10.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna manna

Aldursforseti (SE):

Áður en Alþ. tekur til starfa að þessu sinni, vil ég minnast nokkrum orðum tveggja fyrrv. alþm., sem látizt hafa milli þinga. Þessir menn eru Ísleifur Högnason framkvæmdastjóri, sem andaðist að heimili sínu í Reykjavík 12. júní, 71 árs að aldri, og Sigurður Þórðarson frá Nautabúi, sem lézt að heimili sínu í Reykjavík 13. ágúst á 80. aldursári.

Ísleifur Högnason fæddist 30. nóv. 1895 á Seljalandi undir Eyjafjöllum. Foreldrar hans voru Högni bóndi þar Sigurðsson bónda á Barkarstöðum í Fljótshlíð Ísleifssonar og kona hans, Marta Jónsdóttir bónda á Sólheimum í Mýrdal Þorsteinssonar. Ungur fluttist hann með foreldrum sínum til Vestmannaeyja og varð kaupfélagsstjóri þar hálfþrítugur árið 1921. Veitti hann síðan forstöðu kaupfélagi í Vestmannaeyjum til ársins 1943, er hann fluttist til Reykjavíkur og gerðist framkvæmdastjóri Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis. Því starfi gegndi hann til ársins 1953. Árið 1955 varð hann forstjóri Kaupstefnunnar í Reykjavík og hafði það starf á hendi til æviloka.

Ísleifur Högnason var mikill áhugamaður um félagsmál og stjórnmál og honum voru falin mörg trúnaðarstörf á þeim vettvangi jafnframt aðalstarfi við forstöðu kaupfélaga. Ungur að árum varð hann einn forustumanna í öflugri verkalýðshreyfingu í Vestmannaeyjum. Átti hann sæti í bæjarstjórn þar 1926–1930 og 1934–1943. Hann var ritstjóri Eyjablaðsins 1928–1943. Hann var landskjörinn alþm. á árunum 1937–1942 og sat á 9 þingum alls. Ritstjóri Þingtíðinda Sósfl. var hann um skeið á árunum 1941–42, meðan útgáfa á blaði flokks hans var bönnuð. Hann átti sæti í stjórn Samvinnutrygginga frá stofnun þeirra 1946, og í stjórn Líftryggingafélagsins Andvöku frá 1949.

Ísleifur Högnason var ötull baráttumaður og djarfur leiðtogi á þeim vettvangi félagsmála, þar sem hann haslaði sér völl, í verkalýðsmálum, samvinnumálum og stjórnmálum. Hann hefur hlotið þann dóm þeirra, sem mest kynni höfðu af honum, að hann hafi verið traustur samherji, trúað í einlægni og af heilum hug á mikilvægi þess málstaðar, sem hann barðist fyrir, rækt þau störf, sem honum var til trúað, af stakri prýði, verið áhugasamur, glöggskyggn og ráðhollur. Síðustu ár ævinnar var hann ekki heill heilsu og hafði dregið sig nokkuð í hlé af þeim sökum.

Sigurður Þórðarson fæddist 19. júlí 1888 á Fjalli í Sæmundarhlíð í Skagafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru Þórður smiður í Húsavík og víðar Ingvarsson bónda í Litladal í Austur-Húnavatnssýslu Þórðarsonar og Ingibjörg Sigurðardóttir bónda á Stóra-Vatnsskarði Benediktssonar. Hann ólst upp á Fjalli með móður sinni og móðurbróður. Stundaði hann búnaðarnám við Hólaskóla 1905–1907 og fékkst næstu árin við sveitastörf, söðlasmíði o.fl., unz hann reisti bú á Nautabúi í Skagafirði 1912. Þar bjó hann fram á árið 1938. Hann var búhöldur góður, framkvæmda- og fjármálamaður og hlaut verðlaun úr Styrktarsjóði Kristjáns konungs IX. árið 1933 fyrir afrek í búskap. Formaður Búnaðarfélags Lýtingsstaðahrepps var hann 1916–1938 og stjórnarnefndarmaður í Búnaðarsambandi Skagfirðinga um langt skeið. Hann var hreppstjóri í Lýtingsstaðahreppi 1922–1938, átti sæti í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga 1928–1938 og gegndi fleiri trúnaðarstörfum í sveit sinni og héraði á þeim árum, þótt ekki séu hér talin. Á árinu 1997 tók hann að sér forstöðu Kaupfélags Skagfirðinga. Fluttist hann á næsta ári alfarinn til Sauðárkróks og var þar kaupfélagsstjóri til 1947. Alþm. Skagfirðinga var hann á árunum 1942–1946 og sat á 5 þingum alls. Hann átti sæti í nýbyggingaráði 1946–1947 og fluttist þá búferlum til Reykjavíkur og átti þar heimili síðan. Hann var starfsmaður fjárhagsráðs 1947–1953 og Innflutningsskrifstofunnar 1963–1960, er hún var lögð niður.

Sigurður Þórðarson naut í æsku skammrar vistar í skóla, en var greindur, bókhneigður og fróðleiksfús og aflaði sér staðgóðrar sjálfsmenntunar. Hann var afkastamaður við störf, ósérhlífinn, forsjáll og dverghagur. Hann rækti hvert það starf, er hann tók sér fyrir hendur, af alúð og trúmennsku, var djarfur og frjálslyndur í skoðunum, vel máli farinn og orðheppinn. Lengst ævi sinnar vann hann að búskap og samvinnumálum í Skagafirði, var farsæll í þeim störfum og naut mikils og sívaxandi trausts héraðsbúa. Síðustu árin naut hann rólegrar elli eftir giftudrjúgt ævistarf.

Ég vil biðja þingheim að minnast þessara tveggja merkismanna, Ísleifs Högnasonar og Sigurðar Þórðarsonar, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]