18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

39. mál, kjaramál

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að mér þótti nokkurs misræmis gæta milli orða hæstv. forsrh. og þess skilnings sem ég hef lagt í þá afgreiðslu sem nú er orðin á fjárlagafrv. Eins og allir, sem hér eru inni staddir, muna las hv. þm. Sighvatur Björgvinsson upp fyrirvara okkar Alþfl.manna fyrir samþykkt okkar á frv. til 3. umr. Sá fyrirvari byggist á því, að nú fyrir eigi löngu fór fram í flokksstjórn Alþfl. umr. um þessi mál og svokallað frv. til jafnvægis í kjaramálum og efnahagsmálum, og þar var samþykkt till. sem tekur af allan vafa um það, hvað fyrir flokksstjórninni vakir. Í þessari till. og samþykkt er m.a. sagt svo:

„Flokksstjórnin leggur áherslu á að núverandi stjórnarflokkar afgreiði frv. þessa efnis áður en fjárlagafrv. verður afgreitt og að fjárlagafrv. verði síðan sniðið að þessu frv.“

Þessi samþykkt er alveg ótvíræð, eins og hv. þdm. heyra, að það er ósk flokksstjórnar Alþfl. að samstarfsflokkar Alþfl. í ríkisstj. og á Alþ. taki afstöðu til þessara mála og láti Alþfl. vita hver afstaða þeirra er, áður en fjárlagafrv. verði endanlega afgreitt. Við höfum ekki viljað tefja frv. til 2. umr., eins og allir vita og nú er komið á daginn, en afstaða okkar við 3. umr. hlýtur að markast af því sem var áðan lesið.

Persónulega finnst mér, en það geta verið deildar skoðanir um það, að ekki sé endilega nauðsynlegt að leggja kapp á það að afgreiða fjárlög fyrir jól. Fjárlög eru í raun og veru ekkert annað en fjárhagsáætlun ríkisins fyrir næsta ár á svipaðan hátt og fjárhagsáætlanir bæjarfélaga eru hjá þeim. Við þekkjum það, sem við bæjarstjórnarmál höfum fengist, að raunar er afar sjaldan að bæjarstjórnir afgreiði fjárhagsáætlun sína fyrr en í janúar. Þess vegna finnst mér persónulega, að það væri skynsamlegt fyrir ríkisstjórnarflokkana að láta nú við svo búið sitja í afgreiðslu fjárlagafrv., fresta henni fram í janúar, þessi mál verði athuguð fram eftir janúar og þá lægi fyrir hvort samkomulag væri um ákveðnari, röggsamari og nákvæmari meðferð á fjármálum ríkisins og fleiri slíkum efnahagsmálum. Þetta þarf ekki að boða, eins og sumir vilja telja, neinn sérstakan ágreining. Það er eðlilegt að þrír flokkar, sem vilja ná sem bestum árangri um samstarf, ræði þessi mál sín í milli og reyni eftir samkomulagsleiðum að ná sem bestum árangri. En allir þekkja það, að ef á að hespa slíkt af í annríki rétt fyrir jól, þá er það ekki auðvelt.

Hér var verið að tala um það áðan, að í till. Alþfl. væri ekki gert ráð — eða ég skildi orðin þannig — fyrir samstarfi við verkalýðshreyfinguna um þessi mál. Því vil ég leyfa mér að lesa upp hluta úr frv. því sem ég var áðan að vitna til. III. kafli frv., með leyfi hæstv. forseta, hljóðar svo: Fyrirsögnin er „Kjarasáttmáli.“ 12. gr. í frv. fjallar einmitt um það og segir svo:

Ríkisstj. skal þegar í stað hefja viðræður við samtök launafólks um kjarasáttmála. M.a. skal leitað eftir samningum um að samkomulag geti tekist um eftirfarandi aðgerðir í launa- og kjaramálum:

Að peningalaunahækkanir verði ekki meiri en 5% í lok fyrsta ársfjórðungs 1979 og 4% í lok hvers síðari ársfjórðunga það ár, þó þannig, að ef verðbótavísitala mælir meiri hækkun en sem nemur ofangreindum hundraðshlutum á lægstu laun skal þeim mismun mætt með sérstökum kaupauka á lægstu laun.“

Eins og hv. þd. heyrir, á að leita samkomulags við samtök launafólks um þessi atriði. Og í 13. gr. heldur svo áfram:

Ríkisstj. er skylt að leita eftir kerfisbundnu samstarfi ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins er tryggi að allar fáanlegar upplýsingar um hagþróun, afkomu þjóðarbús og fyrirtækja og kaupmátt launa liggi fyrir með rúmum fyrirvara við gerð kjarasamninga. Þar að auki skal innan þessarar samstarfsstofnunar fjalla um aðra þætti kjarasáttmála, svo sem aðgerðir í verðlags- og félagsmálum, skattamálum og öðrum réttindamálum. Þessi stofnun beitir sér fyrir samkomulagi um heildarendurskoðun á gerð kjarasamninga í því skyni að einfalda það kerfi og samræma.“

Hér er greinilega lagt til að hafa fullt samstarf við launþegasamtök og aðra aðila vinnumarkaðarins um ýmis þessi mál, svo að ekki er hægt að bera því við að hér sé ekki gengin eða ætlast til að hér sé gengin sú gata.

Ég vildi að þetta kæmi fram. Raunar fannst mér að fyrirvari okkar Alþfl.-manna fyrir því að greiða fyrir því, að fjárlagafrv. fengi þinglega meðferð fram til 3. umr., væri svo ótvíræður að ekki þyrfti eftir því að spyrja. En ég vil þó endurtaka þetta og árétta, að samkv. flokksstjórnarsamþykkt, sem ég var að lesa áðan, eru það eindregið tilmæli Alþfl. við samstarfsflokka sína í ríkisstj. að þeir taki sér tíma, áður en gengið er endanlega frá fjárl., til að athuga þessi mál. Það er skoðun okkar, að með því móti væri hægt að gera samstarfið á milli flokkanna traustara og betra.