Sigurður S. Thoroddsen

Sigurður S. Thoroddsen

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Ísafjarðar) 1942–1946 (Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn).

2. varaforseti sameinaðs þings 1945–1946.

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur á Bessastöðum á Álftanesi 24. júlí 1902, dáinn 29. júlí 1983. Foreldrar: Skúli Thoroddsen (fæddur 6. janúar 1859, dáinn 21. maí 1916) alþingismaður og kona hans Theodora Thoroddsen (fædd 1. júlí 1863, dáin 23. febrúar 1954) húsmóðir. Bróðir Katrínar alþingismanns og Skúla alþingismanns Thoroddsens, mágur Pálma Hannessonar alþingismanns. Maki 1 (5. maí 1928): Jakobína (Bína) Margrét Thoroddsen, fædd Tulinius (fædd 20. september 1906, dáin 8. nóvember 1970) kennari. Þau skildu. Foreldrar: Ottó Tulinius, bróðir Axels V. Tuliniusar alþingismanns, og kona hans Valgerður Ólafía Tulinius, fædd Möller. Maki 2 (7. nóvember 1947): Ásdís Sveinsdóttir Thoroddsen (fædd 18. mars 1920, dáin 10. nóvember 1992) húsmóðir. Foreldrar: Sveinn Guðmundsson og kona hans Halldóra Kristín Jónsdóttir. Börn Sigurðar og Jakobínu: Óttar (1928), Dagur (1937), Bergljót (1938), Signý (1940). Börn Sigurðar og Ásdísar: Jón Sigurður (1948), Halldóra Kristín (1950), Guðbjörg (1955), Ásdís (1959).

Stúdentspróf MR 1919. Byggingarverkfræðipróf Kaupmannahöfn 1927.

Verkfræðingur við Reykjavíkurhöfn 1927, hjá vita- og hafnamálastjóra 1928– 1931. Rak eigin verkfræðiskrifstofu í Reykjavík 1931–1961, en var síðan til 1975 framkvæmdastjóri Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen sf., er hann stofnaði ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum. Kennari við Iðnskólann í Reykjavík 1928–1929, Menntaskólann í Reykjavík 1929–1932 og Samvinnuskólann 1933–1934.

Kosinn 1943 í skipulagsnefnd um byggingar við Lækjargötu. Í milliþinganefnd í raforkumálum 1944–1945, í raforkuráði 1947–1949, í Náttúruverndarráði 1956–1972. Skipaður í ráðgjafarnefnd í virkjunarmálum 1957 og útboðsnefnd 1959. Formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga 1961–1966. Formaður Verkfræðingafélags Íslands 1962–1964. Í stjórn Landsvirkjunar 1965–1969. Í raforkunefnd 1971–1975.

Landskjörinn alþingismaður (Ísafjarðar) 1942–1946 (Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn).

2. varaforseti sameinaðs þings 1945–1946.

Eins og gengur, minningabók eftir hann, kom út 1982.

Æviágripi síðast breytt 18. mars 2016.

Áskriftir