24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

2. mál, samningar við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þær þrjár till. nokkurra sjálfstæðismanna, sem eru fyrstu þrjú mál þingsins, eru allar skyldar, eins og 1. flm. greindi frá áðan. Þó tel ég að fyrsta till., um rannsóknir, hafi dálitla sérstöðu og mér finnst hún snerta öllu meira iðnrn. en sjútvrn. Ég ætla því að velja þann kost að segja nokkur orð um hinar tvær till. að sinni.

Ég þakka hv. 1. flm. fyrir þau vinsamlegu orð og þá ósk um samvinnu sem hann lét í ljós í málflutningi sínum, og tel ég það til fyrirmyndar um mál sem þetta. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að fara um þetta mál nokkrum almennum orðum, sem verða kannske meira efnisleg heldur en um það sem umdeilanlegt kynni að reynast.

Næsta skref Íslendinga í landhelgisbaráttunni verður að setja heildarlöggjöf um þau mál öll, eins og ég hef þegar skýrt frá. Með þeirri löggjöf er ætlunin að færa algera lögsögu úr 4 mílum í 12, lýsa yfir 200 mílna efnahagslögsögu, sem tekur einnig til mengunarlögsögu og rannsóknarlögsögu, halda því opnu að rannsóknarlögsaga t.d. geti náð út fyrir 200 mílur, svo og að festa það, sem þegar hefur náðst í þessu mikla máli.

Þær þrjár tillögur um landhelgismálið, sem nú hafa verið fluttar, fjalla um framkvæmdaatriði þeirrar landhelgisstefnu sem við höfum fylgt og fylgjum enn. Fyrsta tillagan snertir rannsóknirnar á landgrunninu, hinar fjalla um viðhorf okkar til smáeyjanna Rockall í suðri og Jan Mayen í norðri.

Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er enn ekki lokið og hafréttarsáttmáli hefur enn ekki verið gerður. Enda þótt ýmsu verði ekki haggað héðan af, svo sem 200 mílna reglunni, eru önnur atriði enn í deiglunni og verður að hafa fulla gát á við lokaafgreiðslu þeirra, að hún verði okkur hagstæð. Þar á meðal er t.d. 121. gr. hafréttarsamningsdraganna, þar sem fjallað er um landgrunn, landhelgi og fiskveiðilögsögu við eyjar og þá sérstaklega smáeyjar og kletta. Einnig má nefna ákvæði í drögunum um markalínur á milli landa þar sem fjarlægð er minni en 400 mílur.

Veigamikið er að við Íslendingar höldum órofa samstöðu á endaspretti landhelgismálsins, sem mun standa í nokkur ár enn, enda þótt vart komi til átaka til jafns við þau sem liðin eru. Þó getur orðið vandasamt að verja 200 mílurnar fyrir gagnárásum sem enn gerast á hafréttarráðstefnunni, og hafa verður fulla gát á frekari réttindum á hafsbotni utan við 200 mílur sem Ísland kann að öðlast við lokaafgreiðslu málsins.

Ég lít á tillögur sjálfstæðismanna sem hugmyndir um baráttuaðferðir og tel eðlilegt, eins og lagt hefur verið til, að þeim verði vísað til utanrmn. og hún taki þær til rækilegrar athugunar.

Ég vil þó nefna eitt efnisatriði nú þegar. Það er verulegur munur á hvernig fjallað er um Rockall í einni till. og Jan Mayen í annarri, hvort sem það er vísvitandi gert eða ekki. Til að forðast misskilning verð ég að taka fram, að ég tel ekki tímabært að viðurkenna flokkun eyja á þessu stigi. Fiskveiðilandhelgi Íslands er 200 mílur í áttina til beggja þessara eyja, það er yfirlýst stefna okkar.

Eyjan Jan Mayen er í 290 sjómílna fjarlægð frá Íslandi. Í landhelgisreglugerðinni frá 15. júlí 1975 segir svo:

„Þar sem skemmra er en 400 sjómílur milli grunnlína Færeyja og Grænlands annars vegar og Íslands hins vegar, skal fiskveiðilandhelgi Íslands afmarkast af miðlínu. Þá skal þessari reglugerð ekki framfylgt að svo stöddu eða þar til annað verður ákveðið, utan miðlínu milli grunnlína Jan Mayen annars vegar og Íslands hins vegar.“

Með þessum fyrirvara var skapað „grátt svæði“ milli 200 mílna okkar og miðlínu gagnvart Jan Mayen, enda var þá — og er enn — óvíst hvort Jan Mayen öðlast rétt til 200 mílna fiskveiðilandhelgi. Norðmenn héldu fram miðlínunni í orðsendingu 1975, og er það í samræmi við afstöðu þeirra í mjög erfiðu deilumáli við Sovétríkin um Barentshaf.

Í síðustu drögum að hafréttarsáttmála er 121. gr. um eyjar. Fyrsta mgr. skilgreinir, hvað eyjar séu. Önnur mgr. segir, að eyjar skuli fá landhelgi, landgrunn og efnahagslögsögu eins og önnur landssvæði samkv. sáttmálanum, þó með þeirri undantekningu samkv. þriðju mgr., að klettar, sem eru mönnum óbyggilegir og hafi ekki sjálfstætt efnahagslíf, skuli ekki fá efnahagslögsögu eðalandgrunn.

Á Jan Mayen er norsk verðurathugunar- og vísindastöð, en þar eru engir íbúar, sem lifa á gæðum landsins, og ekkert efnahagslíf. Hins vegar er Jan Mayen meira en klettur, hún er allstór eyja, og þótti því rétt 1975 að vera við öllu búinn hvað niðurstöðu þessa máls snertir.

En markalína fiskveiðilandhelgi milli landa ræðst af fleiri atriðum. Um skiptingu hafsvæða milli nágrannaríkja segir í 1. mgr. 74. gr. samningsdraganna, að þar skuli fara eftir sanngirnissjónarmiðum, nota miðlínu, sem við á, og taka tillit til allra aðstæðna. Samhljóða ákvæði gildir og um landgrunnið.

Ríki, sem áhuga hafa á þessu atriði á hafréttarráðstefnunni, skiptast í tvo meginhópa. Annar þeirra vill að aðalreglan verði miðlína, þar sem frávik verði aðeins heimiluð í sérstökum tilvikum, hinn að skipting fari fyrst og fremst eftir sanngjörnum grundvallaratriðum. Núverandi ákvæði samningsdraganna er af mörgum talið hagstæðara síðari hópnum, þeim sem vill sanngirnissjónarmiðið. Hvað sem verður ofan á í þessu efni mælir margt gegn miðlínu að því er snertir svæðið milli Jan Mayen og Íslands, ef svo fer að Jan Mayen telst eiga rétt á 200 mílum. Þar má nefna fjarlægð eyjarinnar frá meginlandi Noregs, efnahagsþarfir Íslendinga, samanburð á stærð Jan Mayen og Íslands, svo og að Jan Mayen er tæplega byggileg við venjulegar aðstæður.

Það er hverju mannsbarni ljóst á Íslandi, að hagsmunir okkar á Jan Mayen-svæðinu snerta síldar- og loðnustofna sem hafa veigamikil áhrif á afkomu þjóðar okkar. Af þeim sökum er eðlilegt að hafið verði náið samstarf milli Íslendinga og Norðmanna um rannsóknir á þessum stofnum, og eru horfur á að svo verði innan skamms, hvað sem líður hinum flóknu lagalegu hliðum málsins sem ég hef dregið fram. Svæðið milli Íslands og Jan Mayen er aðeins geiri af hafinu umhverfis eyna. Getur skipt okkur miklu máli í framtíðinni, hvort hafið umhverfis aðra hluta eyjarinnar verður innan norskrar fiskveiðilandhelgi eða opið hafsvæði þar sem allir mega veiða. Ef svo færi þyrftum við Íslendingar að kanna allar hugsanlegar leiðir til að gera kröfu til forréttinda um veiðar, þar sem við erum strandríki sem er háð fiskveiðum, en það kynni að reynast torsótt mál. Þarna gæti verið um að ræða, hvort þjóðir með stórvirkustu veiðitækni sem til er kæmust í síldar- og loðnustofnana á einhverju svæði ef þetta yrði opið hafsvæði.

Einnig eru í drögum hafréttarsáttmálans ákvæði um fiskveiðar á úthafinu utan 200 mílna allra strandríkja. Þar er öllum heimilt að veiða, en taka ber þó tillit til hagsmuna strandríkja og gert er ráð fyrir að ríki hafi samvinnu um að vernda fiskstofna í úthafinu. Um fiskstofna, er ganga milli fiskveiðilögsögu samliggjandi ríkja, eru ákvæði um samvinnu. Búast sérfróðir menn við, að víða geti komið til deilumála á þessu sviði og geti reynt á samningalipurð ríkja, ella verði slíkum málum vísað til sáttanefnda.

Ég hef nefnt nokkur atriði til þess að gera þingheimi ljóst hversu flókið mál réttindi og hagsmunir okkar Íslendinga á Jan Mayen-svæðinu eru. Jafnframt hafa loðnuveiðarnar minnt Norðmenn á hverjir hagsmunir þeirra eru, og sjómannasamtök í Noregi leggja nú hart að stjórnvöldum um útfærslu í 200 mílur við eyna sem allra fyrst. Að þessu máli hefur verið og er unnið óformlega á vettvangi utanríkisþjónustunnar og hafréttarráðstefnunnar. Það verður gert áfram af festu og gætni.

Ég mun nú — með leyfi hæstv. forseta — í sama dúr segja örfá orð, til að spara tíma, um klettinn Rockall.

Bretar tóku Rockall eignarnámi 1955, en þeim láðist að innlima klettinn formlega í stjórnkerfi sitt þar til 1972. Þeir hafa gert tilraunir til að reisa mannvirki á Rockall, en þær hafa að mestu leyti misheppnast. Bendir það til þess, að kletturinn sé óbyggilegur með öllu. Enda þótt Færeyingar og Írar hafi sýnt Rockall áhuga — vegna hafsins en ekki klettsins sjálfs — hafa mótmæli þessara þjóða ekki fyrst og fremst beinast að því að vefengja rétt Breta til eignarhalds á honum. Ef Íslendingar vilja taka upp mótmæli gegn eignarhaldi Breta á Rockall verður að gera það á einhverjum gildum forsendum. Þær forsendur koma ekki fram í till. Er það eitt þeirra atriða sem sjálfsagt er að ræða frekar.

Meginatriði þessa máls er samt sem áður ekki eignarréttur yfir Rockall, heldur hitt, að ekki kemur til mála að kletturinn fái fiskveiðilögsögu eða landgrunn. Með tilliti til þess ákvæðis í drögum að hafréttarsáttmála, sem ég nefndi í sambandi við Jan Mayen, virðist með öllu útilokað að Rockall fái slíkan rétt. Síðustu tilraunir Breta og Japana nú fyrir skömmu til þess að fá þessu ákvæði um eyjar breytt á hafréttarráðstefnunni mistókust og var íslenska sendinefndin meðal þeirra sem lögðu sig fram um að hrinda þeirri gagnaárás.

Heimilað er í breskum lögum um fiskveiðilögsögu frá 22. des. 1976 að nota Rockall sem grunnlínupunkt. Er þó í lögunum gert ráð fyrir undantekningum frá þessu ákvæði. Þess skal þó getið, að þegar Bretar afmörkuðu landgrunnið í grennd við Rockall árið 1974 var að því er virðist farið eftir miðlínu milli Bretlands, Íslands, Írlands og Færeyja og miðað við Skotland, en ekki Rockall.

Rockall er í 376 sjómílna fjarlægð frá Íslandi. Notist Rockall sem byrjunarpunktur miðlínu, munu skerast af 200 sjómílna lögsögu Íslands um 4000 ferkm. Sé lítið til möguleika á réttindum á landgrunni utan 200 mílnanna mundi þetta hafa enn alvarlegri áhrif. Í þessu sambandi skiptir miklu, að nú er rætt á hafréttarráðstefnunni um réttindi ríkja til landgrunnsins utan 200 mílnanna. Mun það vafalaust koma til frekari og ítarlegri umr. áður en langt líður.

Þegar fiskveiðilandhelgi Íslands var færð út í 200 mílur í júlí 1975 var ekkert tillit tekið til Rockall og dregin óskert 200 mílna lína. Það var og er stefna Íslands í þessu máli. Bretar mótmæltu þessu atriði, en þeim mótmælum var ekki sinnt.

Í þessu sambandi kemur til álita, hvernig túlka megi Oslóarsamninginn við Breta 1. júní 1976. Þar segir á tveim stöðum, að íslenska svæðið sé það sem greint er í íslensku reglugerðinni frá 1975. Þjóðréttarfræðingar telja að þessi viðurkenning gildi áfram þótt samningurinn sjálfur sé fallinn úr gildi. Þessi mál og ákvæði varðandi landgrunnið sjálft eru nú, eins og ég sagði, mjög í deiglunni á hafréttarráðstefnunni.

Íslendingar hafa fylgst og munu fylgjast vandlega með þróun mála varðandi Rockall-svæðið ekki síður en Jan Mayen, bæði vegna fiskveiða þar og þess, hvernig farið verður með svæði á landgrunni utan 200 mílna markanna. Þar komum við sannarlega við sögu, enda ekki hægt að útiloka að olía finnist á hafsbotni undir þessum suðlæga hluta af landgrunni Íslands, hvort sem hann fellur endanlega okkur í skaut eða ekki.