Magnús Árni Magnússon

Magnús Árni Magnússon

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1998–1999 (þingflokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin).

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 14. mars 1968. Foreldrar: Magnús Bæringur Kristinsson (fæddur 9. október 1923, dáinn 20. júlí 1995) skólastjóri og kona hans Guðrún Sveinsdóttir (fædd 23. júlí 1927) kennari. Maki (20. júní 1992): Sigríður Björk Jónsdóttir (fædd 30. september 1972) sagnfræðingur. Foreldrar: Jón Gestur Viggósson kerfisfræðingur og kona hans Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir safnvörður. Sonur: Úlfur Bæringur (1996).

Stúdentspróf frá FB 1989. BA-próf í heimspeki frá HÍ 1997. MA-próf í hagfræði frá University of San Francisco 1998.

Sumarstarf í farskrárdeild Flugleiða 1985–1988. Sumarstörf sem blaðamaður á Alþýðublaðinu 1989–1990. Flokksstjóri í Vinnuskóla Kópavogs 1991 og 1993–1996, yfirflokksstjóri 1997–1998. Tómstundafulltrúi Nordjobb á Íslandi 1992. Framkvæmdastjóri Sambands ungra jafnaðarmanna 1993–1994. Blaðamaður á Alþýðublaðinu 1994–1995. Blaðamaður Tölvuheims (PC World Ísland) 1996–1998. Fréttastjóri Netheims 1998.

Í stúdentaráði HÍ 1993–1995. Í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1993–1997. Í framkvæmdastjórn Föreningen Nordens Socialdemokratiska Ungdom 1988–1990 og 1994–1996. Formaður Sambands ungra jafnaðarmanna 1994. Í stjórn Varðbergs (félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu) 1994–1997. Í framkvæmdastjórn Alþýðuflokksins 1994–1996. Formaður Alþýðuflokksfélags Kópavogs 1996–1998.

Alþingismaður Reykvíkinga 1998–1999 (þingflokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin).

Umhverfisnefnd 1998–1999.

Æviágripi síðast breytt 10. febrúar 2020.