Lagasafn.  Íslensk lög í janúar 2003.  Útgáfa 128a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um landamerki o.fl.

1919 nr. 41 28. nóvember



I. kafli. Um gerð landamerkja, merkjalýsing og viðhald.
1. gr. Þar sem eigi eru af völdum náttúrunnar glögg merki milli jarða, er eigendum þeirra eða fyrirsvarsmönnum skylt að setja slík merki, svo sem með girðingum, skurðum eða vörðum með hæfilegu millibili, enda hafi eigi áður verið sett greinileg merki, er löglega sé við haldið. Sama er um merki milli jarða og afrétta eða annarra óbyggðra lendna, ef sá krefst þess, er land á að afrétti eða lendu. Með sama hætti skal og setja merki um lönd hjáleigna, húsmannabýla og þurrabúða utan kaupstaða og löggiltra kauptúna, ef skipt land fylgir þeim, svo og um aðrar lendur eða landhluta, sem skipt er úr landi jarðar.
Skylt er mönnum, er lönd þeirra liggja saman, að leggja vinnu og efni til merkjagerða, en eigi nær sú skylda lengra en til að gera merki glögg.
Nú skilur menn á um það, hversu hver skuli leggja til merkjagerðar, og skulu þá úttektarmenn skera úr. Nú rís ágreiningur um merkjagerð, og er sitt land í hvorum hreppi, en þó í sama lögsagnarumdæmi, og nefnir sýslumaður þá 2 lögráða, valinkunna og óhlutdræga menn til að skera úr. Ef lönd liggja í sínu lögsagnarumdæmi hvort, þá skal sýslumaður … 1) í hvoru þeirra nefna sinn manninn hvor, en ef þá greinir á, nefnir ráðherra oddamann.
    1)L. 92/1991, 6. gr.
2. gr. Eigandi lands eða fyrirsvarsmaður skal gera glöggva skrá um landamerki, eins og hann veit þau réttust. Skal þar og getið ítaka og hlunninda í land það, svo og þeirra ítaka og hlunninda, er því landi fylgja í lönd annarra manna. Merkjalýsingu þessa skal hann sýna hverjum þeim, sem land á til móts við hann, eða fyrirsvarsmanni hans, svo og aðiljum ítaka og hlunninda samkvæmt framanskráðu. Rita skulu þeir samþykki sitt á merkjaskrá, nema þeir telji hana ranga, enda skal þess þá getið, ef einhver þeirra vill eigi samþykkja. Að þessu loknu skal merkjaskrá afhent hreppstjóra ásamt þinglýsingar- og stimpilgjaldi. [Skal hann athuga, hvort allir aðilar hafi ritað á hana samþykki sitt, og geta þess í skránni. Hann skal þegar í stað senda sýslumanni skrána til þinglýsingar.] 1)
Nú hefir merkjaskrá verið löglega gerð og þinglesin áður en lög þessi koma til framkvæmdar, og þarf þá eigi að gera hana að nýju, enda séu merki þau glögg og ágreiningslaus, er þá voru sett.
    1)L. 77/1978, 1. gr.
3. gr. Eiganda lands, eða fyrirsvarsmanni þess, er skylt að halda við löglega settum merkjum að sömu tiltölu sem í 1. gr. segir um merkjagerð. Ef ágreiningur verður um hluttöku í viðhaldi landamerkja, fer um hann samkvæmt reglum, sem í 1. gr. getur.
4. gr. Nú er landamerkjum breytt með samningi, landskiptum eða á annan lögmætan hátt, og fer þá um merkjagerð, merkjaskrá, þinglýsingu hennar og viðhald merkja samkvæmt 1.–3. gr.
[Dómi um landamerki skal dómhafi láta þinglýsa sem merkjaskrá. Dómur skal afhentur til þinglýsingar innan fjögurra mánaða frá dómsuppsögn, enda hafi hann ekki sætt áfrýjun.] 1)
    1)L. 77/1978, 2. gr.
5. gr. Í lögsagnarumdæmi hverju skal vera löggilt landamerkjabók, og skal [sýslumaður] 1) í hana rita alla þinglýsta gerninga og dóma um landamerki. Ráðherra getur sett nánari fyrirmæli um skipulag landamerkjabóka.
    1)L. 92/1991, 6. gr.
6. gr. Jafnskjótt sem lög þessi koma til framkvæmda skulu [sýslumenn], 1) hver í sínu umdæmi, rannsaka það, hvort merkjaskrám þar hafi þinglýst verið. Nú kemur það í ljós, að merkjaskrám hefir eigi verið þinglýst eða að samþykki sumra aðilja vantar á þinglýsta merkjaskrá, og skal [sýslumaður] 1) þá bjóða landeiganda, eða fyrirsvarsmanni hans, að gera merkjaskrá innan ákveðins tíma og að láta þinglýsa henni lögum þessum samkvæmt.
[Sýslumenn og hreppstjórar skulu gefa því gætur að ákvæðum þessara laga um merkjagerð, merkjaskrár og viðhald merkja sé fylgt. Verði hreppstjóri var við misbrest í þeim efnum skal hann tilkynna það sýslumanni.] 1)
[Nú berst sýslumanni tilkynning skv. 2. mgr., og skal hann þá kveðja þann eða þá sem eiga hlut að máli á sinn fund og beina því til þeirra að ráða bót á. Komi í ljós að ágreiningur sé um landamerki skal sýslumaður leita sátta um hann. Ef þau lönd, sem óvissa um landamerki varðar, standa á mörkum umdæma sýslumanna eða mörkin liggja um fleira en eitt umdæmi ákveður dómsmálaráðherra hvor eða hver þeirra gegni þessu starfi.] 1)
    1)L. 92/1991, 6. gr.
7. gr. [Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og fer um mál vegna þeirra að hætti opinberra mála.] 1)
    1)L. 116/1990, 8. gr.

II. kafli. 1)
    1)L. 92/1991, 6. gr.