30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa furðu minni á þessum umr. Ég hef fengið hér tekjur sjálfur, afrit af þeim kvittunum, sem ég hef þurft að gefa skrifstofu Alþingis fyrir þeim bifreiðastyrk sem ég sem þm. Reykv. á rétt á, og hef látið það ganga beint inn í mitt bókhald. Við fáum afrit af launakvittunum, þegar við sækjum laun okkar til ríkisféhirðis. Að sjálfsögðu gengur það sem fskj. inn í bókhald þeirra sem eru með bókhald sem fskj. við uppgjör til skatts hjá hverjum og einum. Ég verð að segja alveg eins og er, að það hefur aldrei hvarflað að mér, að við sætum hér saman hópur skattsvikara eins og gefið er í skyn af þeim sem hér hafa talað fyrir hönd hreinsunardeildar Alþfl. Og ég verð að segja, að mér líður illa að sitja undir slíkum ádeilum, sem hér hafa komið fram, og harma að nafni Alþingis og Alþingi Íslendinga sjálfu skuli blandað inn í umr. á svo lágu plani sem hér hafa átt sér stað og einnig hafa átt sér stað í þeim blaðakosti sem hreinsunardeildin hefur yfir að ráða. (Gripið fram í.) Ég ræð ekki yfir Dagblaðinu. Ef ég gerði það þá efast ég um að sumar af þeim greinum, sem þar hafa birst, hefðu fengið þar inni. Það má kallast ritskoðun eða hreinsun út af fyrir sig á skrifuðu íslensku máli.

Ég tel að þær umr., sem hér hafa átt sér stað, séu það alvarlegar að ekki megi slíta þessum fundi án þess að þetta mál sé rætt til hlítar. Það má alls ekki ske, að sá málflutningur, sem hér hefur farið fram, verði það eina sem þeir blaðamenn, fjölmiðlar, sem hér eru staddir, hafi til að skrifa um.

Þm. Alþfl. hafa sagt, ég skrifaði orðrétt eftir hv. þm. Vilmundi Gylfasyni eftirfarandi: „Undanfarin ár hefur Alþ. leyft sér að virða skattalögin í landinu að vettugi.“ Þetta eru stór orð. Hann sagði líka: „Undanfarin ár hefur Alþ. ekki verið hafið yfir grun“ — þá reikna ég með grun um svik á skattalögunum eða vanvirðingu við skattalögum. Hann sagði líka: „Alþ. ber að hlýða skattalögum“ — til þess að það haldi virðingu sinni.

Þetta eru alvarlegar fullyrðingar og ég óska eftir að þeir, sem leyfa sér að taka þannig til orða á hv. Alþingi Íslendinga, verði beðnir um að nefna dæmi sem verða ekki hrakin. Að öðrum kosti eru þessi ummæli þeirra ómerk dæmd. Og ég vil ekki að þessum fundi verði slitið án þess að andrúmsloftið verði hreinsað, þannig að þjóðin verði ekki látin gera upp hug sinn um það, hvort við sitjum hér hópur skattsvikara eða ekki. Ég óska eftir dæmum, ég óska eftir frekari rökstuðningi fyrir þessum fullyrðingum en fram hafa komið hingað til í málflutningi hv. þm. Og ég verð að segja: Ég trúi ekki að nokkur af þeim fullyrðingum, sem komið hafa fram í þá átt sem hér hefur gerst, eigi nokkurn rétt á sér.

Fleira hef ég ekki um þetta mál að segja, því að ég bíð eftir svari frá þeim hv. þm. Alþfl. sem ganga undir nafninu hreinsunardeild þess flokks, að þeir svari með dæmum, en ekki með órökstuddum fullyrðingum.