18.12.1978
Efri deild: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég leggst gegn biðlaunum til alþm., er sú, að mér finnst óviðeigandi að á sama tíma og alþm. og ríkisstj. fara þess á leit við launþegasamtökin að samningar verði óbreyttir og horfið verði frá hugsanlegum grunnkaupshækkunum standi alþm. í kjarabaráttu og samþykki aukin fríðindi til handa sjálfum sér í formi endurhæfingarfjár.

Þá vil ég minna á að nú þegar rætt er um aukin fríðindi til manna, sem vissulega eru sæmilega vel haldnir í launum, þá er það staðreynd að verkafólk í landinu hefur aðeins eins mánaðar uppsagnarfrest eftir eins árs starf og kvenfólk, sem starfar í fiskiðnaði, jafnvel aðeins einnar viku uppsagnarfrest. Eru þess dæmi, að það fólk fái vikulega afhent uppsagnarbréf.

Það er skoðun mín, að stjórnmálamenn eigi að taka þá áhættu að verða ekki endurkjörnir. Þeir eru ráðnir tímabundinni ráðningu og því ekki óeðlilegt að halda sama hætti og verið hefur. Því legg ég til að þetta frv. verði fellt.