Hjörleifur Guttormsson

Hjörleifur Guttormsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Austurlands) 1978–1979, alþingismaður Austurlands 1979–1999 (Alþýðubandalag, þingflokkur óháðra).

Iðnaðarráðherra 1978–1979 og 1980–1983.

2. varaforseti neðri deildar 1988–1991, 1. varaforseti neðri deildar 1991, 3. varaforseti Alþingis 1991.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur á Hallormsstað 31. október 1935. Foreldrar: Guttormur Pálsson (fæddur 12. júlí 1884, dáinn 5. júní 1964) skógarvörður þar og kona hans Guðrún Margrét Pálsdóttir (fædd 24. september 1904, dáin 19. nóvember 1968) vefnaðar- og hannyrðakona, móðursystir Jóns Helgasonar alþingismanns og ráðherra. Maki (18. desember 1957): Kristín Guttormsson (Maria Christine, fædd Bartl, fædd 12. október 1935) læknir við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Foreldrar: Willy Bartl og kona hans Anna Klara Bartl, fædd Schuster. Sonur: Einar (1958).

Stúdentspróf MA 1955. Diplom-próf í líffræði frá háskólanum í Leipzig 1963, assistent við Hygiene-stofnun háskólans 1963. Kynnisferð til Bandaríkjanna vegna náttúruverndar 1971 og vegna skólamála í nóvember 1973.

Vann við landbúnaðarstörf, skógrækt, landmælingar, þýðingar og túlkun á námsárum. Kenndi nútímaíslensku við norrænudeild háskólans í Leipzig samhliða námi 1958–1961. Starfsmaður á rannsóknastofu Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað 1963–1964. Kennari við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1964–1973, framhaldsdeildir frá 1968. Stundakennari við Námsflokka Neskaupstaðar og Iðnskóla Austurlands 1964–1973. Starfaði að náttúrurannsóknum, einkum á Austurlandi, 1968–1978, fyrst samhliða kennslustörfum, síðar á vegum Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað. Undirbjó stofnun þess safns 1965–1971 og veitti því forstöðu 1971–1978. Átti sæti í Náttúruverndarráði 1972–1978 og var fulltrúi á átta náttúruverndarþingum 1972–1992. Margvísleg störf á vegum Náttúruverndarráðs 1972–1978. Frumkvöðull að Safnastofnun Austurlands og stjórnarformaður hennar 1972–1978. Formaður byggingarnefndar Menntaskólans á Egilsstöðum 1973–1978. Skipaður iðnaðarráðherra 1. september 1978, lausn 12. október 1979, en gegndi störfum til 15. október. Skipaður iðnaðarráðherra 8. febrúar 1980, lausn 28. apríl 1983, en gegndi störfum til 26. maí.

Forgöngumaður að stofnun Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) 1970 og formaður þeirra 1970–1979. Sat í nóvember–desember 1971 á þingi Sameinuðu þjóðanna vegna undirbúnings að umhverfisráðstefnunni í Stokkhólmi. Fulltrúi í sendinefnd Íslands á Stokkhólmsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi mannsins 1972 og á Ríó-ráðstefnunni um umhverfi og þróun 1992. Í stjórn Sósíalistafélags Neskaupstaðar 1964–1968. Formaður Alþýðubandalagsfélagsins í Neskaupstað 1965–1967 og 1976–1978. Formaður kjördæmisráðs Alþýðubandalagsins á Austurlandi 1966–1968. Fulltrúi í miðstjórn Alþýðubandalagsins síðan 1974. Í Þingvallanefnd 1980–1992. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1984 og 1994. Í Norðurlandaráði síðan 1988, í forsætisnefnd ráðsins 1993–1995. Í Evrópustefnunefnd Alþingis 1988–1991. Í þingmannanefnd EFTA/EES 1995. Formaður nefndar um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur 1989–1990, formaður nefndar um mótun ferðamálastefnu 1989–1990. Var í jafnréttisnefnd 1991–1992, í nefnd um endurskoðun laga um náttúruvernd 1991–1992 og í hvalanefnd 1993–1994.

Landskjörinn alþingismaður (Austurlands) 1978–1979, alþingismaður Austurlands 1979–1999 (Alþýðubandalag, þingflokkur óháðra).

Iðnaðarráðherra 1978–1979 og 1980–1983.

2. varaforseti neðri deildar 1988–1991, 1. varaforseti neðri deildar 1991, 3. varaforseti Alþingis 1991.

Hefur ritað um náttúruvernd, orkumál, náttúrurannsóknir, jafnréttismál, þjóðmál o.fl.

Æviágripi síðast breytt 6. nóvember 2019.

Áskriftir