30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

59. mál, þátttaka ungs fólks í atvinnulífinu

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem Egill Jónsson bóndi flutti á haustþinginu þegar hann starfaði hér sem varamaður minn, en till. er um þátttöku ungs fólks í atvinnulífinu og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. í samráði við stofnanir atvinnuveganna, þ. á m. stofnlánasjóði, að kanna með hvaða hætti unnt sé að örva þátttöku ungs fólks í atvinnulífinu.“

Ég vil aðeins taka það fram, sem óþarft ætti að vera, að menn rugli þessari till. ekki saman við nýsamþykkta till. hér í Alþ. um rannsókn á atvinnumöguleikum ungs fólks, sem er almennt um þá möguleika sem ungt fólk hefur til atvinnu. Hér er aftur á móti verið að ræða um þátttöku í atvinnulífinu til forustuhlutverka þar, svo sem eins og að stofna til búskapar eða hafa forgöngu um iðnað, rekstur sjávarútvegs o.s.frv.

Flm. segir í upphafi grg. sinnar, að menn hafi haft nokkrar áhyggjur vegna aukinnar hlutdeildar þjónustugreinanna í vinnuafli þjóðfélagsins, og kann það að sumu leyti að vera rétt. Þó að ég sé að mæla fyrir till. annars þm., þá kemst ég ekki hjá því að setja fram mín sjónarmið. Ég held að nokkuð sé ofætlað í þessu efni. Þessu er mjög misskipt í þjóðfélaginu, en ég held að segja megi, að utan Reykjavíkursvæðisins eða Stór-Reykjavíkursvæðisins sé þetta síst fjötur um fót þjónustugreinunum og víða sem þann þátt skorti fremur en hitt. Ég er ekki heldur dómbær um það, hvort þjónustugreinarnar hafi vaxið um of á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Við þekkjum það, að í nútímaþjóðfélagi gegna þær greinar æ mikilvægara hlutverki. Á hinn bóginn verður auðvitað ekki dregið úr mikilvægi framleiðslugreinanna, sem aukinn hagvöxtur, sem er nú höfuðkeppikefli, byggist auðvitað á. En það er eðlilegt að hugað sé alveg sérstaklega að þessum þætti, með hvaða hætti örva megi þátttöku ungs fólks í atvinnulífinu.

Satt best að segja hefur nú ekki árað þann veg á Íslandi, að það hafi verið mjög til þess að hvetja ungt fólk til að taka þátt í atvinnulífinu, því að það er með ódæmum það svartagallsraus sem uppi er haft um stöðu þessa þjóðfélags og þyrftu þm. að fara að breyta til í því efni. Sá steinn hefur verið lengi klappaður, að hér sé allt í kaldakoll og stefni allt í öngþveiti. Auðvitað lítur þetta ekki rétt vel út vegna aðgerða núv. hæstv. ríkisstj., það skal játað, sér í lagi það geðveikislega skattaherhlaup sem nú er uppi, sem menn eiga eftir að finna heldur betur fyrir og getur ekki stefnt að öðru en því að ræna einstaklingana fjárhagslegu sjálfstæði. Ég held að þeir, sem hafa stofnað til þess arna, hafi alls ekki áttað sig á hversu umfangsmikið og róttækt þetta er, og a.m.k. þeir stjórnmálaflokkar, sem boðað hafa skattalækkun, hefðu átt að átta sig á hvert stefndi. En allt að einu er þetta él eitt sem gengur yfir og upp mun stytta óðar en varir.

Auðvitað er stórhættulegt til lengdar að kyrkja þennan bölsýnissöng, hafa uppi þennan stanslausa bölmóð í þessu glæsilega þjóðfélagi okkar. Það eitt út af fyrir sig hlýtur að draga úr áhuga og þori ungs fólks til þess að takast á við verkefnin og taka þátt og hafa frumkvæði í atvinnulífinu, sem er auðvitað undirstaða þess að hér verði framfarir. Það er auðvitað ýmislegt, sem vekur mönnum áhyggjur, en þessi allsherjarbölmóðssöngur er að verða gersamlega óþolandi. Þannig líður okkur ekki í þessu landi, að ástæða sé til að berja þessa bumbu stanslaust.

Ég get auðvitað nefnt þessu máli til stuðnings ýmislegt sem athyglisvert er, t.a.m. það sem vekur alveg sérstaka athygli og hefur raunar komið fram í fréttum nú nýverið: brottflutningur frá landinu, frá þessu góða landi, sem er reyndar alveg með ólíkindum, að nokkur innfæddur og uppalinn Íslendingur skuli geta hugsað sér að búa í nokkru öðru landi, nema þá svona eins og þriggja vikna skeið í hæsta lagi. En það má sjá í skýrslum, að brottfluttir

umfram aðflutta frá útlöndum eru á árinu 1976 t.a.m. 1051, á annað þúsund manns. Það er einnig á annað þúsund manns árið 1977, eða 1009. Og það sem er enn átakanlegra við þessar upplýsingar er að 29 ára og yngri eru 85.2%, 30 ára og eldri eru aðeins 14.8% af öllum þessum fjölda. Það er unginn úr þjóðinni sem þarna er að flýja land. 1000 manns er mikil blóðtaka, og það má segja, að þá fyrst við það að hlýða á þessar upplýsingar hafi runnið upp fyrir mér nauðsyn þess að gefa gaum þessum tillöguflutningi Egils bónda Jónssonar.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa till. Hún mælir með sér sjálf og grg. hennar. En það er ýmislegt sem þarna þyrfti að rannsaka og þar á meðal þetta, hvernig atvinnuvegasjóðirnir gætu komið til skjalanna í þessu efni. Ég geri ráð fyrir því, að við samþykkt þessarar till. þyrfti að senda hana til sérstakrar athugunar og rannsóknar, og mér dettur í hug af kunnugleika mínum að það væri ekki úrskeiðis að ætla t.d. byggðadeild Framkvæmdastofnunarinnar eða áætlanadeildinni eða báðum til samans að athuga þennan þátt rækilega og einnig með hvaða hætti fjármunalega hægt væri að vekja áhuga fólks og styrkja fólk til áræðis og framtaks í atvinnulífinu. Ég held að það skipti mjög miklu máli hvernig þessi rannsókn færi úr hendi, og ég er í engum vafa um hina miklu þýðingu þess að komast að einhverjum niðurstöðum sem til rétts vegar horfðu.

Ég vil enda þessi fáu orð mín á því að leggja enn aukna áherslu á það, að fyrirsvarsmenn þjóðarinnar breyti til. Það er auðvitað rétt og skylt að benda á agnúana og alla vitleysuna í stjórnsýslunni sem viðgengst, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur nú algera forustu. En auðvitað breytist þetta óðar en líður, það vitum við. Svona lagað stenst ekki. Almenningur í landinu lætur ekki bjóða sér þetta og mun líka breyta til, og þess er ekki langt að bíða að leitað verði til hans á nýjan leik og hann kveði upp nýjan úrskurð. Þetta breytist skjótt. En til frambúðar þyrftu forustumenn þjóðfélagsins að hafa það í huga, að það er ekki þessari ört vaxandi þjóð hollt að þessi bölmóðssöngur sé kyrjaður svona stanslaust eins og raun ber vitni. Við höfum á rúmum þremur áratugum gjörbylt þessu þjóðfélagi frá því að vera fátækt þjóðfélag bænda og fiskimanna yfir í það að vera eitt mesta velferðarríki heims.