21.12.1978
Efri deild: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

158. mál, iðnaðarlög

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Ég vil taka fram, að eins og öllum er ljóst hefur verið mikill hraði á afgreiðslu mála nú fyrir jólaleyfið. Ég hygg að það sé hliðstætt því sem verið hefur.

Varðandi það mál, sem er nr. 3 á dagskránni, hef ég leyft mér að leita afbrigða um það af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi er það eina málið á dagskránni sem við getum tekið fyrir. Það verður ekki mælt fyrir málum sem eru nr. 1 og 2 á dagskrá. Ráðh. hafa ákveðið að mæla ekki fyrir þeim fyrir jól, þannig að ef við tækjum ekki þriðja málið á dagskrá yrðum við að fresta fundi.

Hin ástæðan fyrir því, að ég leyfi mér að leita afbrigða, er sú, að það hefur verið viðtekin venja, þegar varamenn sitja á þingi og hafa flutt mál, að gefa þeim tækifæri til þess að flytja framsögu fyrir málinu. Nú er svo ástatt, að 1. flm. að þessu máli er 2. þm. Reykn., Ólafur Björnsson, sem nú situr til bráðabirgða á þingi, og eina tækifærið til þess, að hann geti mælt fyrir málinu, er að hann geri það núna. Ég vænti þess, að hv. d. taki tillit til þessara aðstæðna samkv. venju, frv. hefur nú verið útbýtt, og ég leyfi mér að leita afbrigða fyrir því að taka málið á dagskrá.