18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt á marga vísu að fylgjast með háttalagi hv. þm. Alþfl. undanfarin dægur. En það hefur verið heldur óskemmtilegt, ég verð að játa það, raunar að mörgu leyti gróflega dapurlegt. Þessi hráskinnaleikur er með þeim endemum, að hann er ekki til þess fallinn að mínum dómi að auka veg og virðingu Alþingis, eins og mér skildist og hefur löngum skilist að væri aðalerindi flestra þessara hv. þm. inn á hið háa Alþingi.

Nú fer að líða að því, að menn botni hvorki upp né niður, og þess vegna spyrja menn og krefjast svara. En það verður fátt um þau. Eftir því sem ég skildi nú síðast á hv. 4. þm. Vestf., þá vildi hann engu svara til um það, hvort við ættum von á því, stjórnarandstaðan, að fá að kynnast innihaldi þessa mikilvæga frv. sem þeir bíða nú svara hjá samstarfsflokkum sínum um hvort þeir vilji fallast á. En mér sýnist á öllum tilburðum þeirra hv. Alþfl.-manna að spurning sé hversu lengi þeir hafi þolinmæði, hinir stjórnarflokkarnir, til þess að vera handþurrkur þeirra og hankatrog, eins og þeir hafa verið a.m.k. síðustu viku eða rúmlega það.

Þegar hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, lýsir yfir að samþykki Alþfl.-manna — hann undanskildi engan og talaði þar í nafni flokksins — við tekjuöflunarfrv. sem hér hefur verið til umr., og þau bæði tvö, sé háð því skilyrði, að fallist verði fyrst á eða frá gengið frv. því, sem þeir hafi lagt fyrir samstarfsflokka sína, og um það samið, að a.m.k. meginþættir þess nái fram að ganga, þá vil ég spyrja beint og án vafninga: Þýðir þetta það, að ef ekki hafa gengið saman samningar um þessi atriði, kröfuatriði Alþfl., þá muni þeir greiða atkv. gegn þessum tekjuöflunarfrv. sem eru undirstaða afgreiðslu fjárl.? Þýðir það það? Sjálfstfl. hefur nefnilega lýst yfir andstöðu sinni við þessi frv. og hann hefur 20 þm. á hinu háa Alþ. og Alþfl. 14, og það er ærið nóg til þess að sjálfsögðu að kolfella öll þessi frv. Sem sagt, er það alveg í gadda slegið, að verði þeim hv. Alþfl.-mönnum ekki gert til hæfis og kröfum þeirra mætt, þá muni þeir fella þessi frv., sem nú liggja fyrir og eru forsenda fjárlaganna?

Nú þarf engar vífilengjur eða útúrsnúninga til þess að svara þessu. Hv. Alþfl.-menn ættu að geta verið búnir að ná vopnum sínum því að til þess hafa þeir fengið ærið ráðrúm. (Gripið fram í.) Hitt er annað mál, að ekki eru öll prumphænsnin vígaleg. Það er svo sem út af fyrir sig á löngum þingfundum að menn geri að gamni sínu, en mér er síður en svo hlátur í hug. Ég veit ekki hvar í ósköpunum þetta ætlar að lenda. Mér er nær að halda að annað tveggja sé til: Hið fyrra að Alþfl.-menn ætli alls ekki að halda áfram að vinna í þessari ríkisstj. sem þeir hafa myndað. Þetta er annað og kannske það líklegra. Eða þá hitt, að þeir eru með öllu æði sínu að reyna að telja þjóðinni trú um að þeir séu andstæðir lagafrv. sem þeir telja að e.t.v. kunni að vera óvinsæl í augum þjóðarinnar. Þá er skörin farin að færast upp í bekkinn og frammistaðan ekki merkileg. En ég verð að játa að ég hef orðið þess var, að fólk, sem ekki þekkir nógu vel til, álítur að þeir standi sig bara nokkuð vel, þessir piltar. Að vísu eru það fáir enn þá sem eru þeirrar skoðunar, að þeir hafi náð fram aðalkosningahugsjónamálum sínum: „samningana í gildi“. Þeir eru að vísu ekki margir, en þó eru þeir til, því að þetta er margþættur og margslunginn flokkur. En ég held að sá dagur hljóti að renna innan tíðar að menn heyri holhljóminn í þessum málflutningi og sjái í gegnum þessa tilburði. Ef það er innihaldið að reyna að telja fólki trú um að þeir séu andstæðir þeirri skattpíningarstefnu, sem nú er höfð í frammi, og þeir halda að þeim haldist það uppi alveg til loka, enda þótt þeir greiði þessu atkv., því að nauðsynlegt er að þeir geri það til þess að lögum verði, þá held ég, ef þeir trúa þessu, að þeir treysti um of á dómgreindarleysi alls almennings.

Ég hef að vísu ekki jafnlanga þingsögu að baki og t.d. hv. 11. þm. Reykv., þannig að ég er ekki jafnmörgu vanur og hann, en ég sé að honum ofbýður. Hann hefur aldrei séð dæmi slíks og þvílíks eins og við höfum hér fyrir augum dagsdaglega í háttalagi þeirra hv. Alþfl.- manna. Ég svo sem skipti mér ekkert af því. Það liggur hver eins og hann hefur lund til eða eins og hann hefur um sig búið í þessu stjórnarsamstarfi. En ég verð að segja það, að ég ber þungann niðri vegna Alþingis og virðingar þess. Mér er nær að halda að hér sé unnið með allt öðrum hætti og þveröfugum á við það sem menn hafa lagt áherslu á að þyrfti að gera, af því sem Alþingi hefði sett niður á undanförnum árum að þeirra dómi, nýjabrumsmanna og upphlaupsmanna og þeirra sem ætluðu að hreinsa til í þjóðfélaginu.

Ég vil nú biðja hæstv. forseta að gá að því hjá sér, hvort hann þarf ekki að taka sér umhugsunarfrest á meðan við þm. snæðum, upp á það til að gera hvernig hann hyggst standa að atkvgr. varðandi þau frv. sem nú er verið að ljúka umr. um. Ég ætla a.m.k. að vænta þess, að hann kalli mig ekki til þess að leysa sig af hólmi ef til þess kemur, því að það hlýtur að liggja við borð að hæstv. forseti axli sín skinn og fresti að leita atkv., því að ella á hann stjórnarsinninn sjálfur, á hættu að þessi frv. verði felld frá 2. umr. og n. En við þessu þarf ég að fá svar: Merkja yfirlýsingar hv. 7. þm. Reykv. þetta, því að ella er hann ekki öruggur um framhaldið nema hann stemmi á að ósi þegar í stað?