18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

139. mál, nýbyggingagjald

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nokkrum sinnum haft orð á því, að beinir skattar væru lægri á Íslandi en í nágrannalöndum okkar, og vitnað í því efni til skýrslna frá Þjóðhagsstofnun, og skal ég út af fyrir sig ekki rengja það. En ég vil rifja það upp, að þessi þróun hefur hér á landi átt sér stað vegna þess að stjórnvöld hafa markað þá stefnu að draga úr tekjuöflun hins opinbera á grundvelli beinna skatta og talið hagkvæmara og heilbrigðara að auka hlutdeild óbeinna skatta að þessu leyti. Ég held ég megi segja að uppi hafi verið raddir um þessa stefnu í öllum stjórnmálaflokkum nema Alþb. Sjálfstfl. hefur alltaf verið þessarar skoðunar og Alþfl. hefur síðan hneigst inn á þessa braut, m.a. fyrir mjög heilbrigð og heppileg áhrif frá þáv. fjmrh. Noregs sem síðar varð forsrh. Noregs, Bratteli. Framsfl hefur einnig sveigst inn á þessa braut, að draga úr beinni skattheimtu og taka fremur óbeina skattheimtu upp í staðinn.

Spurningin er þess vegna ekki sú, hvort beinir skattar séu hærri eða lægri hér en í nágrannalöndum sem við viljum bera okkur saman við, heldur hvort við höfum verið að marka rétta stefnu á undanförnum árum eða hvort við höfum verið á rangri braut. Eini stjórnmálaflokkurinn, sem hefur talið þessa braut ranga, að lækka hlutdeild beinna skatta í tekjuöflun hins opinbera, er Alþb. og nú þegar horfið er frá því að draga úr beinni skattheimtu og þess í stað er hún aukin svo að um munar, þá er ljóst hverjir ráða ferðinni. Það er Alþb. sem ræður ferðinni í skattastefnu ríkisstj. eins og á öðrum sviðum stjórnarsamstarfsins.

Auðvitað skiptir það mestu máli, hver skattheimta hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, er í heild sinni, og það er ómótmælanleg staðreynd, að þessi skattheimta fór lækkandi í tíð fráfarandi ríkisstj. Það er talið að skattheimta ríkisins hafi lækkað úr 31% af þjóðarframleiðslu í 27–28% — við skulum segja 28% af þjóðarframleiðslu. Nú hefur hæstv, fjmrh. sagst vera ánægður ef unnt væri að halda sig við 30% skattheimtu til ríkisins af þjóðarframleiðslu. Ég spái því, að þessir pinklar, sem nú er verið að kynna okkur þm. og allir landsmenn verða síðan að bera, muni nema hærri hlutfallstölu en 30% af þjóðarframleiðslu. En þar með er ekki öll sagan sögð, vegna þess að skattheimta sveitarfélaga eykst líka hlutfallslega.

Það fréttist á hverjum degi um hækkun skatta, bæði til ríkis og sveitarfélaga. Við höfum hér í dag þrjú frv. til l. sem boða hækkandi skatta. Við höfum rætt hér á þingi þessa dagana þessu til viðbótar hækkunartillögur varðandi vörugjald, hækkunartillögur varðandi verðjöfnunargjald á raforku. Við vitum að borgarstjórn Reykjavíkur undir forustu nýs vinstri meiri hl. hefur þegar samþykkt stórhækkun lóðaleigu, stórhækkun fasteignagjalda, stórhækkun aðstöðugjalda, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Verið er að hefja þá mestu skattkúgun sem í marga áratugi hefur verið þekkt hér á landi. Sem betur fer var horfið frá slíkri stefnu fyrir áratug og ekki að ófyrirsynju, vegna þess að sú stefna dregur úr framtaki og hagvexti, dregur úr möguleikum þjóðarinnar til þess að bæta kjör sín og dregur, þegar til lengdar lætur, úr möguleikum hins opinbera einnig, ríkis og sveitarfélaga, til þess að sjá landsmönnum og umbjóðendum sínum fyrir viðunandi þjónustu og framkvæmdum.

Það er þessi skammsýni sem er einkenni á skattastefnu núv. ríkisstj. Þessi skammsýni er aðeins skýranleg með einum hætti, þeim að Alþb., sem ræður ferðinni, vill heilbrigt atvinnulíf á grundvelli einkarekstrar eða félagsframtaks feigt og tekur ekki sárt þótt frjáls atvinnurekstur verði ekki þess umkominn að sinna hlutverki sínu í þjóðfélaginu, vill með því ryðja brautina fyrir því þjóðskipulagi sem Alþb.-menn hafa barist fyrir, bæði hérlendis og einnig skoðanabræður þeirra erlendis.

Aðalatriði málsins er skattheimtan í heild sinni, og þegar nú fer saman stóraukin skattheimta af hálfu ríkisins annars vegar og af hálfu sveitarfélaga hins vegar, þá er ljóst að það er verið að skerða umráðarétt einstaklinga og fyrirtækja þeirra yfir aflafé sínu í svo stórum stíl að slíks eru ekki áður dæmi hér á landi. Við erum þarna komin inn á hættulega braut sem okkur ber að hverfa af.

Það er einnig athyglisvert, að handahóf og hentistefna einkennir að miklu leyti einstakar leiðir sem ríkisstj. vill fara í skattheimtu. Ég hef skilið orð hæstv. fjmrh. þannig, að hann vilji helst ekki hækka beina skatta, en það sé óhjákvæmilegt vegna þess að hækkun beinna skatta komi ekki fram í vísitölu og þess vegna sé hæstv. ríkisstj. sá einn kostur mögulegur að hækka beina skatta. Það á að nota þessa hækkun beinna skatta til þess að lækka vöruverð, til þess að lækka kaupgjald í landinu. Það á sem sagt að auka skattaálögur á allan almenning í formi beinna skatta til þess að geta lækkað kaup þess sama almennings. Hér er vegið aftan að landsmönnum með svo ósvífnum hætti að fá stjórnvöld, ef nokkur, hafa leyft sér annað eins og því líkt.

En jafnvel þessi stefna er að ganga sér til húðar hjá hæstv. ríkisstj. Þörf ríkisstj. fyrir nýja skatta og nýjar tekjur vegna óráðsíu stjórnvalda og vegna þess að stjórnvöld gættu ekki að því, að þau reistu sér hurðarás um öxl þegar með brbl. í sept. s.l., — fjáröflunarþörf stjórnvalda er orðin svo mikil að stjórnvöld verða einnig að hverfa inn á braut aukinnar skattheimtu óbeinna skatta. Við sjáum það í hækkunartillögum varðandi vörugjaldið, það á að fara að hækka það aftur. Við sjáum það í hækkunartillögum stjórnarvalda varðandi verðjöfnunargjald af raforku. Sú hækkun, 6% hækkun á verðjöfnunargjaldi, um 45% hækkun á því gjaldi sem nú er fyrir eða þar um bil, á að koma ofan á þá hækkun sem fyrirsjáanleg er á raforkuverði hér á landi á næstunni. Það er ljóst mál, að jafnvel þar sem talið er að raforkuverð sé lægst, eins og hér í Reykjavík, þarf það að hækka um 34–40% og þessi 6% koma ofan á þá hækkun. Nú hljóta tekjur af verðjöfnunargjaldi raforku auðvitað að fara vaxandi með hækkuðu raforkugjaldi almennt í landinu. Í því efni er þessi tekjustofn Rafmagnsveitna ríkisins mjög vel verðtryggður og þess vegna er enn gagnrýnisverðara þegar hækka á stofn slíks gjalds.

Við sjáum hér í dag og höfum rætt um tilhneigingu stjórnvalda sem vilja vera með afskiptasemi af öllum mögulegum athöfnum einstaklinga og félagssamtaka þeirra. Við sjáum hugvitssemi sem slík stjórnvöld hafa til þess að bera niður á sem flestum sviðum. Við höfum rætt hér um frv. til l. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og ræðum nú um nýbyggingagjald. Hvort tveggja sýnir að hér er farið inn á nýja braut. Menn spyrja sjálfa sig: Hvaða ástæða er til að leggja sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði? Er ekki þörf á því, að atvinnurekstur almennt sé vel skipulagður, að stjórn hans sé í lagi. Til þess að svo megi verða þarf stjórn hans að hafa skrifstofur. Erum við ekki sammála um það, að verslunin sé jafnmikilvægur atvinnurekstur og hver önnur atvinnugrein í landinu? Er það ekki svo, að aukin hagkvæm innkaup eða lægra verð til neytenda er okkur jafnmikils virði og aukinn afli úr sjó eða hærra verð á afurðum okkar á erlendum markaði? Ég held að þarna sé um mismunun að ræða á milli atvinnugreina sem þegar til lengdar lætur verði til þess fallin að draga úr hagvexti og aukinni hagkvæmni í rekstri þjóðarbúsins.

Við tölum um nýbyggingagjald. Ég er sammála hv. þm. Friðrik Sophussyni þar sem hann gagnrýndi þetta gjald og taldi almennar ráðstafanir, eins og t.d. breytta vaxtastefnu, líklegri til þess að ná árangri á þessum sviðum, ef menn telja fjárfestingu of mikla eða hana ekki falla í hagkvæmasta farvegi.

Við höfum talað um tekjuskattsfrv. fyrr í dag. Ég vil að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh. gera mikinn mun á skyldusparnaði annars vegar og beinni skattheimtu hins vegar. Skyldusparnað fá menn endurgreiddan eftir tiltölulega stutt tímabil og þá með fullri verðtryggingu. Við höfum gripið til skyldusparnaðar þegar mikið hefur þótt við liggja, og sem betur fer hefur reynslan sýnt að skyldusparnaður er ekki fastur í sessi þótt til hans sé gripið þegar þjóðarbúið verður fyrir áföllum. Þess vegna var ekki ástæða til að ætla að slíkur skyldusparnaður yrði til frambúðar. En nú er búið að kveða svo á að hann verði til frambúðar í formi skatts, þannig að skattheimtan er komin milli 60 og 70% af jaðartekjum. Þessi nýi skattur, sem nú á að lögleiða, snertir langtum fleiri en hæstv. fjmrh. vill vera láta, þegar af þeirri ástæðu að tekjur heimilanna hafa hækkað við það að bæði hjóna vinna úti. Þar sem svo stendur á mun þessi skattur verða sérstaklega þungbær og enn fremur þar sem sjómenn eiga í hlut.

Ég skal ekki orðlengja um þessi mál, en vil þó leggja á það áherslu að lokum, að skattalöggjöf verður að vera þannig úr garði gerð, að hún sé sem almennust og sem einföldust. Á móti þessu er nú algerlega brotið. Hér er um margbrotna löggjöf að ræða þar sem reynt er að ná inn í hverja kytru og hvert horn til þess að afla aukinna tekna. Það er mikilsvirði að skattheimtan sé einnig á þann veg, að hún dragi ekki úr framtaki og vinnuvilja fólksins í landinu og þar með úr verðmætasköpuninni. Þegar beinir skattar, jaðarskattar, eru komnir upp í 60–70% verka þeir lamandi á framtak manna og vinnuvilja og vinnugleði. Það er einmitt vegna þess að við sjálfstæðismenn viljum efla og örva verðmætasköpunina í landinu, að við erum á móti beinum sköttum og viljum sjá fyrir tekjuþörf hins opinbera í formi óbeinna skatta, skatta á eyðslu. Við viljum ekki skattleggja verðmætasköpunina í svo ríkum mæli sem nú liggja fyrir till. um. Við viljum fremur skattleggja eyðsluna.

Meginatriðið er þó umfram allt að heildarskattheimta hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, verði takmörkuð og ekki gengið áfram á þeirri braut, sem núv. hæstv, ríkisstj. hefur markað, að auka skattheimtuna svo að bæði verði til þess að draga úr verðmætasköpun í þjóðfélaginu og vinnuvilja manna og auka alveg áreiðanlega á það neðanjarðarhagkerfi sem gagnrýnt hefur verið með réttu, auka á undanskot frá skattgreiðslum til hins opinbera og verða til þess að spilling vaxi í þjóðfélaginu. En það er víst og öruggt, að nái þessi frv. fram að ganga, þá munu þau einmitt hafa þau áhrif sem ég nú hef lýst og ég vil ekki trúa að t.d. hæstv. fjmrh. vilji vitandi vits stefna að.