30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Framtal hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur virðist hafa komið henni í nokkra geðshræringu þannig að hún verður að kveðja sér hljóðs utan dagskrár til þess að vita nú sitt rjúkandi ráð.

Það voru 9 mál óafgreidd á síðasta fundi, það eru enn eftir 33 mál óafgreidd á þessum fundi, og þess vegna er þetta sjálfsagt brýnt mál, úr því að forseti veitir henni orðið til þess að hefja máls um framtal sitt.

En hv. þm. Vilmundur Gylfason ber náttúrlega sök á þessari geðshræringu, því að hann hefur á undanförnum árum með ímyndunarveiki sinni, taugastrekkingi og óyfirveguðum fullyrðingum komið róti á hug hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur svo að hún verður að kveðja sér hljóðs. Lögvitringar í hennar eigin flokki hefðu getað sparað henni þetta ómak og bent á 10. gr. í skattalögunum og enn fremur á úrskurð ríkisskattanefndar sem liggur fyrir. Það er að vísu nokkuð flókið að lesa þessi skattalög, og það er erfitt að deila um skattalög í alvöru við fólk sem les bara 7. gr., en neitar svo að lesa 10. gr. Það er þá eins gott að deila bara um litlu gulu hænuna eða einhverjar aðrar léttari bókmenntir. En ég sé ekki eftir þeim seinni parti sem hefur farið í að ræða þetta mál og þetta framtal, því að ég hygg að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Vilmundur Gylfason hafi bæði vakið athygli á næmri réttlætiskennd sinni og ótvíræðum heiðarleika og aukið þar með virðingu sína og hróður Alþingis, því að héðan af veit þó þjóðin vonandi að hér sitja a.m.k. tveir sannheilagir og réttlátir, en ekki bara tómir tollheimtumenn og syndarar.