19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

Minning látinna manna

forseti (EmJ) :

Áður en gengið er til dagskrár, vil ég leyfa mér að minnast nokkrum orðum látins fyrrv. alþm., Guðmundar Eggerz fyrrum sýslumanns, er andaðist á heimili sínu hér í bæ s. l. mánudag, 16. desember, 84 ára að aldri.

Guðmundur Eggerz fæddist á Borðeyri 30. september 1873, sonur Péturs Eggerz verzlunarstjóra þar og konu hans, Sigríðar Guðmundsdóttur bónda á Kollsá í Hrútafirði Einarssonar. Hann brautskráðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1894 og lauk lögfræðiprófi við Kaupmannahafnarháskóla 1902. Að námi loknu var hann um skeið fulltrúi í embættisskrifstofum í Danmörku. Árið 1905 var hann settur málaflutningsmaður við landsyfirréttinn, settur sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu um hríð á árinu 1906, settur sýslumaður í sömu sýslum í annað sinn 1908 og skipaður sýslumaður þar á sama ári. 1911–1919 var hann sýslumaður í Suður-Múlasýslu, varð sýslumaður í Árnessýslu 1917, en fékk lausn frá því embætti sökum heilsubrests síðla árs 1920. Síðan var hann um 5 ára skeið starfsmaður Áfengisverzlunar ríkisins í Reykjavík, fulltrúi bæjarfógetans í Vestmannaeyjum 1927–1931, fulltrúi sýslumannsins í Ísafjarðarsýslum og bæjarfógetans á Ísafirði 1932–1934, varð 1934 fulltrúi sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Akureyri og gegndi því starfi fram um 1950, er hann lét af störfum sökum aldurs. Hann var þm. Sunnmýlinga 1913–1915, sat á þremur þingum.

Á þingmannsárum Guðmundar Eggerz var róstusamt á þingi og skipun manna í landsmálaflokka að riðlast. Hann lét þar að sér kveða og tók mikinn þátt í umræðum. Hann átti sæti í mþn. í vatnamálum, svonefndri „fossanefnd“, á úrunum 1917–1919 og stóð að minnihlutaáliti ásamt Sveini Ólafssyni í Firði, þótt þá greindi á um sum atriði.

Guðmundur Eggerz ólst upp á höfðingssetri og var settur ungur til mennta. Hann átti sér langan starfsaldur og kynntist mönnum og málefnum í öllum fjórðungum landsins. Hann kunni frá mörgu að segja og var gæddur góðri frásagnargáfu, eins og fram kemur í minningabók þeirri, er hann samdi, eftir að hann lét af opinberum störfum.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast hins látna fyrrv. alþm., Guðmundar Eggerz, með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]