Ólafur Björnsson

Ólafur Björnsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1956–1959, alþingismaður Reykvíkinga 1959–1971 (Sjálfstæðisflokkur).

Varaþingmaður Reykvíkinga maí og október 1950 og ágúst 1959.

1. varaforseti sameinaðs þings 1967–1971.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Hjarðarholti í Dölum 2. febrúar 1912, dáinn 22. febrúar 1999. Foreldrar: Björn Stefánsson (fæddur 13. mars 1881, dáinn 10. nóvember 1958) síðast prófastur á Auðkúlu og 1. kona hans Guðrún Sigríður Ólafsdóttir (fædd 27. nóvember 1890, dáin 25. júní 1918) húsmóðir, mágkona Vilmundar Jónssonar alþingismanns. Maki (25. júní 1943): Guðrún Aradóttir (fædd 29. júní 1917, dáin 24. nóvember 2005) húsmóðir. Foreldrar: Ari Jóhannesson og kona hans Ása Aðalmundardóttir. Synir: Ari Helgi (1946), Björn Gunnar (1949), Örnólfur Jónas (1951).

Stúdentspróf MA 1931. Las næsta vetur lögfræði við Háskóla Íslands, en síðan hagfræði við Hafnarháskóla, hagfræðipróf 1938.

Aðstoðarmaður, síðar fulltrúi í Hagstofu Íslands 1938–1942. Kennari í viðskiptadeild Háskóla Íslands 1942–1982, dósent til 1948, síðan prófessor. Jafnframt stundakennari við Verslunarskólann 1948–1967.

Skipaður 21. desember 1944 til að taka sæti í viðskiptaráði þegar það fjallaði um verðlagsmál. Formaður stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja 1948–1956. Skipaður 1948 í nefnd til þess að gera tillögur um árlegan vísitöluútreikning miðað við magn og verðmæti innflutningsframleiðslunnar. Skipaður í endurskoðunarnefnd launalaga 1949 og 1954. Var í bæjarstjórn Reykjavíkur 1950–1958. Kosinn 1954 í togaranefnd. Skipaður 1959 í nefnd til að gera tillögur um skipulagningu hagrannsókna á vegum hins opinbera og 1960 í milliþinganefnd í skattamálum. Í verðlagsnefnd 1960–1971. Í bankaráði Seðlabankans 1963–1968. Skipaður 1965 í endurskoðunarnefnd laga um afurðasölu landbúnaðarins og 1966 í nefnd til að semja frumvarp um framleiðnisjóð landbúnaðarins. Skipaður í hagráð 1966. Í kjaranefnd frá 1962. Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna 1971–1981. Skipaður 1967 í nefnd til að semja drög að nýrri löggjöf um eftirlit með einokun, hringamyndun og verðlagi. Kosinn 1967 í milliþinganefnd um staðgreiðslukerfi opinberra gjalda. Kosinn 1968 í hafísnefnd. Skipaður 1968 í nefnd til að athuga ýmsa þætti landbúnaðarmála. Í bankaráði Útvegsbankans 1969–1980, formaður. Skipaður 1970 í nefnd til að semja frumvarp um lífeyrissjóð bænda og í endurskoðunarnefnd laga um almannatryggingar. Í stjórn Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin 1971–1981, formaður, og í nefnd til athugunar á framkvæmd skoðanakannana. Skipaður 1971 í valkostanefnd, í endurskoðunarnefnd laga um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. og í nefnd um rannsóknastörf erlendra aðila. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1967.

Landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1956–1959, alþingismaður Reykvíkinga 1959–1971 (Sjálfstæðisflokkur).

Varaþingmaður Reykvíkinga maí og október 1950 og ágúst 1959.

1. varaforseti sameinaðs þings 1967–1971.

Hefur samið rit og fjölda greina um hagfræði, efnahags- og þjóðfélagsmál.

Æviágripi síðast breytt 18. febrúar 2020.

Áskriftir