Jón Ólafsson

Jón Ólafsson

Þingseta

Alþingismaður Suður-Múlasýslu 1880–1885, 1886–1890 og 1908–1913, konungkjörinn alþingismaður 1905, en sagði svo af sér (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn).

1. varaforseti neðri deildar 1913. Milliþingaforseti neðri deildar 1912–1913.

Æviágrip

Fæddur á Kolfreyjustað 20. mars 1850, dáinn 11. júlí 1916. Foreldrar: Ólafur Indriðason (fæddur 15. ágúst 1796, dáinn 4. mars 1861) prestur þar og 2. kona hans Þorbjörg Jónsdóttir (fædd 8. janúar 1830, dáin 3. febrúar 1910) húsmóðir. Hálfbróðir Páls Ólafssonar alþingismanns og Ólavíu Ólafsdóttur konu Björns Péturssonar alþingismanns. Maki (20. ágúst 1878): Helga Eiríksdóttir (fædd 21. janúar 1860, dáin 17. febrúar 1925) húsmóðir. Foreldrar: Eiríkur Björnsson og kona hans Sigríður Pálsdóttir. Börn: Ólafur (1882), Sigríður (1883), Gísli (1888), Páll (1893). Sonur Jóns og Halldóru Guðmundsdóttur: Guðjón (1876). Sonur Jóns og Þóru Þorvarðardóttur: Kristján Austmann (1890).

Sat í Lærða skólanum 1863–1868, tók þar fyrri hluta burtfararprófs 1868.

Blaðamaður og síðar ritstjóri Baldurs í Reykjavík 1868–1870. Dvaldist í Björgvin 1870–1871 og fékkst þar við blaðamennsku. Ritstjóri Göngu-Hrólfs í Reykjavík 1872–1873. Var prentun blaðsins bönnuð og fór hann þá til Vesturheims. Dvaldist þar til 1875 og tók m. a. þátt í landkönnunarför til Alaska. Kom til Íslands aftur 1875 og vann um hríð við skrifstofustörf í Reykjavík. Dvaldist í Kaupmannahöfn 1876–1877. Ritstjóri á Eskifirði 1877–1880, í Kaupmannahöfn 1880–1881. Ritstjóri í Reykjavík 1882–1885. Dvaldist áfram í Reykjavík næstu ár og fékkst við kennslu og ýmis önnur störf. Fór aftur til Vesturheims 1890. Ritstjóri í Winnipeg 1890–1894. Fór þá suður í Bandaríki til Chicago og vann þar fyrst nokkur missiri við blaðamennsku, lengst af við „Norden“, en síðar um stund við bókasafn þar í borg. Kom til Íslands aftur vorið 1897 og dvaldist í Reykjavík til æviloka. Vann áfram að blaðamennsku til ársloka 1913, en rak jafnframt bóka- og pappírsverslun um skeið. Stundakennari við Stýrimannaskólann 1899–1901, við Verslunarskólann 1907–1912. Hafði á hendi spjaldskráningu prentaðra bóka í Landsbókasafni 1900–1913. Vann síðustu árin að samningu íslenskrar orðabókar með styrk úr landssjóði.

Yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1885–1887. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1885–1889.

Alþingismaður Suður-Múlasýslu 1880–1885, 1886–1890 og 1908–1913, konungkjörinn alþingismaður 1905, en sagði svo af sér (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn).

1. varaforseti neðri deildar 1913. Milliþingaforseti neðri deildar 1912–1913.

Fékkst mikið við ritstörf auk blaðamennskunnar, samdi kennslubækur, orti ljóð og fékkst við þýðingar.

Ritstjóri: Baldur (1870). Smávegis (1872). Göngu—Hrólfr (1872–1873). Skuld (1877–1883). Þjóðólfur (1883–1885 og 1911). Iðunn (1884–1889). Íslenski Good-Templar (1886–1889). Íslenskt vikublað (1887). Lögberg (1891–1892). Öldin (1891–1892). Heimskringla (1892–1894). Öldin (1893). Skírnir (1896–1902). Nýja öldin (1897–1900). Sunnanfari (1898). Reykjavík (1903–1907 og 1909). Dagblaðið (1906–1907). Iðunn (1915–1916).

Æviágripi síðast breytt 5. febrúar 2016.

Áskriftir