30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal hafa þetta stutt, enda óþarfi að margir flytji langt mál um það sama og í sama tilgangi, þ.e.a.s. í þeim tilgangi að reyna að koma þessum hv. þm. Alþfl. í skilning um hvað eru lög og hvað eru reglur og hvað er rétt og hvað er rangt í þessum efnum. Samt ætla ég að segja hér nokkur orð, sem eru kannske að hluta til svipuð því sem sagt hefur verið á undan í umr. vegna þess að sífelld endurtekning er kannske eina vonin til þess að þetta fólk geti lært hið rétta í málinu.

Það hefur talsvert mikið verið talað um það, að virðing Alþingis fari hrakandi, og þá sérstaklega vísað til þessara mála. Það má vel vera, að virðing Alþingis fari dvínandi hjá almenningi í landinu. Þó er ég ekkert viss um að það sé rétt, þótt þessir hv. þm. Alþfl. séu sífellt að tönnlast á því. En það er ekki fyrst og fremst vegna þessa máls. Það væri þá miklu fremur vegna þess, að almenningi finnst málflutningur hér oft heldur óvandaður, að hér komi menn upp með vafasamar fullyrðingar, segi hálfan sannleikann og málflutningur þeirra sé að svo og svo miklu leyti í áróðursskyni og kannske fyrst og fremst í auglýsingaskyni fyrir viðkomandi þm. sjálfa. Ég held að virðingu Alþingis hafi helst farið hrakandi af þeim orsökum, og þá kannske ekki síður vegna þess, að í þessum málflutningi hafa verið fólgnar dylgjur um Alþingi sem stofnun og alþm., að þeir hafi farið leynt með launagreiðslur sínar og aðrar greiðslur sem þeir hafa fengið. Slík fullyrðing er auðvitað röng og einnig dylgjur um það, að hér sitji yfirleitt skattsvikarar, án þess að það sé stutt rökum sem halda.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði það vera ljóst af orðum hæstv. fjmrh., að Alþ. hafi virt skattalögin að vettugi undanfarin ár. Þetta er hans fullyrðing og hún er röng. Þetta er rangtúlkun hv. þm. á orðum hæstv. fjmrh. Það er vísað til 7. gr. skattalaganna. Þessir hv. þm. hafa vissulega leitað í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem ég hef hér sérprentuð milli handanna, en kannske ekki nennt að lesa lengra en aftur í 7. gr., því að strax er þessum málflutningi þeirra hrundið þó ekki sé lesið lengra en aftur í 10. gr. Til þeirrar greinar hefur verið vitnað næstum orðrétt hér og orðrétt raunar líka í umr. áður, og þarf ég ekki að lesa hana upp. En af henni má það vera ljóst, að þarna er alls ekki um brot á skattalögum að ræða — alls ekki.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason segir einnig að það sé skatturinn sem eigi að dæma. Skatturinn á að dæma, en ekki Sverrir Hermannsson eða einhverjir aðrir þm. sem eru honum ekki sammála. En skatturinn hefur dæmt. Það er alveg ljóst, að ríkisskattanefnd hefur kveðið upp úrskurð og það hefur verið sagt áður í umr. á Alþ., núna á þessu þingi. Það er búið að segja þessu fólki þetta mörgum sinnum, að úrskurðurinn liggi fyrir og hvernig hann hljóðar. En samt sem áður koma þessar fullyrðingar aftur og aftur, að þarna sé eitthvað óhreint í pokanum, þarna sé enn verið að ganga á snið við skattalögin. Það er auðvitað rangt, því að skatturinn hefur þegar kveðið upp sinn úrskurð og hefur þar af leiðandi gert það sem Vilmundur Gylfason segir að hann eigi að gera. Hann hefur dæmt í þessu máli og dómurinn liggur fyrir. Skilur þessi hv. þm. eða þingmenn Alþfl. ekki skattalögin þegar þeir lesa þau? Eða skilja þessir hv. þm. ekki úrskurð ríkisskattanefndar, eins augljós og hann er og greinilegur? En þrátt fyrir það að margir hv. þm. hafi margsinnis greint frá þessum augljósu staðreyndum, þá koma þessar sömu fullyrðingar fram aftur og aftur. En hvað varðar þessa hv. þm. kratanna um staðreyndir þegar auglýsingin er annars vegar? Þá eru þessir hv. þm. ekki að hugsa um virðingu Alþingis.