Hermann Jónasson

Hermann Jónasson

Þingseta

Alþingismaður Strandamanna 1934–1959, alþingismaður Vestfirðinga 1959–1967 (Framsóknarflokkur).

Forsætisráðherra 1934–1942 og 1956–1958, landbúnaðarráðherra 1950–1953.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur á Syðri-Brekkum í Skagafirði 25. desember 1896, dáinn 22. janúar 1976. Foreldrar: Jónas Jónsson (fæddur 16. maí 1856, dáinn 21. júní 1941) bóndi og trésmiður þar, afabróðir Jóns Þorsteinssonar alþingismanns, og kona hans Pálína Guðný Björnsdóttir (fædd 9. ágúst 1866, dáin 23. desember 1949) húsmóðir. Faðir Steingríms Hermannssonar alþingismanns og ráðherra. Maki (30. maí 1925) Vigdís Oddný Steingrímsdóttir (fædd 4. október 1896, dáin 2. nóvember 1976) húsmóðir. Foreldrar: Steingrímur Guðmundsson og kona hans Margrét Þorláksdóttir. Börn: Herdís (1927), Steingrímur (1928), Pálína (1929).

Stúdentspróf MR 1920. Lögfræðipróf HÍ 1924. Hrl. 1945. Kynnti sér lögreglumál á Norðurlöndum og í Þýskalandi vorið 1928.

Fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Reykjavík 1924–1928. Lögreglustjóri í Reykjavík 1929–1934. Skipaður 28. júlí 1934 forsætisráðherra og jafnframt dóms- og kirkjumálaráðherra og landbúnaðarráðherra, einnig atvinnu- og samgöngumálaráðherra frá 20. mars til 2. apríl 1938 og fór með kennslumál og utanríkismál frá 20. mars 1938 til 17. apríl 1939, lausn 7. nóvember 1941, en gegndi störfum til 18. nóvember. Skipaður 18. nóvember 1941 forsætisráðherra að nýju og jafnframt dómsmála- og landbúnaðarráðherra, lausn 16. maí 1942. Varð þá lögfræðilegur ráðunautur Búnaðarbankans. Skipaður 14. mars 1950 landbúnaðarráðherra, lausn 11. september 1953. Skipaður 24. júlí 1956 forsætisráðherra og jafnframt landbúnaðar- og dómsmálaráðherra, lausn 4. desember 1958, en gegndi störfum til 23. desember 1958.

Glímukóngur Íslands árið 1921. Bæjarfulltrúi í Reykjavík 1930–1938, í bæjarráði 1932–1933. Skipaður 1930 í landskjörstjórn. Kosinn 1942 í stjórnarskrárnefnd og 1943 í milliþinganefnd um undirbúning verklegra framkvæmda. Í bankaráði Búnaðarbankans 1943–1972, formaður 1943–1960. Í skilnaðarnefnd 1944. Í Þingvallanefnd 1946–1968 og í fjárhagsráði 1947–1950. Fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1950–1967. Í sölunefnd setuliðseigna 1953–1972. Kosinn 1954 í togaranefnd og 1955 í atvinnumálanefnd. Formaður Framsóknarflokksins 1944–1962. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1947, 1948 og 1955.

Alþingismaður Strandamanna 1934–1959, alþingismaður Vestfirðinga 1959–1967 (Framsóknarflokkur).

Forsætisráðherra 1934–1942 og 1956–1958, landbúnaðarráðherra 1950–1953.

Indriði G. Þorsteinsson skrifaði ævisögu Hermanns Jónassonar í tveimur bindum: Fram fyrir skjöldu (1990), Ættjörð mín kæra (1992).

Æviágripi síðast breytt 6. nóvember 2019.

Áskriftir