Magnús Stephensen
Þingseta
Konungkjörinn alþingismaður 1877–1886. Alþingismaður Rangæinga 1903–1908 (Heimastjórnarflokkurinn).
Landshöfðingi 1886–1904.
Forseti sameinaðs þings 1883, forseti neðri deildar 1905–1907.
Æviágrip
Fæddur á Höfðabrekku í Mýrdal 18. (kirkjubók: 19.) október 1836, dáinn 3. apríl 1917. Foreldrar: Magnús Stephensen (fæddur 13. janúar 1797, dáinn 15. apríl 1866) þjóðfundarmaður og kona hans Margrét Þórðardóttir Stephensen (fædd 7. september 1799, dáin 18. janúar 1866) húsmóðir. Maki (18. október 1878): Elín Jónasdóttir Stephensen, fædd Thorstensen (fædd 13. ágúst 1856, dáin 15. júlí 1933) húsmóðir. Foreldrar: Jónas Thorstensen, sonur Jóns Thorstensens alþingismanns, og kona hans Þórdís Thorstensen, dóttir Páls Melsteðs amtmanns og alþingismanns. Börn: Margrét (1879), Jónas (1880), Ragna (1882), Ástríður (1884), Magnús (1885), Elín (1886), Jónas (1888), Sigríður (1895).
Stúdentspróf Lsk. 1855. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1862.
Vann frá 1863 í hinni íslensku stjórnardeild í Kaupmannahöfn, varð 8. maí 1865 aðstoðarmaður þar. Annar yfirdómari og dómsmálaritari í landsyfirrétti 1870–1877, 1. yfirdómari 1877–1886. Jafnframt settur amtmaður í suður- og vesturamtinu frá 1. maí 1883 til 10. apríl 1886. Skipaður 10. apríl 1886 landshöfðingi, lausn 27. janúar 1904 frá 1. febrúar að telja. Bjó síðan embættislaus í Reykjavík til æviloka.
Aðstoðarmaður konungsfulltrúa Hilmars Finsens á Alþingi 1871 og 1873. Bæjarfulltrúi í Reykjavík 1874–1886. Skrifstofustjóri Alþingis hinn fyrsti 1875. Skipaður 1870 í landbúnaðarlaganefnd. Formaður milliþinganefndar í skattamálum 1875–1877. Yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1876–1885. Forseti Reykjavíkurdeildar Bókmenntafélagsins 1877–1884. Í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar 1885–1887 og 1903–1905. Gæslustjóri Söfnunarsjóðs frá 1904 til æviloka.
Konungkjörinn alþingismaður 1877–1886. Alþingismaður Rangæinga 1903–1908 (Heimastjórnarflokkurinn).
Landshöfðingi 1886–1904.
Forseti sameinaðs þings 1883, forseti neðri deildar 1905–1907.
Æviágripi síðast breytt 1. apríl 2016.