29.01.1979
Neðri deild: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

141. mál, fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Áður en þingstörfum lauk fyrir jólin afgreiddi hv. Alþ. þáltill. sem heimilaði ríkisstj. að staðfesta samning um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi. Var fullgildingunni hraðað til þess að samningur þessi gæti tekið gildi um síðustu áramót, eins og margir óskuðu eftir og mun það hafa tekist. Þessi samningur kemur í stað samnings frá 1949 um fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi, sem fullgiltur var fyrir Íslands hönd í febr. 1950 og gekk í gildi í júlí 1950, sbr. einnig lög nr. 56 12. maí 1970.

Við útfærslu fiskveiðilögsögu strandríkja við Norðvestur-Atlantshaf gjörbreyttist skipan fiskveiðimála á þessu svæði eins og öðrum. Var þá hafist handa um gerð nýs samnings sem tæki mið af hinu breytta ástandi. Var gengið frá samningnum á ráðstefnum í Ottawa í okt. 1977 og maí 1978, en samningurinn var undirritaður í Ottawa 24. okt. 1978. Undirrituðu hann fulltrúar Danmerkur vegna Færeyja, Íslands, Kanada, Noregs, Portúgals, Rúmeníu, Sovétríkjanna, Þýska alþýðulýðveldisins og EBE.

Samningurinn gerir ráð fyrir að komið verði á fót nýrri stofnun, Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnuninni, er taki við af þeirri fiskveiðinefnd sem starfandi hefur verið um langt skeið eða skv. samningnum frá 1949. Í tengslum við þessa stofnun munu starfa vísindaráð og fiskveiðinefnd. Vísindaráðinu er ætlað það hlutverk m.a. að vera vettvangur samvinnu um rannsóknir varðandi fiskveiðar á samningssvæðinu og að safna tölfræðilegum upplýsingum um þær. Fiskveiðinefndin skal vera ábyrg fyrir stjórnun og verndun fiskveiðistofna sem liggja utan fiskveiðilögsögu strandríkja á samningssvæðinu, eins og nánar er tiltekið í samningnum. Er hlutverk og valdsvið n. í fullu samræmi við löggjöf strandríkja við Norðvestur-Atlantshaf. Kostnaður af Íslands hálfu við þátttöku í þessari nýju stofnun er áættaður liðlega 12000 dollarar á ári.

Þörf var á því að setja lög sem þessi til viðbótar heimildinni til þess að staðfesta samninginn, vegna þess að lagaheimild þarf til þess að sjútvrh. geti sett reglur um framkvæmd þessa samnings svo og til þess að í lögum væru refsiákvæði ef um brot væri að ræða. Þarf raunar ekki að skýra þrjár greinar samningsins öllu frekar, en þó verð ég að geta þess, að sjútvrn., sem að sjálfsögðu bar mikinn hluta af störfum við undirbúning þessa máls ekki síður en utanrrn. og sagði í raun og veru efnislega síðasta orð um hvernig við þessu var snúist, hefur skrifað bréf þar sem það leggur til að breytt verði einu atriði. Í 2. gr. segir í 2. mgr.: „Brot skulu einnig varða upptöku á veiðarfærum, þar með töldum dragstrengjum, og öllum afla innanborðs.“ Sjútvrn. telur að athuguðu máli, að réttara sé að hafa þetta mildara og segja: „Enn fremur er heimilt að gera afla og veiðarfæri upptæk.“

Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því, að hinn fyrri samningur um fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi, sem við höfum verið aðilar að, gangi úr gildi og einnig þau lög sem á sínum tíma voru sett varðandi framkvæmd hans. Er gert ráð fyrir að þessi samningur og lög falli úr gildi 1. jan. 1980.

Herra forseti. Það mun vera venja að frv. um staðfestingu alþjóðasamninga gangi til allshn. Ég hygg þó að eðli þessa máls sé slíkt, að réttara sé að það gangi til hv. sjútvn. Er það því till. mín, um leið og ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr.