08.10.1955
Sameinað þing: 1. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

Minning látinna manna

Aldursforseti (JörB):

Áður en Alþingi tekur til starfa að þessu sinni, vil ég minnast nokkrum orðum fyrrverandi þingmanns, er látizt hefur frá því er síðasta þingi sleit. Er það Jóhann G. Möller forstjóri, sem varð bráðkvaddur að heimili sínu 21. ágúst s. l., 48 ára að aldri.

Jóhann Georg Möller fæddist 28. maí 1947 á Sauðárkróki, sonur Jóhanns Georgs Möllers verzlunarstjóra þar og konu hans, Þorbjargar Pálmadóttur prests í Hofsósi Þóroddssonar. Hann útskrifaðist úr menntaskólanum í Reykjavík 1928 og hóf síðan laganám við Háskóla Íslands, en varð innan skamms að hverfa frá því námi sökum vanheilsu. Árið 1933 gerðist hann starfsmaður hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, var þar fyrst bókari, síðan skrifstofustjóri, þar til hann árið 1947 var skipaður forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins, en það starf hafði hann á hendi til dauðadags.

Jóhann G. Möller gerðist þegar á unga aldri mjög áhugasamur um þjóðmál. Á skólaárum sínum tók hann að kynna sér fræðileg stjórnmálarit, og er það sammæli þeirra, sem bezt þekkja til, að hann hafi snemma ævi sinnar gerzt mjög fjölfróður um þjóðmál og þjóðmálastefnur. Lét hann einnig talsvert að sér kveða í þjóðmálaátökum, og við alþingiskosningar 1937 var hann kjörinn varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Á Alþingi 1937, 1938 og 1939 átti hann sæti um stundarsakir í forföllum, en tók sæti Péturs Halldórssonar á Alþingi að honum látnum og sat á fjórum þingum á árunum 1941 –1942. Af öðrum störfum hans að opinberum málum skal það nefnt, að í landsbankanefnd átti hann sæti frá 1944 til dauðadags og á árunum 1951–1952 starfaði hann í nefnd þeirri, sem vann að undirbúningi áfengislaganna, er nú gilda.

Jóhann G. Möller var í eðli sínu alvörumaður, en þó léttur í máli og glaður á vinafundum. Honum var sýnt um að brjóta margþætt og torráðin vandamál til mergjar. Rökvís var hann á málþingum og gat sótt og varizt af kappi, en jafnan reyndist hann prúðmenni og drengur góður. Ungur að árum þótti hann líklegur til mikils frama í þjóðmálum vegna þekkingar og mannkosta, en vanheilsa olli því, að hann gat ekki, þegar fram í sótti, beitt sér eins og efni stóðu til og hlaut því að hlífa sér við stórræðum.

Einnig vil ég minnast með fáeinum orðum fyrrverandi ráðherra, Jóhanns Sæmundssonar prófessors, sem lézt í landsspítalanum 6. júní s. l., fimmtugur að aldri.

Jóhann Sæmundsson fæddist á Elliða í Staðarsveit á Snæfellsnesi 9. maí 1905. Foreldrar hans voru Sæmundur bóndi þar Sigurðsson og kona hans, Stefanía Jónsdóttir bónda á Kálfárvöllum Jónssonar. Hann útskrifaðist úr menntaskólanum í Reykjavík 1926 og lauk læknisfræðigrófi í Háskóla Íslands fimm árum síðar, 1931. Næstu ár var hann við framhaldsnám og starf í sjúkrahúsum erlendis, en 1935–1937 var hann aðstoðarlæknir í lyflæknisdeild landsspítalans og stundaði jafnframt almennar lækningar í Reykjavík. 1937 var hann ráðinn yfirlæknir Tryggingastofnunar ríkisins og gegndi þeim starfa til 1948. Þó varð þar hlé á um fimm mánaða skeið, frá 22. des. 1942 til 19. apríl 1943, er hann var félagsmálaráðherra í ráðuneyti Björns Þórðarsonar. Árið 1948 varð hann prófessor í lyflæknisfræði við Háskóla Íslands og yfirlæknir í lyflæknisdeild landsspítalans og hafði þau störf með höndum til æviloka. Skömmu áður en hann tók við prófessorsembætti, vann hann sér doktorsnafnbót við Karolínsku stofnunina í Stokkhólmi. Í læknaráði átti hann sæti frá stofnun þess, 1942.

Jóhann Sæmundsson var gæddur fjölþættum gáfum, var hugkvæmur, áhugasamur og ötull starfsmaður, þótt löngum ætti hann við þungbæran sjúkdóm að stríða. Aðalstarf sitt vann hann á sviði læknisfræði og heilbrigðismála. Í læknisstarfi hlaut hann miklar vinsældir og vann hylli og traust sjúklinga með alúð og nærgætni í viðmóti, en glöggskyggni og kunnáttu við lækningar.

Veigamikinn þátt starfs síns að heilbrigðismálum vann hann á vegum Tryggingastofnunar ríkisins og átti hlut í samningu almannatryggingalaganna frá 1946, einkum ákvæða þeirra um heilsugæzlu. Munu umbætur þær, sem í tryggingalöggjöfinni fólust, hafa verið honum að skapi sem önnur mannúðarmál. Var honum jafnan hugleikið að vinna að umbótum í félagsmálum, og mun það hafa leitt til þess, að hann tók við meðferð þeirra mála í ríkisstjórn, þótt innan skamms teldi hann sér skylt að biðjast lausnar, er honum þótti Alþingi hafa vikið frá réttri stefnu í mikilvægum málum.

Jóhann Sæmundsson var geðríkur að eðlisfari, en hafði öruggt vald á skapsmunum sínum. Hann var stefnufastur og ótrauður baráttumaður, ef því var að skipta, en gætti þó jafnan hófsemi í málflutningi. Honum var lagið að setja hugsanir sínar skýrt og skipulega fram í ræðu og riti, og frábær kennari var hann talinn. Mannhylli naut hann í ríkum mæli, enda glaðvær í vinafagnaði og átti auðvelt að blanda geði við aðra. Vanheilsu sína bar hann með fágætu æðruleysi og stillingu.

Þjóðin á hér á bak að sjá tveim mætum mönnum, sem báðir hafa hnigið að velli fyrir aldur fram og mikill mannskaði er að.

Ég vil biðja þingheim að votta minningu þeirra virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingheimur reis úr sætum. — Síðan gekk forseti Íslands út úr þingsalnum.]