21.12.1978
Efri deild: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

139. mál, nýbyggingagjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um nýbyggingagjald á þskj. 189. Frv. þetta fjallar um að leggja á sérstakt gjald, svokallað nýbyggingagjald, að upphæð 2% af áætluðum byggingarkostnaði mannvirkis, að undanteknu íbúðarhúsnæði. Lauslega er gjaldið áætlað um 350 milli. kr. í viðbótartekjur til ríkissjóðs á næsta ári og talið að innheimst gætu af því um 300 millj. kr.

Það var spurt um það við umr. málsins í Nd., hvernig hugsað væri að nota heimild, sem gert er ráð fyrir í 2. gr. laganna: „Heimilt er ráðh. að undanþiggja ákveðnar tegundir mannvirkja gjaldskyldu.“ Ég gaf ekki tæmandi yfirlýsingu í því sambandi, en gat þess, að hugmyndin væri að nota þessa heimild í anda þeirrar stefnu sem kemur fram í lögum nr. 8 frá 1972, um tekjustofna sveitarfélaga, 1. mgr. 5. gr. þeirra laga.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, en vil leggja til að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. fjh.- og viðskn.