31.01.1979
Neðri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 1. þm. Reykv., þá var ekki og er ekki hugmyndin hjá mér að sýna vinnuveitendum neina fyrirlitningu. Hitt verð ég að segja eins og er, að á þessum fundi, sem ég átti með þeim um þessi mál, var ég afskaplega lítið hrifinn af þeim, því að þeir vildu ekkert gefa til baka — bókstaflega ekkert á móti þessum 3%, hvað þá hinum 5%, þannig að við teljum að við séum með þessu að létta á þeim frekar en þyngja. Það er því alls ekki um það að ræða, að vísvitandi sé verið að eyðileggja hinn frjálsa vinnumarkað, nema síður sé. Ég sagði áðan að ég væri tilbúinn að ræða við þá áfram um þessi mál öll, ef þeir eru sjálfir tilbúnir, ef þeir taka aftur úrsögn sína úr samráðsnefndinni. Ég vil taka það fram, að við tókum tillit til ýmissa sjónarmiða sem fram komu á þessum eina fundi.

Í upphaflegum drögum að frv. var staðgengisreglan útfærð að fullu. Það var dregið til baka þegar þeir bentu okkur á að þeir mundu ekki geta fengið tryggingu á móti þessari staðgengisreglu, sem er rétt, því að það veit enginn raunverulega hvað hún kostar, sérstaklega þegar hún er til svona langs tíma. Við fórum því, eftir því sem við töldum okkur fært, eftir þeirra eigin tillögum, tókum aths. þeirra til greina að fullu.

Ég endurtek það, að við erum auðvitað tilbúnir að ræða við þá, ef þeir eru tilbúnir að ræða við okkur.