25.10.1978
Neðri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

38. mál, verðlag

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Vegna fsp. frá hv. þm. Halldóri Blöndal um smjörlíkis- og gosdrykkjaverksmiðjur vil ég segja þetta:

Ríkisstj. tók fyrir á fundi sínum á þriðjudaginn í síðustu viku samþykktir verðlagsnefndar um hækkanir á gosdrykkjum, smjörlíki og fargjöldum Flugfélags Íslands innanlands. Þessar hækkanir voru að því er Flugfélagið varðaði 15.2%, á smjörlíki 8.9% og öli og gosdrykkjum að mig minnir um 15%. Ekki vannst tími til að afgreiða þetta mál á fundi ríkisstj. þennan þriðjudag.

Daginn eftir var haldinn fundir í verðlagsnefnd og þá voru teknar fyrir nýjar beiðnir frá þeim umræddu framleiðslu- og þjónustuaðilum sem hér eru á dagskrá. Þær beiðnir voru samþykktar. Þær höfðu það í för með sér, að smjörlíki átti að hækka um 25%, gosdrykkir um 25% og flugfargjöld innanlands um 20.8%.

Á fimmtudagsfundi sínum fjallaði ríkisstj. enn um samþykktir sem fyrr höfðu verið gerðar í verðlagsnefnd og teknar höfðu verið fyrir á þriðjudaginn, en frestað. Á fimmtudagsfundinum afgreiddi ríkisstj. þessar hækkanir þannig að þeim aðilum, sem hér um ræðir, er heimilt að hækka vöru sína og þjónustu samkv. þeirri ákvörðun sem þá var tekin. Það er því á ábyrgð þeirra aðila, sem hér um ræðir, hvort þeir loka verksmiðjum sínum eða ekki. Það er ekki á ábyrgð ríkisstj., því vísa ég alfarið á bug.

Hins vegar vil ég láta þess getið, að á fundi ríkisstj. s.l. þriðjudag var tekið fyrir bréf frá Félagi ísl. iðnrekenda vegna þessara mála. Á fundi ríkisstj. á morgun eða n.k. þriðjudag mun verða fjallað um þau mál frekar.

Það er ekki verkefni ríkisstj. eða viðskrh. að hafa afskipti af því, hvaða verð verður tekið upp í sambandi við vísitölu framfærslukostnaðar núna um mánaðamótin. Það er kauplagsnefndar að meta það, hvaða verð er skylt að taka upp við útreikning á vísitölu framfærslukostnaðar.