Svava Jakobsdóttir

Svava Jakobsdóttir

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1971–1978, alþingismaður Reykvíkinga 1978–1979 (Alþýðubandalag).

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fædd í Neskaupstað 4. október 1930, dáin 21. febrúar 2004. Foreldrar: Hans Jakob Jónsson (fæddur 20. janúar 1904, dáinn 17. júní 1989) dr. theol., prestur, bróðir Eysteins Jónssonar alþingismanns og ráðherra, og kona hans Þóra Einarsdóttir (fædd 12. september 1901, dáin 9. janúar 1994) húsmóðir. Föðursystir Hrafns Jökulssonar varaþingmanns. Maki (11. júní 1955): Jón Hnefill Aðalsteinsson (fæddur 29. mars 1927, dáinn 2. mars 2010) prófessor, móðurbróðir Hrafnkels A. Jónssonar varaþingmanns. Foreldrar: Aðalsteinn Jónsson og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Sonur: Hans Jakob S. (1956).

Stúdentspróf MR 1949. AB-próf í ensku og enskum bókmenntum við Smith College í Northampton, Massachusetts í Bandaríkjunum 1952. Rannsóknarnám í íslenskum fornbókmenntum við Somerville College, Oxford 1952–1953. Nám í sænskum nútímabókmenntum við Uppsalaháskóla í Svíþjóð 1965–1966.

Ritari í utanríkisráðuneytinu og íslenska sendiráðinu í Stokkhólmi 1955–1960. Kennari við Barna- og unglingaskólann á Eskifirði 1963–1964. Blaðamaður við Lesbók Morgunblaðsins 1966–1969. Starfsmaður við dagskrárdeild Ríkisútvarpsins 1969–1970. Stundaði ritstörf.

Í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1968–1971. Í Rannsóknaráði ríkisins 1971–1974. Skip. 1971 í nefnd til að semja frumvarp um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila. Skip. 1973 í nefnd til að semja reglur um viðbótarritlaun til rithöfunda og í nefnd til að semja frumvarp um Launasjóð rithöfunda. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1972, 1974, 1977 og 1982. Í stjórn Máls og menningar 1976–1979. Í Rithöfundaráði 1978–1980. Í Norðurlandaráði 1978–1980. Í safnráði Listasafns Íslands 1979–1983. Fulltrúi Íslands í jafnréttisnefnd Norðurlanda 1980–1983. Var samkvæmt tilnefningu ráðherra árið 1979 fulltrúi Íslands í samráðshópi til að gera úttekt á menningarsamstarfi Norðurlandanna á árunum 1972–1978 á grundvelli norræna menningarmálasamningsins. Í stjórn Leikskáldafélags Íslands 1986–1990.

Landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1971–1978, alþingismaður Reykvíkinga 1978–1979 (Alþýðubandalag).

Hefur samið skáldsögur, smásögur og leikrit, sem hafa verið sýnd á sviði, einnig í sjónvarpi, og leikin í útvarpi. Hefur einnig birt fræðiritgerðir um bókmenntir.

Æviágripi síðast breytt 8. apríl 2020.

Áskriftir