foreldrar: Jón Hannesson (fæddur 14. (kirkjubók 15.) október 1862, dáinn 28. júní 1949) bóndi þar og kona hans Ásta Margrét Bjarnadóttir (fædd 12. júní 1864, dáin 2. janúar 1952) húsmóðir. Maki (17. júní 1923): Hólmfríður Jónsdóttir (fædd 22. október (kirkjubók 3. nóvember) 1900, dáin 11. ágúst 1958) húsmóðir. Foreldrar: Jón Sigurgeirsson og kona hans Stefanía Stefánsdóttir. Börn: Ásta (1924), Jón (1926), Þorbjörg (1927), Auður (1930), Benný (1934), Haukur (1936).

Gagnfræðapróf Akureyri 1915. Samvinnuskólapróf 1919.

Starfsmaður Sláturfélags Austur-Húnvetninga 1915–1917, endurskoðandi þess 1918 og forstjóri 1919–1922. Kaupfélagsstjóri Kaupfélags Vestur-Húnvetninga 1923–1933. Bóndi í Kirkjuhvammi á Vatnsnesi 1929–1948 og í Þórormstungu 1943. Forstjóri síldarverksmiðjunnar í Nesi í Norðfirði 1938–1941, starfaði jafnframt við endurskoðun í Landsbankanum. Rak samtímis síldarútgerð frá Norðfirði með leiguskipum frá Færeyjum. Fulltrúi í endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins 1943–1963. Fékk leyfi frá starfi 1. nóvember 1960 til 1. júní 1962 og var þann tíma sveitarstjóri í Ólafsvík.

Yfirskoðunarmaður ríkisreikninga 1930–1933. Í milliþinganefnd um skipulag og sölu landbúnaðarvara 1932–1934. Endurskoðandi Síldarverksmiðja ríkisins 1935–1939. Í stjórn Alliance hf. fyrir Landsbankann 1939–1941. Vann eftir 1963 ýmis endurskoðunarstörf fyrir bændasamtökin o. fl.

Alþingismaður Vestur-Húnvetninga 1927–1937 (Framsóknarflokkur, Bændaflokkurinn).

Æviágripi síðast breytt 7. september 2015.

Áskriftir