21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

54. mál, fjárlög 1979

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna brtt. Alþfl. á þskj. 279 skal eftirfarandi tekið fram:

Eins og fram hefur komið ákvað Alþfl. að fulltrúar flokksins í fjvn. legðu til við fulltrúa samstarfsflokkanna í n., að þeir féllust á þær aðgerðir sem till. á þskj. 279 gerir ráð fyrir. Þetta gerðu fulltrúar Alþfl. í fjvn. á fundi meiri hl. í gær. Á síðari fundi meiri hl. var Alþfl. tjáð að fulltrúar samstarfsflokkanna í n. væru ekki reiðubúnir til að taka afstöðu til málsins, m.a. vegna skamms tíma sem fengist hefði til umfjöllunar um till., þótt fulltrúar samstarfsflokkanna teldu ýmis atriði vera þess eðlis að í grundvallaratriðum ætti að geta náðst um þau samkomulag. Þeim var þá sagt að líklegt væri að einstakir þm. Alþfl. mundu flytja umræddar till. við 3. umr. og sýna þær á þskj., þannig að fram gæti komið hvort þingflokkar ríkisstj. treystu sér til að fallast á þær við afgreiðslu fjárl. Fram hefur komið, að þótt ýmis atriði till. gætu átt stuðningi að mæta meðal samstarfsflokkanna telja þeir sér ekki unnt að fallast á brtt. á þskj. 279. Hefur þess verið farið á leit við flm., að þeir létu till. á þskj. 279 ekki ganga til atkv. Á þessa ósk hafa allir þm. Alþfl. fallist og er till. hér með dregin til baka.