Sigurður Gunnarsson

Sigurður Gunnarsson

Þingseta

Þjóðfundarmaður Norður-Múlasýslu 1851, alþingismaður Suður-Múlasýslu 1869–1874. Sat ekki þing 1873.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur á Ærlæk í Öxarfirði 10. október 1812, dáinn 22. nóvember 1878. Foreldrar: Gunnar Gunnarsson (fæddur 1786, dáinn 7. ágúst 1819) síðast bóndi á Hallgilsstöðum á Langanesi og kona hans Elísabet Sigurðardóttir (fædd 1788, dáin 8. október 1825) húsmóðir. Föðurbróðir Sigurðar Gunnarssonar alþingismanns í Stykkishólmi og tengdafaðir Jóns Jónssonar alþingismanns á Stafafelli. Maki (20. júlí 1841): Bergljót Guttormsdóttir (fædd 12. ágúst 1809, dáin 2. október 1877) húsmóðir, systir Margrétar 1. konu Einars Ásmundssonar alþingismanns. Foreldrar: Guttormur Pálsson og kona hans Margrét Vigfúsdóttir, systir Guttorms Vigfússonar alþingismanns á Arnheiðarstöðum. Börn: Guttormur (1842), Margrét (1843), Elísabet (1846), Guðlaug (1848), Jón (1850), Gísli (1852), Gunnar (1853), Stefán Benedikt (1854).

    Hóf fyrst nám í silfur- og látúnssmíðum, en nam síðan skólalærdóm hjá Jóni guðfræðingi Þórarinssyni á Valþjófsstað og séra Guttormi Pálssyni í Vallanesi. Stúdentspróf Bessastöðum 1839.

    Stundaði veturna 1839–1841 kennslu í Reykjavík, en var sumarið 1840 fylgdarmaður J. O. Schythe, dansks náttúrufræðings. Settist síðan að í Vallanesi og stundaði kennslu. Fékk 1844 Desjarmýri, vígður 1845. Fékk Hallormsstað 1861, fluttist þangað 1862 og hélt til æviloka. Gegndi jafnframt Þingmúlaprestakalli frá 1869. Prófastur í Suður-Múlaprófastsdæmi 1863–1876. Kynntist lækningum hjá tengdaföður sínum, stundaði þær allmikið og fékk að lokum leyfi stjórnvalda til þess að stunda lækningar.

    Þjóðfundarmaður Norður-Múlasýslu 1851, alþingismaður Suður-Múlasýslu 1869–1874. Sat ekki þing 1873.

    Ritstjóri: Iðunn (1860).

    Æviágripi síðast breytt 9. ágúst 2023.

    Áskriftir