Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 1997.  Útgáfa 121a.  Prenta í tveimur dálkum.


Áfengislög

1969 nr. 82 2. júlí



I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli, sem henni er samfara.
2. gr. Áfengi telst samkvæmt lögum þessum hver sá vökvi, sem meira er í en 2 1/ 4 % af vínanda að rúmmáli. Duft, kökur og annað, er þau efni eru í, sem sundur má leysa í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika, skal fara með sem áfengan drykk.
[Sterkir drykkir teljast samkvæmt lögum þessum áfengi sem meira er í en 21% af vínanda að rúmmáli. Létt vín telst áfengi, annað en öl, sem í er minna af vínanda.] 1)
    1)L. 25/1989, 1. gr.

II. kafli. Innflutningur áfengis.
3. gr. [Innflutningur á áfengi, hverju nafni sem nefnist, er einungis heimill til einkanota, til framleiðslu áfengra drykkja, sbr. 2. gr. laga um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, til sölu samkvæmt heimild í 11. gr. eða til sölu til þess sem hefur heimild skv. 11. gr. til að selja áfengi innan lands. Þó er öllum heimilt að flytja til landsins varning sem inniheldur vínanda hafi hann verið gerður óhæfur til drykkjar og öruggt að ekki sé kleift að gera hann drykkjarhæfan.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal þó einni heimilt að flytja inn vínanda sem fellur undir tollskrárnúmer 2207.1000.] 1)
    1)L. 94/1995, 1. gr.
4. gr. Nú kemur skip frá útlöndum, og er skipstjóra þá skylt að tilkynna löggæslumanni þegar í stað, eða um leið og hann sýnir skipsskjölin, hvort nokkurt áfengi sé í skipinu og hve mikið.
[Um meðferð áfengis í skipi, er kemur frá útlöndum, vörslu þess eða innsiglun, fer samkvæmt ákvæðum laga um tollheimtu og tolleftirlit.] 1)
Fyrirmæli þessarar greinar taka til [loftfara], 2) eftir því sem við á, en ná ekki til herskipa eða skemmtiferðaskipa.
    1)L. 7/1985, 1. gr. 2)L. 25/1989, 2. gr.
5. gr. Strandi skip hér við land og hafi meðferðis áfengi, eða berist þvílíkt vogrek á land, [skal lögreglumaður eða hreppstjóri] 1) í forföllum lögreglustjóra þá þegar taka áfengisílátin til varðveislu og innsigla þau. Hann segir lögreglustjóra tafarlaust til áfengisins, og kemur lögreglustjóri því til geymslu á óhultum stað.
Sé eigandi kunnur, skal tilkynna honum með fyrstu ferð um björgun áfengisins, ella skal auglýsa það eftir reglum um vogrek. Kjósi eigandi innan 12 mánaða frá tilkynningu, að áfengið sé sent úr landi á hans kostnað eða selt Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins fyrir það verð, er hún kann að bjóða, skal það gert, ella sé það eign ríkissjóðs. Sama er og ef eigandi gefur sig fram samkvæmt auglýsingu innan 6 mánaða frá birtingu hennar, og skal þá telja 12 mánaða frestinn frá því, að hann segir til sín.
Gefi enginn eigandi sig fram áður en hinn lögskipaði auglýsingarfrestur er útrunninn, skal áfengið eign ríkissjóðs.
    1)L. 25/1989, 3. gr.
6. gr. Enginn má taka við neins konar ólöglega aðfluttu áfengi úr skipi eða öðrum farkosti hér við land eða í íslenskri landhelgi né heldur taka við áfengi á floti, hvort sem hann gerir það endurgjaldslaust eða gegn endurgjaldi.
1)
    1)L. 7/1985, 2. gr.

III. kafli. Tilbúningur áfengis.
7. gr. [Um tilbúning og framleiðslu áfengra drykkja fer samkvæmt lögum … 1) um verslun ríkisins með áfengi og tóbak … 1)
Önnur framleiðsla, tilbúningur og bruggun áfengra drykkja eða áfengisvökva er bönnuð á Íslandi, svo og að gera drykkjarhæft það áfengi sem er eða gert hefur verið óhæft til drykkjar.] 2)
    1)L. 94/1995, 2. gr. 2)L. 38/1988, 2. gr.
8. gr. [Upptæk skal gera öll áhöld sem með ólögmætum hætti á að nota eða hafa verið notuð við bruggun eða tilbúning áfengra drykkja eða til þess að gera drykkjarhæft það áfengi sem ódrykkjarhæft var. Áfengi það, sem búið hefur verið til eða aftur gert drykkjarhæft með ólögmætum hætti, skal og gert upptækt ásamt ílátum.] 1)
[Bannað er að eiga, flytja inn, útbúa eða smíða sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til að gera drykkjarhæft áfengi sem ódrykkjarhæft var, nema hafa til þess sérstakt leyfi. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag leyfisveitinganna í reglugerð. Slík tæki sem finnast hjá öðrum en þeim sem hafa leyfi samkvæmt ákvæði þessu skulu gerð upptæk, án tillits til þess hvort tækin hafi verið notuð til áfengisgerðar eða ekki.] 2)
    1)L. 38/1988, 3. gr. 2)L. 94/1995, 3. gr.

IV. kafli. Sala og veitingar áfengis.
9. gr. [Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annast sölu áfengis, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak.] 1)
    1)L. 94/1995, 4. gr.
10. gr. [Ríkisstjórninni er heimilt að setja á stofn útsölustaði áfengis, en þó aðeins í sveitarfélögum þar sem meiri hluti íbúanna býr í þéttbýli og íbúafjöldi hefur náð a.m.k. 1000 í þrjú ár samfellt.
Áður en útsala er sett á stofn skal fara fram atkvæðagreiðsla kosningarbærra manna í því sveitarfélagi sem í hlut á og þarf meiri hluta greiddra atkvæða til þess að útsala sé leyfð.
Áfengisútsala skal lögð niður ef það er samþykkt með meiri hluta greiddra atkvæða í sveitarfélaginu.
Atkvæðagreiðsla, sem um getur í 2. og 3. mgr., skal fara fram er þriðjungur kjósenda eða meiri hluti hlutaðeigandi sveitarstjórnar krefst þess. Nú hefur verið fellt með atkvæðagreiðslu að stofna útsölu eða loka útsölu eða samþykkt að leggja niður útsölu og getur atkvæðagreiðsla þá ekki farið fram á ný fyrr en að tveimur árum liðnum.] 1)
    1)L. 25/1989, 4. gr.
11. gr. Heimild til að selja [áfengi innan lands] 1) hafa þeir einir, er hér greinir:
    [1. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak.
    2. Innflytjendur áfengis og heildsalar sem leyfi hafa samkvæmt lögum um verslun ríkisins með áfengi og tóbak; þó einungis til þeirra sem um ræðir í 1., 3.–5. og 7. tölul., svo og til sölu úr landi, til þeirra sem njóta úrlendisréttar og í tollfrjálsar forðageymslur. Þá hefur innflytjandi heimild til að selja áfengi þeim sem hafa leyfi til að selja áfengi í heildsölu.
    3. Framleiðendur áfengra drykkja, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak; þó einungis til þeirra sem um ræðir í 1., 4. og 5. tölul., til heildsala skv. 2. tölul., svo og til sölu úr landi, til þeirra sem njóta úrlendisréttar og í tollfrjálsar forðageymslur.
    4. Tollfrjálsar verslanir, sbr. VIII. kafla tollalaga.
    5. Veitingastaðir sem hafa almennt leyfi til áfengisveitinga, sbr. 12. gr.
    6. Þeir sem hafa leyfi til að veita áfengi, sbr. 2. mgr. 20. gr.] 1)
    [7.] 1) [Lyfsalar og læknar sem rétt hafa til lyfjasölu, þó eingöngu það áfengi sem talið er í lyfjaskrá og aðeins til lyfja.] 2)    Dómsmálaráðherra setur reglugerð 3) um áfengislyfjasölu lyfsala og lækna, sem rétt hafa til lyfjasölu, og skal meðal annars ákveða, hve mikið áfengi megi á hverju ári eða um ákveðið tímabil láta af hendi til hverrar lyfjabúðar (lyfsala eða læknis). Í reglugerðinni skal greina á milli áfengislyfja, sem hæf eru til nautnar, og áfengislyfja, sem óhæf eru til nautnar. Enginn lyfsali má láta úti áfengislyf, sem hæft er til nautnar, nema eftir löglegum lyfseðli læknis. Enginn læknir má ávísa úr lyfjabúð áfengislyfi, sem hæft er til nautnar, nema hann hafi fengið til þess sérstakt leyfi ráðherra, er ákveður, að fengnum tillögum landlæknis, hversu mikið áfengi viðkomandi læknir megi ávísa á ári, eða um ákveðið tímabil, og á hvern hátt. Landlæknir lætur lækni, sem sérstakt leyfi hefur fengið til áfengislyfjaávísana, í té hæfilega mörg eyðublöð undir slíkar ávísanir.
    [8.] 1) Dómsmálaráðherra setur reglugerð 4) um sölu vínanda til eldsneytis, er gerður hefur verið óhæfur til drykkjar, svo og um vínanda til iðnþarfa, efnarannsókna, náttúrugripasafna og annarra verklegra nota.

    1)L. 94/1995, 5. gr. 2)L. 25/1989, 5. gr. 3)Rg. 116/1952 (um sölu áfengis til lækninga). 4)Rg. 39/1935 (um sölu áfengis til iðnaðar o.fl.).
12. gr. [Heimilt er lögreglustjóra að veita veitingastað, sem telst fyrsta flokks að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu, almennt leyfi til áfengisveitinga. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar og er óheimilt að veita leyfi ef sveitarstjórn er leyfisveitingu mótfallin. Áður en sveitarstjórn lætur uppi umsögn skal hún leita álits áfengisvarnanefndar, sbr. 1. mgr. 30. gr.
Þriggja manna nefnd, sem dómsmálaráðherra skipar, skal dæma um það hvort veitingastaður telst fyrsta flokks. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en áfengisvarnaráð og Samband veitinga- og gistihúsa tilnefna hvort einn mann. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
Leyfi til áfengisveitinga skal ekki veitt til lengri tíma en fjögurra ára í senn. Nú er sótt um endurnýjun leyfis og skal þá framlengja fyrra leyfi til bráðabirgða meðan sú umsókn er til meðferðar. Leyfi skal bundið við nafn veitingamanns og veitir leyfishafa aðeins rétt til veitinga í því húsnæði er hann hefur þegar leyfi er veitt. Taki nýr veitingamaður við rekstri skal hann sækja um nýtt leyfi. Meðan sú umsókn er til meðferðar skal gefa út leyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og fyrra leyfi. Öll leyfi skulu gefin út með fyrirvara um að stytta megi leyfistímann án skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð ef sérstakar ástæður mæla með því að mati dómsmálaráðherra.
Leyfi til áfengisveitinga skal bundið því skilyrði að veitingastaður hafi á boðstólum mat og fjölbreytta óáfenga drykki við hóflegu verði. Leyfi má binda frekari skilyrðum sem lögreglustjóri eða sveitarstjórn telja nauðsynleg. Dómsmálaráðherra getur sett almennar reglur um skilyrði fyrir leyfisveitingu. Ef veitingamaður brýtur gegn settum skilyrðum eða uppfyllir þau ekki lengur skal lögreglustjóri þegar fella leyfi úr gildi.
Skylt er lögreglumönnum að gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra veitingastaða sem hafa leyfi til áfengisveitinga. Ráðherra getur ákveðið nánar hvernig eftirliti með veitingastöðum þessum skuli háttað. Skulu leyfishafar endurgreiða ríkissjóði kostnað af eftirliti eftir reglum sem ráðherra setur.
Nánari fyrirmæli um áfengisveitingar, þar á meðal um veitingatíma, álagningu og eftirlit með veitingastöðum, skulu sett í reglugerð. 1) Áður en slík reglugerð er sett skal leita umsagnar áfengisvarnaráðs og Sambands veitinga- og gistihúsa.] 2)
    1)Rg. 425/1989, sbr. 165/1993 og 604/1995 (um sölu og veitingar áfengis). Erbr. 212/1991. 2)L. 25/1989, 6. gr.
13. gr. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, útsölur hennar og veitingastaðir, sem leyfi hafa til veitingar áfengra drykkja, mega aðeins afhenda áfengi gegn staðgreiðslu.
Ákvæði greinar þessarar gilda eigi um sölu vínanda til lyfsala og lækna, sem rétt hafa til lyfjasölu, sbr. 11. gr.
14. gr. Áfengissölubúðir skulu vera lokaðar á helgidögum þjóðkirkjunnar og frá hádegi á laugardögum og aðfangadögum stórhátíða; einnig þá daga, er almennar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna fara fram, svo og sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst.
Lögreglustjórum er heimilt að loka áfengisútsölu eða banna vínveitingar á veitingastöðum, sem leyfi hafa til áfengisveitinga, fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma, þegar sérstaklega stendur á. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eða veitingamaður, sem í hlut á, getur skotið ákvörðun lögreglustjóra til dómsmálaráðherra. … 1)
Á sama hátt er lögreglustjórum heimilt, ef sérstaklega stendur á, að banna um stundarsakir afhendingu áfengissendinga, þar á meðal úr pósti.
    1)L. 37/1993, 36. gr.
15. gr. [Dómsmálaráðherra setur reglugerð 1) um sölu áfengis samkvæmt þessum kafla.] 2)
[Auk eftirlits með veitingastöðum, sem leyfi hafa til áfengisveitinga, sbr. 5. og 6. mgr. 12. gr., skulu lögreglumenn gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra sem heimild hafa til framleiðslu eða sölu áfengis, sbr. 2. og 3. tölul. 11. gr., og þeirra sem hafa leyfi til að veita áfengi skv. 2. mgr. 20. gr. Í reglugerð skal kveða nánar á um eftirlit þetta.
Skattstjórar skulu láta lögreglustjórum í té skrá yfir þá aðila sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. laga um gjald af áfengi.] 3)
    1)Rg. 425/1989, sbr. 165/1993 og 604/1995 (um sölu og veitingar áfengis). 2)L. 38/1988, 5. gr. 3)L. 94/1995, 6. gr.

V. kafli. Meðferð áfengis í landinu.
16. gr. Áfengi má ekki afhenda né veita neinum, sem er bersýnilega ölvaður.
Óheimilt er að selja þeim manni áfengi, er sekur hefur gerst um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis. Skylt er að tilkynna útsölustöðum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins jafnóðum, hverjir gerst hafa sekir um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis.
Yngri mönnum en 20 ára má ekki selja, veita eða afhenda áfengi með nokkrum hætti. Ávallt þegar ástæða er til að ætla, að kaupandi eða viðtakandi áfengis hafi ekki náð þessum aldri, skal sá, sem selur, veitir eða afhendir það, láta hlutaðeiganda sanna aldur sinn á þann hátt að sýna nafnskírteini með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.
1)
    1)L. 94/1995, 7. gr.
[16. gr. a. Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.
Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifingu prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.
Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda, sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur, heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.
Undanþegið banni við áfengisauglýsingum er:
    1. Auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi.
    2. Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á venjulegum búnaði til áfengisveitinga á veitingastað þar sem áfengisveitingar eru heimilaðar.
    3. Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á flutningatækjum áfengisframleiðanda, vöruumbúðum, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.] 1)
    1)L. 94/1995, 8. gr.
17. gr. 1)
Áfengissendingar skulu greinilega merktar þannig, að séð verði á umbúðum, að innihald sendingarinnar sé áfengi ætlað til neyslu. Nú leikur vafi á, hvort áfengi sé í sendingu, og skal þá hlutaðeigandi afgreiðslumaður, þar á meðal póstafgreiðslumaður neita að taka við sendingu.
    1)L. 94/1995, 9. gr.
18. gr. Með þeirri undantekningu, sem í 10., 11., 12. og 20. gr. segir, skal öllum óheimilt að veita, selja eða láta af hendi áfengi til annarra manna gegn því, að gjald eða annað verðmæti komi fyrir.
19. gr. Láti nokkur viðgangast ólöglegan tilbúning áfengis, ólöglega sölu eða geymslu þess í húsum sínum eða á landi sínu, [skal refsa honum samkvæmt lögum þessum]. 1) Sama refsing liggur við, ef skip, bátar eða önnur flutningatæki eru með vitund og vilja eigandans notuð til geymslu, flutnings eða sölu ólöglegs áfengis.
[Með sama hætti skal refsa þeim er hefur áfengi í vörslu sinni sem látið hefur verið af hendi andstætt ákvæðum 18. gr.] 2)
3)
[Heimilt er] 2) að rannsaka, hvort bifreiðar hafi áfengi meðferðis, þó að það sé löglega keypt, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um, að áfengið sé ætlað til ólöglegrar sölu.
Nú finnst áfengi í bifreið, þegar svo stendur á sem í næstu málsgrein hér á undan segir, og skal þá refsa eiganda þess, sem hann væri sekur um ólöglega áfengissölu, nema leiddar séu að því sterkar líkur, að áfengið sé ekki ætlað til sölu.
Ökumönnum leigubifreiða og annarra almenningsbifreiða er bannað að taka ölvuð ungmenni yngri en 20 ára til flutnings í bifreiðum sínum eða leyfa þeim áfengisneyslu þar. Þó skal heimilt að flytja slík ungmenni án tafar til heimila þeirra, til lögregluyfirvalda og á sjúkrahús. Þá er ölvaður maður óskar flutnings með leigubifreið eða annarri almenningsbifreið, eða farþegi í slíku farartæki neytir áfengis í því, skal bifreiðarstjóri krefjast þess, að hlutaðeigandi sanni aldur sinn með nafnskírteini með mynd eða á annan fullnægjandi hátt, ef hann hefur ástæðu til að ætla, að hlutaðeigandi hafi ekki náð 20 ára aldri.
    1)L. 52/1978, 2. gr. 2)L. 94/1995, 10. gr. 3)L. 19/1991, 194. gr.
20. gr. Bannað er að neyta áfengis í veitingastofum, veitingatjöldum eða öðrum þeim stöðum, þar sem veitingar fara fram, sbr. þó 12. gr. og 2. mgr. þessarar greinar. Sama gildir og um félagsherbergi.
Lögreglustjóri má þó veita félögum manna leyfi til áfengisveitinga í félagsherbergjum eða almennum veitingastöðum, öðrum en þeim, er um getur í 12. gr. Slíkt leyfi má þó einungis veita stjórnum félaganna, þegar um er að ræða árshátíðir félaganna eða samkvæmi innanfélagsmanna og gesta þeirra, sem haldin eru af sérstöku tilefni. Eigi má þó veita leyfi, nema sýnt sé, að félagsskapurinn í heild eða einstakir félagsmenn hafi ekki hagnað af. Slík [leyfi] 1) má ekki veita skemmtifélögum. Ekki má heldur veita leyfi samkvæmum félaga, sem ætla má að til sé stofnað í tekjuskyni fyrir veitinga- eða skemmtistaði. Sannist það, að félög misnoti áfengisveitingaleyfi eða afli þess undir fölsku yfirskini, missa þau rétt til að fá slík leyfi í tvö ár.
Bannað er að bera með sér áfengi inn á veitingastaði, annað en það, sem þangað er flutt til heimilla veitinga. Á sama hátt er bannað að bera með sér áfengi út af veitingastað.
Ungmennum yngri en 18 ára er óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á veitingastað, þar sem [veitingar áfengis] 1) eru leyfðar, nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Dyraverðir, eftirlitsmenn og framreiðslumenn skulu láta ungmenni, er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 8 að kvöldi án samfylgdar foreldra sinna eða maka, sanna aldur sinn á þann hátt að sýna nafnskírteini með mynd eða á annan fullnægjandi hátt, enda sé ástæða til að ætla, að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri.
    1)L. 25/1989, 8. gr.

VI. kafli. Ölvun.
21. gr. Hver sá, sem sökum ölvunar veldur óspektum, hættu eða hneyksli á almannafæri, opinberum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum, skal sæta ábyrgð samkvæmt lögum þessum.
22. gr. Hver embættismaður eða starfsmaður ríkisins eða opinberra stofnana, sem er ölvaður, þegar hann er að gegna embætti sínu eða starfi, skal sæta refsingu. Sé um miklar sakir að ræða eða brot ítrekað, varðar það frávikningu úr stöðunni um stundarsakir eða að fullu og öllu. Eigi læknir í hlut, skal hann missa lækningaleyfi sitt ásamt embættinu.
Sömu refsingu skal hver sá læknir sæta, þótt hann sé ekki embættismaður, sem er ölvaður, þegar hann er að gegna læknisstörfum, og kemur þá missir lækningaleyfis um stundarsakir eða fyrir fullt og allt í stað embættis- eða sýslunarmissis.
23. gr. Séu lyfsalar eða þjónar þeirra ölvaðir við störf sín, sæta þeir sömu refsingu og læknar.
24. gr. Ef flugmenn, bifreiðarstjórar, skipstjórar, stýrimenn, bátsformenn eða vélstjórar eru undir áhrifum áfengis við flug, akstur, stjórn skips eða vélar, varðar það missi réttar til að stjórna flugvél, bifreið, skipi, bát eða vél um stundarsakir, þó eigi skemur en 3 mánuði, eða fyrir fullt og allt, ef miklar sakir eru eða brot er ítrekað.
Sömu refsingu skulu framangreindir menn sæta, þótt annar hafi haft með höndum starf þeirra í farartækinu, ef þeir eru sjálfir í því og áttu að annast starfið, en vanræktu það sökum ölvunar og verulegt slys hlaust af því.
Það varðar refsingu að veita mönnum þeim, sem tilgreindir eru í 1. mgr., áfengi, þegar þeir eru að störfum.
Ákveða skal í reglugerð, að flugmönnum, bifreiðarstjórum og stjórnendum hvers konar farartækja, sem annast mannflutninga, sé bannað að neyta áfengis vissan tíma áður en þeir hefja störf sín.
25. gr. Leiki vafi á, hvort sakborningur samkvæmt þessum kafla sé undir áhrifum áfengis, skal bæði [lögreglu] 1) og sakborning heimilt að láta skera úr því með blóðrannsókn, sem læknir eða annar kunnáttumaður framkvæmir.
    1)L. 92/1991, 53. gr.

VII. kafli. Áfengisvarnir.
26. gr. Ríkisstjórnin skipar sér til aðstoðar áfengisvarnaráðunaut. Skal hann skipaður að fengnum tillögum frá stjórnum þeirra bindindisfélaga, sem styrks njóta af opinberu fé til bindindisstarfsemi.
Áfengisvarnaráðunautur starfar samkvæmt erindisbréfi, sem ríkisstjórnin setur honum. Um ákvörðun launa hans fer eftir ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
27. gr. Áfengisvarnaráð skal skipað fimm mönnum. Áfengisvarnaráðunauturinn er sjálfkjörinn formaður ráðsins, en hinir fjórir, ásamt jafnmörgum varamönnum, skulu kosnir hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi að afstöðnum hverjum almennum alþingiskosningum. [Heilbrigðismálaráðherra] 1) skipar varaformann ráðsins, að fengnum tillögum frá stjórnum þeirra bindindisfélaga, sem styrks njóta af opinberu fé. Áfengisvarnaráð skal hafa skrifstofu í Reykjavík. Veitir áfengisvarnaráðunautur henni forstöðu. Kostnaður við störf áfengisvarnaráðs greiðist úr ríkissjóði.
    1)L. 52/1978, 3. gr.
28. gr. Áfengisvarnaráð fer með yfirstjórn allra áfengisvarna í landinu. Það skal stuðla að bindindissemi, vinna gegn neyslu áfengra drykkja og reyna í samráði við ríkisstjórn, áfengisvarnanefndir og bindindissamtök að afstýra skaðlegum áhrifum áfengisneyslu.
Áfengisvarnaráð skal hafa umsjón með áfengisvarnanefndum, samræma störf þeirra og vera þeim til aðstoðar og leiðbeiningar í hvívetna. Það skal fylgjast sem best með áfengis- og bindindismálum og veita hlutlausar upplýsingar um þau til blaða og annarra aðila, er óska þeirra.
Umsagnar áfengisvarnaráðs skal jafnan leita, áður en reglugerðir samkvæmt lögum þessum eru settar. Álits þess skal einnig leita varðandi verðlagningu áfengis.
Að öðru leyti fer áfengisvarnaráð með þau störf, sem lög þessi ákveða.
Nánari ákvæði um störf áfengisvarnaráðs skulu sett í reglugerð. 1)
    1)Rg. 130/1954 (um áfengisvarnaráð). Um birtingu síðustu málsgreinar 28. gr., sjá Stjtíð. A 1972, bls. 100.
29. gr. Af ágóða Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skal árlega leggja í gæsluvistarsjóð framlag, eins og ákveðið er í lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra (nr. 39 19. maí 1964), og fer um meðferð fjár þessa eftir ákvörðun heilbrigðisstjórnar, sbr. nefnd lög.
30. gr. Áfengisvarnanefndir skulu vera í öllum hreppum og kaupstöðum landsins, þriggja manna í hreppum, sjö manna í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík, þar sem nefndin er skipuð níu mönnum. Ráðherra skipar formann nefndanna, að fengnum tillögum áfengisvarnaráðs, en að öðru leyti skulu nefndarmenn kosnir af hlutaðeigandi hreppsnefndum og bæjarstjórnum. Skylt er að viðhafa hlutfallskosningu, ef óskað er. Kjörtími nefndarmanna er fjögur ár. Nefndirnar skulu vera ólaunaðar, en kostnaður við störf þeirra, ef einhver er, greiðist úr ríkissjóði að öðru leyti en því, að hlutaðeigandi hreppur eða kaupstaður greiðir fyrir nauðsynlegt húsnæði handa þeim.
Áfengisvarnanefndir skulu vera ráðgefandi um öll bindindis- og áfengismál fyrir sveitarstjórnir, lögreglustjóra, áfengisvarnaráð, ríkisstjórn og aðra þá aðila, sem komið geta til greina í því sambandi. Verksvið nefndanna skal að öðru leyti ákveðið í reglugerð, 1) sem ráðherra gefur út, að fengnum tillögum áfengisvarnaráðs.
[Heilbrigðismálaráðherra] 2) er heimilt að fela félagsmálaráði Reykjavíkur störf áfengisvarnanefndar í Reykjavík að nokkru eða öllu leyti. Ráðherra kveður nánara á um starfssvið nefndanna að þessu leyti í reglugerð. 3)
Nú ákveður sveitarstjórn utan Reykjavíkur að stofna félagsmálaráð, og getur þá [heilbrigðismálaráðherra] 2) með sama hætti falið því störf áfengisvarnanefndar að nokkru eða öllu leyti.
    1)Rg. 595/1982 (um áfengisvarnanefndir). 2)L. 52/1978, 4. gr. 3)Rg. 121/1971.
31. gr. Í öllum skólum, er opinbers styrks njóta, skal fara fram fræðsla um áhrif áfengisnautnar. Sérstaka áherslu skal leggja á að upplýsa, hvaða áhrif ofnautn áfengis hefur á líkama mannsins, vinnuþrek, siðferðisþroska hans og sálarlíf, á heimili manna, umgengnisvenjur og almenna siðfágun, á fjárhag einstaklinga og þjóðarinnar, á öryggi í vandasömu starfi og atvinnu manna almennt. Enn fremur skal veita fræðslu um það, hver sé öruggasta leiðin til að forðast ofnautn áfengis.
Fræðslumálastjórninni skal skylt að sjá svo um, að skólarnir eigi þess jafnan kost að fá hentugar kennslubækur og kennslukvikmyndir til fræðslu um áhrif áfengisnautnar, eftir því sem við á á hverju skólastigi.
Ráðherra setur með reglugerð 1) nánari fyrirmæli um fræðslu samkvæmt þessari grein, þar á meðal um fjölda kennslustunda í hverjum skóla.
    1)Rg. 103/1956 (um bindindisfræðslu).
32. gr. Ríkisstjórnin skal láta auglýsa í skipum, sem annast farþegaflutning með ströndum landsins, á veitingahúsum, pósthúsum og símastöðvum og öðrum þeim stöðum, sem þurfa þykir, útdrátt úr lögum þessum.

VIII. kafli. Refsiákvæði.
33. gr. [Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum.
Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af útsöluverði sambærilegs áfengis hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
Brot gegn 3. og 7. gr. varða fangelsi auk sektar, ef áfengið hefur verið ætlað til sölu eða veitinga fyrir borgun og brot er margítrekað eða að öðru leyti stórfellt.
Ef maður gerir sér að atvinnu ólöglega áfengissölu eða veitingar eða slíkt brot er margítrekað, varðar það fangelsi auk sektar. Sama er um brot veitingamanns, sem leyfi hefur til áfengisveitinga, og brot er margítrekað eða að öðru leyti stórfellt.] 1)
    1)L. 52/1978, 5. gr.
34. gr. [Gera skal upptækt til ríkissjóðs:
    a. Áfengi, sem ólöglega er flutt til landsins.
    b. Áfengi, sem skotið er undan innsigli eða vanrækt að skýra frá.
    c. Áfengi, sem flutt er eða geymt ólöglega í bifreið, sbr. 4. mgr. 19. gr.
    d. Áfengi, sem borið er ólöglega inn á veitingastað eða út af honum.
    e. Áfengi, sem ungmenni yngri en 20 ára hafa undir höndum.
    f. Áfengi í vörslu þeirra, sem brotlegir gerast skv. 21. gr.] 1)
    1)L. 52/1978, 6. gr.
35. gr. [Skip, sem áfengi er ólöglega flutt með hingað til lands, sbr. 3. gr., skal ávallt vera að veði til tryggingar greiðslu á sektum og málskostnaði, og má kyrrsetja það og selja, að undangengnu fjárnámi, til lúkningar hvoru tveggja.
Sama gildir um skip, þá er skipstjóri skýrir rangt frá um áfengi, er hann hefur meðferðis, eða dregur að skýra frá áfengisbirgðum, sbr. 4. gr.
Flytji skip hingað ólöglega áfengi, svo að telja megi það verulegan hluta af farmi þess, er heimilt að gera skipið upptækt til ríkissjóðs.
Ákvæði greinar þessarar gilda einnig um flugvélar eða annan farkost, sem áfengi hefur verið flutt með.] 1)
    1)L. 52/1978, 7. gr.
36. gr. [Ef áfengi er flutt inn í því skyni að selja það eða veita fyrir borgun [andstætt ákvæðum 3., sbr. 11. gr.] 1) telst brot fullframið, þegar áfengið hefur verið flutt inn í landhelgi.] 2)
    1)L. 94/1995, 11. gr. 2)L. 52/1978, 8. gr.
37. gr. [Misbeiti læknir lækningaleyfi sínu til þess að útvega mönnum áfengi til neyslu, með því að láta af hendi áfengi eða áfeng lyf eða lyfseðil á áfengi, án þess að áfengið sé nauðsynlegt til lækninga, skal hann sæta refsingu samkvæmt lögum þessum.
Sama gildir um lyfsala og starfsmenn þeirra, ef þeir misnota aðstöðu sína til þess að selja mönnum áfengi til neyslu.
Sé brot margítrekað eða að öðru leyti stórfellt, skal svipta sökunaut leyfi til þess að láta af hendi áfengi eða áfengisblöndur eða gefa út áfengisseðla.] 1)
    1)L. 52/1978, 9. gr.
38. gr. [Misnoti veitingamaður, sem leyfi hefur til áfengisveitinga, leyfi sitt með því að veita áfengi á öðrum tímum eða á annan hátt en honum er heimilt, eða aðrar [áfengistegundir], 1) svo og með því að selja eða afhenda áfengi, án þess að neytt sé á staðnum, eða hann brýtur á annan hátt fyrirmæli, sem um áfengisveitingar gilda, varðar það refsingu samkvæmt lögum þessum, svo og sviptingu veitingaleyfis um stundarsakir og fyrir fullt og allt, ef brot er margítrekað eða að öðru leyti stórfellt.
Brot þjónustumanna varða og refsingu samkvæmt lögum þessum.] 2)
    1)L. 25/1989, 9. gr. 2)L. 52/1978, 10. gr.
39. gr. 1)
    1)L. 52/1978, 11. gr.
40. gr. [Verði maður, sem leyfi hefur til veitingastarfsemi, sekur um brot á lögum þessum, og brot á sér stað í sambandi við atvinnurekstur hans, og skal þá auk refsingar svipta hann veitingaleyfi um stundarsakir eða fyrir fullt og allt, ef brot er margítrekað eða að öðru leyti stórfellt.] 1)
    1)L. 52/1978, 12. gr.
41. gr. 1)
    1)L. 52/1978, 13. gr.
42. gr. [Hafi bifreiðastjóri ítrekað gerst sekur um ólöglega áfengissölu, varðar það hann missi réttar til að stjórna bifreið um stundarsakir, þó eigi skemur en 3 mánuði, eða fyrir fullt og allt, ef miklar sakir eru eða brot margítrekað.] 1)
    1)L. 52/1978, 14. gr.
43.–45. gr. 1)
    1)L. 52/1978, 15. gr.
46. gr. [Sá, sem kemur því til leiðar með fortölum eða fjárframlögum, heitum, hótunum eða ráðum sínum, að brotin verði ákvæði 3. gr., 1. mgr. 6. gr. eða 7. gr., veitir til þess aðstoð í orði eða verki, tekur þátt í gróða af þeim brotum eða aðstoðar aðra til að halda þeim gróða, skal, þótt hann verði ekki talinn aðalmaður í verknaðinum, sæta refsingu samkvæmt lögum þessum.] 1)
    1)L. 52/1978, 16. gr.

IX. kafli. Ýmis ákvæði.
47. gr. 1)
Gera skal aðför hjá hinum seku til lúkningar sektum samkvæmt lögum þessum, og því aðeins skulu þeir afplána sektir í fangelsi, að fé þeirra hrökkvi ekki fyrir þeim.
[Fjárnám fyrir sektum og kostnaði skal gera í bátum og öðrum flutningatækjum, sem notuð eru til ólöglegs áfengisflutnings.] 2)
    1)L. 84/1971, 3. gr. 2)L. 52/1978, 17. gr.
48. gr. 1)
    1)L. 94/1995, 12. gr.
49. gr. Fara skal með mál út af brotum á lögum þessum og reglum að hætti opinberra mála.
50. gr. 1)
    1)L. 94/1995, 13. gr.