Gunnar Thoroddsen

Gunnar Thoroddsen

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Mýramanna) 1934–1937 og (Snæfellinga) 1942. Alþingismaður Snæfellinga 1942–1949, alþingismaður Reykvíkinga 1949–1965 og 1971–1983 (Sjálfstæðisflokkur).

Fjármálaráðherra 1959–1965, iðnaðar- og félagsmálaráðherra 1974–1978, forsætisráðherra 1980–1983.

2. varaforseti sameinaðs þings 1946–1947, 1. varaforseti sameinaðs þings 1971–1973 og 1979–1980.

Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1973–1979.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 29. desember 1910, dáinn 25. september 1983. Foreldrar: Sigurður Thoroddsen (fæddur 16. júlí 1863, dáinn 29. september 1955) landsverkfræðingur og kona hans María Kristín Thoroddsen, fædd Claessen (fædd 25. apríl 1880, dáin 24. júní 1964) húsmóðir. Maki (4. apríl 1941) Vala Thoroddsen (fædd 8. júní 1921, dáin 15. mars 2005). Foreldrar: Ásgeir Ásgeirsson alþingismaður og forseti Íslands og kona hans Dóra Þórhallsdóttir, dóttir Þórhalls Bjarnarsonar biskups og alþingismanns. Börn: Ásgeir (1942), Sigurður (1944), Dóra (1948), María Kristín (1954).

Stúdentspróf MR 1929. Lögfræðipróf HÍ 1934. Framhaldsnám, aðallega í stjórnlagafræði og refsirétti, í Danmörku, Þýskalandi og Englandi apríl 1935 til júlí 1936. Doktorspróf í lögum Háskóla Íslands 1968.

Stundaði lögfræðistörf í Reykjavík ásamt öðrum störfum 1936–1940. Framkvæmdastjóri Landsmálafélagsins Varðar í Reykjavík 1936–1937. Erindreki Sjálfstæðisflokksins 1937–1939. Prófessor við Háskóla Íslands 1940–1950, en fékk lausn frá kennsluskyldu fyrst um sinn 10. febrúar 1947. Kjörinn 1947 borgarstjóri í Reykjavík, fékk 19. nóvember 1959 leyfi frá þeim störfum og lausn 6. október 1960. Skipaður 20. nóvember 1959 fjármálaráðherra, lausn 8. maí 1965. Sendiherra Íslands í Danmörku 1965–1969. Hæstaréttardómari 1. janúar til 16. september 1970. Skipaður 1971 prófessor við Háskóla Íslands. Skipaður 28. ágúst 1974 iðnaðar- og félagsmálaráðherra, lausn 27. júní 1978, en gegndi störfum til 1. september 1978. Skipaður 8. febrúar 1980 forsætisráðherra, lausn 28. apríl 1983, en gegndi störfum til 26. maí.

Formaður Orators 1930–1932. Formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1935–1939. Kosinn 1937 í rannsóknarnefnd verkefna fyrir unga menn. Stýrði stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins frá stofnun 1938–1940. Formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1940–1942. Bæjarfulltrúi í Reykjavík 1938–1962, í bæjarráði 1946–1960, formaður bæjarráðs 1947–1959 og forseti bæjarstjórnar 1959–1960. Í skilnaðarnefnd 1944. Átti sæti í milliþinganefnd um læknishéraðaskipun o. fl. 1944–1945. Kosinn 1945 í stjórnarskrárnefnd og jafnframt skipaður framkvæmdastjóri hennar. Skipaður 1947 í nýja stjórnarskrárnefnd. Kosinn enn 1972 í stjórnarskrárnefnd, var formaður hennar frá 1978 til æviloka, lagði á síðasta þingi fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið. Í landsbankanefnd 1945–1957, formaður 1948–1957, og í bankaráði Landsbanka Íslands 1961–1965. Formaður Íslandsdeildar Þingmannasambands Norðurlanda 1945–1957, forseti sambandsins 1947 og 1957. Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1948–1965 og 1971–1981. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1961–1965 og 1974–1981. Formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins frá inngöngu Íslands 1951–1965. Formaður Norræna félagsins á Íslandi 1954–1965 og 1970–1975. Skipaður 1972 í endurskoðunarnefnd laga um réttarstöðu og kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Landskjörinn alþingismaður (Mýramanna) 1934–1937 og (Snæfellinga) 1942. Alþingismaður Snæfellinga 1942–1949, alþingismaður Reykvíkinga 1949–1965 og 1971–1983 (Sjálfstæðisflokkur).

Fjármálaráðherra 1959–1965, iðnaðar- og félagsmálaráðherra 1974–1978, forsætisráðherra 1980–1983.

2. varaforseti sameinaðs þings 1946–1947, 1. varaforseti sameinaðs þings 1971–1973 og 1979–1980.

Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1973–1979.

Fjölmæli nefndist doktorsritgerð hans 1967. Ritaði margar greinar um lögfræði og þjóðmál. — Bókin Gunnar Thoroddsen, Ólafur Ragnarsson ræðir við hann, kom út 1981.

Æviágripi síðast breytt 8. október 2019.

Áskriftir