Guðbjartur Hannesson

Guðbjartur Hannesson

Þingseta

Alþingismaður Norðvesturkjördæmis 2007–2015 (Samfylkingin).

Félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011–2013.

Forseti Alþingis 2009.

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur á Akranesi 3. júní 1950, dáinn 23. október 2015. Foreldrar: Hannes Þjóðbjörnsson (fæddur 20. janúar 1905, dáinn 2. október 1984) verkamaður og Ólafía Rannveig Jóhannesdóttir (fædd 30. maí 1910, dáin 30. janúar 2007). Maki: Sigrún Ásmundsdóttir (fædd 17. desember 1951) yfiriðjuþjálfi. Foreldrar: Ásmundur Jónatan Ásmundsson og Hanna Helgadóttir. Dætur: Birna (1978), Hanna María (1988).

Kennarapróf KÍ 1971. Tómstundakennarapróf frá Seminariet for Fritidspædagoger, Vanløse, Danmörku 1978. Framhaldsnám í skólastjórn KHÍ 1992–1995. Meistarapróf frá kennaraskóla Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) 2005.

Vann á sumrum samhliða námi í Búrfellsvirkjun og Sementsverksmiðju Akraness. Kennari við Grunnskóla Akraness 1971–1973. Erindreki Bandalags íslenskra skáta 1973–1975. Kennari við Peder Lykke Skolen á Amager í Kaupmannahöfn 1978–1979. Kennari við Grunnskóla Akraness 1979–1981. Skólastjóri Grundaskóla Akranesi 1981–2007. Í bæjarstjórn Akraness 1986–1998. Í bæjarráði 1986–1998, formaður þess 1986–1989 og 1995–1997. Forseti bæjarstjórnar 1988–1989, 1994–1995 og 1997–1998. Félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra 2. september 2010 til 31. desember 2010. Velferðarráðherra 1. janúar 2011, lausn 28. apríl 2013 en gegndi störfum til 23. maí 2013.

Í ýmsum framkvæmdanefndum um byggingu Grundaskóla og leikskólans Garðasels 1981–2001. Í æskulýðsnefnd Akranesbæjar 1982–1986. Fulltrúi skólastjóra í skólanefnd Akranesbæjar 1981–2007. Fulltrúi á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 1986–1994. Í fulltrúaráði Sambands íslenskra sveitarfélaga 1994–1998. Í stjórn Rafveitu Akraness 1986–1990 og 1994–1995 og í stjórn Akranesveitu 1995–1998. Í stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar 1994–1998, formaður 1995–1998. Í samstarfsnefnd um svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar 1990–1996. Í starfshópi um vinnu við mótun markmiða og stefnu í málefnum leikskóla á Akranesi 1992–1994, í samstarfsnefnd um mótun tillagna um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja á Akranesi 1993–1994. Í stjórn útgerðarfélagsins Krossvíkur hf. 1994–1996. Í stjórn Sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar Akraness 1996–1998. Fulltrúi sveitarfélaga í SAMSTARF, samstarfsnefnd um framhaldsskóla, 1996–2001. Formaður Akraneslistans 1998–2000. Formaður skipulagsnefndar Akranesbæjar 1998–2002. Í bankaráði Landsbanka Íslands 1998–2003 og bankaráði Heritable-bankans í London (eign Landsbankans síðan 2000) 2002–2003.

Alþingismaður Norðvesturkjördæmis 2007–2015 (Samfylkingin).

Félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011–2013.

Forseti Alþingis 2009.

Félags- og tryggingamálanefnd 2007–2009 (formaður), 2009–2010, fjárlaganefnd 2007–2009, 2009–2010 (formaður), menntamálanefnd 2007–2009, allsherjar- og menntamálanefnd 2013–2015, velferðarnefnd 2014–2015.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2007–2009, Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins 2009–2013, Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2014–2015.

Æviágripi síðast breytt 3. nóvember 2015.

Áskriftir