18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

39. mál, kjaramál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vildi láta það koma hér fram, að mér finnast þessi mál alls ekki vera jafnflókin og hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildi Helgadóttur, virtist. Eins og kom fram í svari hæstv. forsrh., liggja þessi mál mjög ljóst og skýrt fyrir. Þess vegna er ekki nauðsynlegt að fara um þau mörgum orðum. En vegna þess að það er sjálfsagt að hjálpa til að skýra þessa stöðu, ef hún er óljós fyrir hv. þm., vil ég segja hér örfá orð.

Hvað það snertir, hvernig mál blasa við gagnvart Alþb., hefur komið fram í störfum okkar hér á Alþ. og sjálfsagt einnig í ríkisstj. og í þingflokknum, að full samstaða er í ríkisstj. um afgreiðslu þeirra mála sem ríkisstj. stendur að hér á Alþ., bæði afgreiðslu fjárl. og eins þeirra tekjuöflunarfrv. sem unnið hefur verið að. Mér er ekki kunnugt um að það hafi neins staðar komið fram á þeim vettvangi þar sem ákvarðanir eru teknar um aðgerðir ríkisstj., að neinir fyrirvarar hafi verið hafðir á um afgreiðslu þeirra mála. A.m.k. er okkur þm. Alþb. ekki kunnugt um það. Ég held að það hljóti að liggja alveg ljóst fyrir, að ríkisstj. stendur jafneinhuga og hæstv. forsrh. lýsti að þeim málatilbúnaði sem hún hefur lagt grundvöllinn að hér á þingi með flutningi þessara frv. Ég held að það sé einnig rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að aðildarflokkar þessarar ríkisstj., bæði hér á Alþ. og eins eftir þeirri vinnuaðferð sem þeir hafa tamið sér, þ.e.a.s. samráði við samtök launafólks, hafi gefið þessum samtökum fyrirheit um afgreiðslu ákveðinna mála, bæði í formi frv. og eins í formi breytinga á fjárlagafrv. sem við munum standa við. Ég hef ekki trú á því að nokkur aðildarflokkur þessarar ríkisstj. muni hlaupast undan merkjum þessa loforðs við samtök launafólks á grundvelli skilyrða sem alls ekki voru sett fram þegar þau loforð voru gefin. Í því samkomulagi, sem ríkisstjórnarflokkarnir gerðu á víðtækan hátt við samtök launafólks og samtök launafólks hafa síðan stutt með yfirlýsingum, eins og komið hafa fram frá Verkamannasambandi Íslands, þá er ljóst að ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþ. mun standa að samþykkt tekjuöflunarfrv. og mun standa að afgreiðslu fjárl. á þeim grundvelli sem lá fyrir þegar þetta samkomulag við samtök launafólks var gert. Ég sé ekki að í þeim efnum hafi neitt það gerst sem kunni að draga í efa að svo verði. Við þm. Alþb. höfum a.m.k. ekki haft neinar þær fréttir af vettvangi ríkisstj., og mér er ekki kunnugt um að þær hafi birst neins staðar, hvorki hér á Alþ. né neins staðar annars staðar, sem gefa tilefni til að draga það í efa. Síðast í dag voru að birtast í blöðum viðtöl við forráðamenn ríkisstjórnarflokkanna þar sem þessi skilningur minn er staðfestur, svo að af því tilefni held ég að það sé ástæðulaust að bera þennan ótta í brjósti.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að innan ríkisstj. er samstaða um öll þessi frv. Innan ríkisstj. er staðfest fyrirheit um að afgreiða þessi mál, og við, sem styðjum þessa ríkisstj., fögnum því, að svo sé, og því, að hún ætli sér að standa við þau fyrirheit sem hún gaf samtökum launafólks. Hitt er svo alveg rétt, sem komið hefur fram hér, að í fjölmiðlum hefur birst skjal frá Alþfl. sem ber heitið frv., en er á þessu stigi frekar hugverk heldur en formlegt frv. Þeir Alþfl.-menn hafa lýst því sjálfir með almennum orðum á þingi, að þeir hafi lagt mikla vinnu í þetta hugverk sitt og þetta sé harla gott. Hv. þm. Vilmundur Gylfason lýsti því yfir í Nd. í morgun að þetta væri eina heilsteypta tilraunin til þess að koma einhverju viti í efnahagsstefnu þjóðarinnar, og það ber ekki að lasta að aðildarflokkur ríkisstj. leggi slíka vinnu í hugverk af þessu tagi.

Hitt held ég að hljóti líka að liggja alveg ljóst fyrir, að ef þetta hugverk er svo mikið að vöxtum sem þeir hafa sagt sem að því standa, þá þurfa samstarfsflokkarnir í ríkisstj. eðlilega tíma til þess að skoða það. Ég sagði við einn af þm. Alþfl. á laugardag, nefndan Vilmund Gylfason, að mér hefði ekki borist þetta svokallaða frv. enn þá. Hann vísaði mér í Alþýðublaðið þar sem ég gæti kynnt mér það. Ég hef síðan orðið mér úti um Alþýðublaðið og mun kynna mér þetta vel. En það segir sig sjálft að flokkur eins og Alþb., sem hefur í þessari ríkisstj. grundvallað allt sitt starf á mjög ítarlegum umr. innan flokks um þá stefnumótun, sem er gerð á vettvangi ríkisstj., og með ítarlegu samstarfi við þá fulltrúa í hreyfingum launafólks, sem Alþb. styðja og fylgja að málum, — slíkur flokkur og slík hreyfing þarf mikinn tíma til þess að skoða jafnumfangsmikið hugverk og hér virðist vera um að ræða. Stofnanir flokksins, m.a. miðstjórn, sem er skipuð fulltrúum af öllu landinu, verkalýðsmálaráð og aðrar slíkar stofnanir þurfa eðlilega sinn tíma til þess að kynna sér þetta mál. Ef höfundar þessara hugmynda Alþfl. vilja að þær fái jafnvandaða flokkslega og málefnalega meðferð sem mér virðist full ástæða til að gefa þeim, þá er alveg ljóst að okkur tekur það verk a.m.k. nokkrar vikur. Ég held þess vegna að það sé alveg réttur skilningur hjá hæstv. forsrh., að þess er ekki að vænta fyrr en einhvern tíma í janúarmánuði að þetta mál hafi fengið eðlilega flokkslega meðferð og nægilega ítarlega málefnalega meðferð, a.m.k. hjá okkur.

Enn fremur held ég að það sé rétt sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að áður en ríkisstjórnarflokkarnir kæmust að þessari niðurstöðu þyrftu þeir, ef þeir ætluðu ekki að fara að brjóta þær vinnureglur sem þeir hafa sett sér, hvað svo sem hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur finnst um þær vinnureglur, — en ég vænti þess varla að Alþfl. né aðrir stuðningsflokkar þessarar ríkisstj. vilji eingöngu fylgja þeim vinnureglum sem Ragnhildur Helgadóttir var að lýsa hér áðan, en vilji halda áfram þeim vinnureglum sem við höfum haft í þessari ríkisstj., — að taka þessi mál einnig ítarlega til umræðu í samráðsnefndum ríkisstj. við samtök launafólks. Þær samráðsnefndir þurfa síðan að bera upp þessi málefni í samtökum sínum og ræða þau á félagslegum vettvangi. Það er alveg ljóst að á síðustu dögum nú fyrir jól eða milli jóla og nýárs verður, ef að líkum lætur, ekki tími eða aðstaða til þess að þær félagslegu hreyfingar, sem þessi ríkisstj. byggir tilvist sína á, hafi tíma eða aðstöðu til þess að fjalla ítarlega um þetta mál, þannig að ef á að taka þessa tillögugerð alvarlega, sem ég reikna með að höfundar þessa hugverks vilji láta gera, þá er alveg ljóst að sú félagslega og málefnalega meðferð, sem það þarf að fá, bæði í stuðningsflokkum ríkisstj. og eins í verkalýðshreyfingunni og öðrum samtökum launafólks, tekur a.m.k. nokkrar vikur.

Það er að vísu rétt, að í þessari prentun eða útgáfu á þessu hugverki, sem ég las í Alþýðublaðinu, var að sjá ýmsar hugmyndir sem eru sjálfsagðir hlutir og enginn getur út af fyrir sig gert aths. við og kannske ekki er mikil ástæða til þess að blása í lúðra út af. Ýmis atriði í efnahagsmálum, sem við erum allir sammála um, er út af fyrir sig ágætt að Alþfl. festi á blað. En hitt er svo annað mál, að í þessu frv., sem svo er kallað þó ekki hafi það fengið þann formlega stimpil, eru ýmis atriði sem mér er fyllilega kunnugt um að hreyfingar launafólks munu gera aths. við ef það ætti að verða stefna þessarar ríkisstj. Ég held að hreyfingar launafólks séu t.d. ekki í stakk búnar í dag að samþykkja bindingu á kaupi fyrir allt næsta ár, sem virðist þó vera nokkuð veigamikill þáttur í þessu frv., og þannig mætti fleira telja. En ég ber engan ótta í brjósti um þessi efni. Ég tel að þetta sé virðingarvert framtak, sem þarna hafi átt sér stað, og það muni koma að góðum notum. Þar eru, eins og ég segi, ýmsar sjálfsagðar hugmyndir, en aðrar sem þurfa nánari skoðunar við. Þetta þarf allt að taka til umr. hjá okkur hinum á jafnítarlegan hátt og Alþfl. hefur rætt það í sínum flokki, í þingflokki Alþb., framkvæmdastjórn þess, miðstjórn þess, verkalýðsmálaráði og svo í landstjórnum þeirra hreyfinga launafólks sem ríkisstj. vill hafa samstöðu með. Og ef við viljum taka þau orð gild, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason lét sér um munn fara í Nd. í morgun, að hér sé a.m.k. gerð tilraun til einhverrar ítarlegustu stefnumótunar í efnahagsmálum sem gerð hafi verið hér á síðari árum, þá finnst mér sjálfsagt að sýna þeirri tilraun a.m.k. þá virðingu að við tökum okkur góðan tíma til þess að skoða hana og gerum þá ítarlega grein fyrir afstöðu okkar.

Ég verð hins vegar að segja það, að ég hef upp á síðkastið gerst æ bjartsýnni um framtíð þessarar ríkisstj. Ég er alls ekki í hópi þeirra manna sem telja að atburðir síðustu daga, sem svo hafa verið kallaðir, séu tilefni til þess að varpa fram hugmyndum um að þetta ríkisstjórnarsamstarf sé að bresta. Þvert á móti held ég að atburðir síðustu vikna, bæði aðdragandinn að 1. des. og það sem hefur verið að gerast núna undanfarið, geri ríkisstjórnarflokkana að mörgu leyti miklu betur í stakk búna til þess að fylgja fram raunhæfri, skynsamlegri stefnu í efnahagsmálum á næsta ári. Sá öldugangur, sem hér hefur verið gerður af ýmsum og sjálfstæðismenn m.a. sérstaklega kynt undir, ef svo mætti orða um öldugang, a.m.k. blásið á hafið til þess að reyna að sjá hvort einhverjar öldur mynduðust, er ekki tilefni til þess að hafa af miklar áhyggjur.

Ég er sannfærður um að í kjölfar þeirrar umr., sem mun fara fram innan ríkisstjórnarflokkanna, mun okkur þoka áfram skref fyrir skref, mánuð eftir mánuð á næsta ári til þess að færa þjóðina niður úr þeirri miklu verðbólguhæð sem síðasta ríkisstj. skildi eftir sig. Við höfum unnið að þessum málum eftir tvenns konar brautum. Annars vegar höfum við gripið til aðgerða sem hafa miðað að því að ryðja verstu hindrununum úr vegi á allra fyrstu mánuðunum. Hins vegar hefur verið unnið eftir hernaðaráætlun, sem felur í sér ýmsar hugmyndir um varanlegri aðgerðir í efnahagsmálum. Ég kynnti ýmsar af þeim hugmyndum Alþb. í útvarpsumr. sem fram fóru í þessari d. fyrir nokkrum vikum. Í samþykkt flokksstjórnar Alþb., sem gerð var í lok síðasta mánaðar, voru þessar hugmyndir enn fremur reifaðar. Þó að við séum ekki með sérstaka nefnd eins og Framsfl. til þess að velta þessum málum fyrir sér, þá eru allar stofnanir Alþb. að fjalla um þessi mál. Ég held þess vegna að við, sem styðjum þessa ríkisstj. og viljum að tilvera hennar verði sem lengst, getum verið fullvissir um það, að á næstu vikum og mánuðum muni afburðarásin ganga þannig fyrir sig að við munum afgreiða þessi frv. hér á Alþ. fyrir jól, í síðasta lagi milli jóla og nýárs, og upp úr áramótum verði tekin afstaða til ýmissa þeirra hugmynda um stefnuna í efnahagsmálum á næsta ári sem allir ríkisstjórnarflokkarnir eru með uppi. Það verður gert í samráði við hreyfingar launafólks sem er hornsteinninn að þessu stjórnarsamstarfi. Það mun verða löng bið á því, að Sjálfstfl. þurfi að hafa nokkrar áhyggjur af því, að landið sé að verða stjórnlaust.

Hitt er kannske skiljanlegt, að ýmsir af þeim, sem hafa vanist þeim vinnuaðferðum sem Sjálfstfl. hefur tíðkað hér og barist fyrir um áratugaraðir, eigi erfitt með að átta sig á þeirri opnu umr. og þeim aðferðum sem ýmsir aðildarflokkar þessarar ríkisstj. og einstakir þm. beita í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. En það er alveg ljóst, að hæstv. forsrh. hefur áttað sig á þessum vinnuaðferðum og ber engan kvíðboga í brjósti frekar en við hinir.