Ragna Árnadóttir

Ragna Árnadóttir

Þingseta

Dóms- og kirkjumálaráðherra 2009, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009–2010.

Æviágrip

Fædd í Reykjavík 30. ágúst 1966. Foreldrar: Árni Björn Jónasson (fæddur 19. júlí 1946, dáinn 31. maí 2020) verkfræðingur og Guðrún Ragnarsdóttir (fædd 27. september 1947) framhaldsskólakennari. Maki: Magnús Jón Björnsson (fæddur 14. apríl 1966) tannlæknir. Foreldrar: Björn Jónsson og Guðrún S. Magnúsdóttir. Dætur: Brynhildur (1993), Agnes Guðrún (2000).

Stúdentspróf MA 1986. Embættispróf í lögfræði HÍ 1991. LL.M.-gráða í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi 2000.

Lögfræðingur við nefndadeild Alþingis 1991–1995. Sérfræðingur við skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og síðar Kaupmannahöfn 1995–1999. Starfsmaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 2002–2003. Starfsmaður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi 2003–2004. Deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti 2001–2002. Skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 2002–2009, auk þess staðgengill ráðuneytisstjóra 2006–2009. Settur ráðuneytisstjóri í sama ráðuneyti apríl–október 2008. Stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2006–2008. Settur skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu janúar 2009. Dóms- og kirkjumálaráðherra 1. febrúar 2009 til 10. maí 2009, dómsmála- og mannréttindaráðherra 10. maí 2009 til 2. september 2010. Skrifstofustjóri Landsvirkjunar 2010–2012. Aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar 2012–2019. Skrifstofustjóri Alþingis frá 2019.

Í stýrinefnd Evrópuráðsins um mannréttindi (CDDH) 2002–2005. Formaður sendinefndar Íslands í GRECO, ríkjahópi Evrópuráðsins gegn spillingu 2002–2009. Í sendinefndum Íslands við fyrirtökur hjá eftirlitsnefndum Sameinuðu þjóðanna: mannréttindanefnd (CCPR) 2005, nefnd um framkvæmd samnings um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD) 2005, og nefnd SÞ um réttindi barnsins 2003 og 2006. Formaður ritstjórnar Lagasafns frá 2004. Varaformaður kærunefndar jafnréttismála 2004–2008. Formaður nefndar um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum 2008. Formaður vinnuhóps til að semja Handbók um frágang og undirbúning lagafrumvarpa, útg. 2007. Formaður starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar 2004–2006. Formaður nefndar til að endurskoða ákvæði laga um helgidagalöggjöf 2004. Formaður vinnuhóps til að gera heildarendurskoðun á lögum og reglum um fullnustu refsidóma 2002–2003. Í nefnd viðskiptaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti 2005–2007. Í nefnd forsætisráðherra til að fara yfir viðurlög við efnahagsbrotum 2004–2006.

Dóms- og kirkjumálaráðherra 2009, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009–2010.

Æviágripi síðast breytt 3. júní 2020.

Áskriftir