01.02.1979
Sameinað þing: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég frétti af því í dag, um það leyti sem ég var að ganga hingað niður í Alþingi, að hv. 11. þm. Reykv. ætlaði að taka til máls utan dagskrár vegna athugana, sem fram hafa farið, og frétta, sem birst hafa varðandi áþreifingar iðnrn. fyrir hönd ríkisstj. til þess að fá breytt vissum þáttum í sambandi við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Ég tel vissulega heppilegt að hv. þm. skuli hafa séð ástæðu til að vekja sérstaka athygli á þessu máli hér á Alþ. og gefa þannig tækifæri til þess, að gerð sé grein fyrir því, hvernig staðið var að samningum á sínum tíma á hans ábyrgð varðandi járnblendiverksmiðjuna veturinn 1976–1977. Ég tel að það sé fyllsta ástæða til þess fyrir hv. alþm. að setja sig vel inn í það sem gerðist þennan vetur í sambandi við þetta mál, hvernig umfjöllun Alþingis var á því máli og hvernig málið var lagt fyrir af iðnrn. og iðnrh. á þeim tíma. Ég hef séð mig knúinn til þess að gera hér nokkra grein fyrir þessu máli af tilefni þessarar umr. og rekja nokkur atriði um gang málsins síðan ég fór til starfa í iðnrn., bæði að því er varðar það markmið að fá tilfærslur á fjármagni í sambandi við þessa verksmiðju og einnig að því er varðar atriði sem komu í ljós við þessa sérstöku athugun af hálfu rn.

Það var í ágústmánuði s.l. að stjórn Íslenska járnblendifélagsins staðfesti fyrir þess hönd síðasta kaupdag rafmagns vegna annars ofns verksmiðjunnar og hann skyldi vera 1. sept. 1980. Þetta var tilkynnt Landsvirkjun með bréfi, að mig minnir 10. ágúst s.l. Með þessari tilkynningu hafði stjórn verksmiðjunnar notfært sér heimild sem hún hafði samkv. rafmagnssamningnum, og málið var í þeirri stöðu þegar stjórnarskipti urðu.

Þegar í fyrri hluta septembermánaðar átti ég viðræður við framkvæmdastjóra járnblendiverksmiðjunnar, Jón Sigurðsson, og óskaði eftir grg. af hans hálfu um stöðu mála varðandi verksmiðjuna og þá samninga er þar að lutu. Hann varð góðfúslega við þeirri beiðni og skilaði við lok þess mánaðar bráðabirgðagreinargerð þar að lútandi. Í framhaldi af þessu áttu sér stað viðræður milli rn. og stjórnarmanna Íslenska járnblendifélagsins, og m.a. átti ég viðræður við stjórnina, sem kom til fundar hér í Reykjavík um miðjan nóvember, og gerði mönnum grein fyrir eðli þeirra athugana sem í gangi væru af hálfu iðnrn.

Hluti af þessum athugunum beindist að lögfræðilegri könnun á stöðu okkar samkv. fyrirliggjandi samningum, stöðu íslenska ríkisins sem meirihlutaaðila, og lögfræðingur, sem rn. fékk til að gera þessa athugun, Ingi R. Helgason, skilaði um þetta áliti í desembermánuði, ítarlegri grg. um lögfræðilega hlið málsins. Í framhaldi af því lagði iðnrn. fyrir ríkisstj. grg. sem tekin var fyrir á ríkisstjórnarfundi 19. des., og í framhaldi af samþykkt ríkisstj. skrifaði rn. bréf til stjórnar Íslenska járnblendifélagsins. Ég tel rétt að lesa það bréf hér eins og það liggur fyrir, með leyfi hæstv. forseta. Það er dags. 20. des. 1978: „Varðandi breytingu á framkvæmdaáætlun við annan áfanga járnblendiverksmiðjunnar að Grundartanga.“

„Á fundi ríkisstj. 19. des. s.l. var iðnrh. heimilað að leggja fyrir stjórn Íslenska járnblendifélagsins hf. að athuga, að byggingarhraða og gangsetningu annars áfanga verksmiðjunnar verði breytt á þann veg, að sá áfangi komi í gagnið 6–9 mánuðum síðar en áður var áformað. Sérstök áhersla verði lögð á að draga úr framkvæmdum við byggingu annars áfanga á árinu 1979 miðað við þessar breyttu forsendur. Af hálfu stjórnar félagsins verði látið reyna á samninga, eftir því sem við á, um þessi atriði þannig að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst og ekki síðar en 20. jan. n.k. svo og endurskoðuð framkvæmdaáætlun.

Málaleitan þessi byggist m.a. á þeirri afstöðu rn., að með tilliti til þess samdráttar, sem almennt er gert ráð fyrir í framkvæmdum í landinu á næsta ári, sé nauðsynlegt að hnikað verði til framkvæmdaáformum við verksmiðjuna frá því sem ráðgert hefur verið.

Rn. væntir góðrar samvinnu við stjórn félagsins um framgang þessa máls.“

Í framhaldi af þessu erindi rn. til stjórnar Íslenska járnblendifélagsins áttu sér stað viðræður við stjórnarformann þess og framkvæmdastjóra og þeir fóru síðan til funda í Osló við Elkem-Spigerverket og samstjórnarmenn norska um málið kringum 10. jan. s.l. Í framhaldi af þessu kom svo stjórn Íslenska járnblendifélagsins saman til fundar hér í Reykjavík 18. jan. Ég kom inn á þann fund og gerði þar grein fyrir ástæðum ríkisstj. fyrir þessari málaleitun við félagið. Degi síðar, eða 19. jan., barst síðan svar stjórnar félagsins við umleitan ríkisstj. og rn., og ég tel rétt, að menn fái að heyra það svar, með leyfi hæstv. forseta. Það er svo hljóðandi:

„Stjórn Íslenska járnblendifélagsins hefur fjallað um erindi iðnrn. frá 20. f.m., þar sem óskað er athugunar á möguleikum félagsins til að fresta gangsetningu á öðrum bræðslunni járnblendiverksmiðjunnar að Grundartanga með það fyrir augum að hann komi í gagnið 6–9 mánuðum eftir 1. sept. 1980 og til að draga úr framkvæmdum við ofninn á árinu 1979. Með bréfi þessu fylgir skýrsla félagsins um þessa athugun sem fram hefur farið undanfarnar vikur og lokið hefur verið í framhaldi af umræðum á stjórnarfundi í félaginu hinn 18. þ. m. Helstu niðurstöður athugunarinnar eru þessar:

1. Til að stuðla að þeim markmiðum, sem sett eru fram í erindi rn., mundi félaginu væntanlega vera kleift að draga verulega úr fjárfestingu vegna annars bræðsluofns á árinu 1979. Telur stjórnin líklegt að unnt sé að takmarka hana við um 2.2 milljarða kr. (35 millj. kr. n. kr.), þannig að um 1575 milljarðar (25 millj. n. kr.) af fyrirhuguðum framkvæmdum frestist til ársins 1980. Jafnframt gerir stjórnin ráð fyrir að unnt verði að fresta áætluðu hlutafjárframlagi ríkissjóðs á árinu 1979 til ársins 1980 svo og greiðslu á hluthafaláni ríkissjóðs til félagsins á byggingartíma verksmiðjunnar, þ.e. að áskildu samþykki lánveitenda félagsins.

2. Hins vegar getur félagsstjórnin ekki mælt með því, að gangsetningu ofnsins verði frestað fram yfir 1. sept. 1980 þ.e. þann dag sem stjórnin ákvarðaði á s.l. sumri og tilkynnti Landsvirkjun sem annan afhendingardag rafmagns í samræmi við aðalsamning og rafmagnssamning um verksmiðjuna. Þessi frestur mundi hafa í för með sér verulega röskun á samningsskuldbindingum félagsins gagnvart Landsvirkjun, Elkem-Spigerverket A/s og mörgum öðrum aðilum, þ. á m. lánveitendum félagsins. Hún mundi einnig valda félaginu stórfelldu beinu tjóni vegna aukins framkvæmdakostnaðar og glataðs ávinnings í rekstri, jafnframt því að valda tjóni fyrir Landsvirkjun, Elkem-Spigerverket og aðra aðila sem hagsmuna eiga að gæta í sambandi við verksmiðjureksturinn. Að auki gæti komið til tjóns vegna hugsanlegra bótakrafna, fjármögnunarerfiðleika og annarra vandkvæða sem erfitt er að meta með vissu.

3. Nánar tiltekið má áætla að þessi síðarnefndi kostur mundi valda félaginu og umræddum aðilum beinu tjóni sem svarar 30.1-46.6 millj. n. kr. miðað við 9 mánaða frestun (það er á bilinu 1900–2900 millj. ísl. kr.). Svarar þetta til um 3.3–5.2 millj. n. kr. á hverjum mánuði frestunar. Af þessu er tjón félagsins sjálfs áætlað 21.4-37 millj. n. kr. (1350–2300 millj. ísl. kr.). Ávinningur af frestun með dreifingu fjárfestingar gæti ekki orðið verulegur og stenst engan veginn samanburð við ofangreindar afleiðingar.

4. Þess er og að gæta, að með 1. sept. 1980 hefur félagið þegar valið síðasta daginn er til álita kemur sem gangsetningardagur samkv. gerðum samningum um verksmiðjuna og er stjórnin ekki bær að breyta honum nema samþykki beggja hluthafa félagsins komi til. Telur ES ekki fært að veita slíkt samþykki fyrir sitt leyti með tilliti til þeirra aðstæðna sem að ofan greinir. Það er álit stjórnarinnar, að með fyrrnefnda kostinum sé komið mjög verulega til móts við óskir ríkisstj. um frestun fjárfestinga, og væntir hún þess, að rn. geti fallist á þá niðurstöðu.

Virðingarfyllst.“

undirskriftir.

Málið var eftir nánari athugun í iðnrn. lagt fyrir ríkisstj. með grg., og ríkisstj. féllst á till. rn. og röksemdir og í framhaldi af því skrifaði iðnrn. félaginu bréf 25. jan. 1979, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af bréfaskiptum og viðræðum iðnrn. við stjórn Íslenska járnblendifélagsins hf. varðandi málaleitan ríkisstj. frá 20. des. s.l. um að athugað yrði hvort unnt væri að fresta gangsetningu annars áfanga járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga um 6–9 mánuði með sérstakri áherslu á að draga úr framkvæmdum á árinu 1979, vill rn. hér með tilkynna stjórn Íslenska járnblendifélagsins hf., að ríkisstj. afgreiddi málið á fundi sínum í dag eftir athugun gagna og málsatvika á þann veg sem nú skal greina.

Þess er óskað, að frestun fjárfestinga vegna ofns 2 á árinu 1979 nemi sem svarar 1575 millj. kr. af fyrirhuguðum 3775 millj. kr. til framkvæmda á því ári. Þess er óskað, að hlutafjárframlagi ríkissjóðs, 150 millj. kr. (418 000 US$), sem greiða átti 1979, verði frestað til 1980. Þess er óskað, að þannig verði staðið að fjármögnun og framkvæmdum vegna ofns 2, að á byggingartíma verksmiðjunnar þurfi ekki að koma til greiðslu á hinum sérstöku hluthafalánum ríkissjóðs til Íslenska járnblendifélagsins hf. allt að 1500 millj. kr. (24 millj. n. kr.), sem gert var ráð fyrir að gætu komið til greiðslu á árunum 1979 og 1980. Að lokinni umbeðinni athugun málsins að undanförnu og umfjöllun gagna og yfirlýsinga stjórnar Íslenska járnblendifélagsins hf. og Elkem-Spigerverket A/S hefur ríkisstj. Íslands afgreitt málið með framangreindum hætti.

Þetta tilkynnist yður hér með.“

Iðnrn. sendi sama dag frá sér fréttatilkynningu til fjölmiðla þar sem greint var frá efnisatriðum málsins og gangi þessarar athugunar, og ég vil leyfa mér að vitna í stuttan kafla úr þessari fréttatilkynningu, þann sem lýtur sérstaklega að hinni lögfræðilegu hlið, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni ásamt fleiru, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Af þeim lögfræðilegu athugunum, sem fram hafa farið á samningsstöðu íslenska ríkisins sem meirihlutaaðila í Íslenska járnblendifélaginu til að fá ofni 2 frestað í 6–9 mánuði, er ljóst að bein samningsákvæði og forsendur ýmissa þýðingarmikilla samninga, sem Járnblendifélagið og hluthafarnir hafa þegar gert og eru bundnir af, eru því til hindrunar að ofni 2 verði frestað án samþykkis Elkem-Spigerverket. Þannig hefur komið skýrt fram að hálfu Elkem-Spigerverket, að það telur ekki á valdi stjórnar Járnblendifélagsins að breyta rafmagnssamningnum, sem m.a. kveður á um tímaákvörðun varðandi ofn nr. 2, nema samþykki beggja hluthafa félagsins komi til, og að Elkem-Spigerverket telji sér ekki fært að veita slíkt samþykki eins og málin standi. Fyrir liggur að í rafmagnssamningnum, sem undirritaður var fyrir 31, des. 1976, var breytt grundvallaratriði með sérstökum viðauka á þann hátt að meirihlutaaðstaða íslenska ríkisins innan Járnblendifélagsins í samningum þess við Landsvirkjun er að engu gerð og Elkem-Spigerverket fengið neitunarvald á öllum breytingum rafmagnssamningsins. Þannig liggur fyrir að lagalegri samningsstöðu íslenska ríkisins er mjög þröngur stakkur skorinn, og telur rn. að fram hjá þeirri staðreynd verði ekki gengið.“

Greining á þessu máli frá lögfræðilegri hlið lá fyrir í álitsgerð Inga R. Helgasonar lögmanns, en það atriði, sem átti að vera svo mjög áberandi að mati lögfræðings þess sem var ráðgjafi fyrrv. hæstv. iðnrh., var ekki greinilegra en svo, að við gaumgæfilega yfirferð Inga R. Helgasonar lögmanns á gögnum málsins sást honum við fyrstu yfirferð yfir þá breytingu sem gerð hafði verið í 23. gr. rafmagnssamningsins, en kom ábendingu þar að lútandi á framfæri við rn. í sérstöku bréfi, dags. 29. des. 1978, og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þessar viðbótaraths. sem svo mjög snerta þetta mál. Þær eru þannig:

„Viðbótarathugasemdir varðandi réttarstöðu ríkisins í sambandi við frestun á uppsetningu ofns nr. 2 í járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði.

A. Samningsstaðan gagnvart Elkem-Spigerverket A/S.

1. Ein af niðurstöðum mínum, dags. 11. des. 1978, var sú, að minnihlutaaðilinn í Járnblendifélaginu, Elkem-Spigerverket A/S yrði að sætta sig við ákvörðun um frestun á efni nr. 2 í tiltölulega stuttan tíma. Þessa niðurstöðu þarf að endurmeta í ljósi eftirfarandi aths.

2. Í aðalsamningnum, undirrituðum 8. des. 1976, er tímasetningu á ofni nr. 2 skotið til rafmagnssamningsins milli Járnblendifélagsins og Landsvirkjunar sem hafði verið gerður löngu áður, eða 28. maí 1975, á tímum Union Carbide. Í þeim samningi var dagsetningin á ofni 2 (1. júlí til 1. nóv. 1977) óraunhæf af augljósum ástæðum. En í rafmagnssamningnum var ákvæði í 5. gr. 1. mgr. sem heimilar aðilum að semja um aðra dagsetningu á seinni ofninum. Um slíkar breytingar á rafmagnssamningnum giltu eftirfarandi ákvæði hans í 23. gr.:

„Breytingar á samningi þessum skulu einungis gerðar með skriflegum og löglega undirrituðum viðbótarsamningi milli Landsvirkjunar og kaupenda og með skriflegri tilkynningu til ríkisstj. og Union Carbide.“

Samkv. þessu samningsákvæði var Járnb(endifélagið eitt bært að.semja við Landsvirkjun um breytingar á rafmagnssamningnum og tilkynna þær breytingar hluthöfum, m.ö.o. meirihlutaaðstaða íslenska ríkisins tryggð í þessu efni. Þegar Union Carbide fer út úr myndinni og Elkem-Spigerverket kemur í staðinn, eru gerðar breytingar á rafmagnssamningnum, m.a. ný dagsetning á afhendingu rafmagns fyrir ofn 2. Hinn nýi viðauki við. Rafmagnssamninginn var undirritaður 31. des. 1976, eftir að aðalsamningurinn var gerður (8. des. 1976), en áður en hann tók gildi, sem mun hafa verið 11. maí 1977. En til viðbótar þessari breytingu og öðrum nauðsynlegum breytingum er í fyrsta viðaukanum við rafmagnssamninginn grundvallaratriði breytt sem gerir að engu meirihlutaaðstöðu íslenska ríkisins innan Járnblendifélagsins í samningum félagsins við Landsvirkjun. Áðurgreindu ákvæði rafmagnssamningsins í 23. gr. er breytt í þessu veru, þ.e. 5. gr. 6. tl.:

„Breytingar á samningi þessum skulu einungis gerðar með skriflegum og löglega undirrituðum viðbótarsamningi milli Landsvirkjunar og kaupanda og með samþykki ríkisstj. og Elkem-Spigerverket sem hluthafa í félagi kaupenda.“ Með þessu ákvæði er tilkynningarskyldu Járnblendifélagsins í þessum efnum breytt í áskilnað um sérstakt samþykki Elkem-Spigerverket A/S á öllum breytingum sem gera þarf á rafmagnssamningnum við Landsvirkjun. Samkv. framansögðu er greinilegt að meirihlutaaðstaða íslenska ríkisins innan Járnbtendifélagsins er sýnu þýðingarminni en ég hafði ætlað og samningsstaðan gagnvart Elkem-Spigerverket varðandi frestun á ofni 2 miklu lakari en ég hafði látið uppi 11. des. 1978, þar sem Elkem-Spigerverket getur hreinlega neitað öllum breytingum á rafmagnssamningnum. Mér hafði skotist yfir þessa orðalagsbreytingu, en sakir þýðingar hennar þykir mér rétt að vekja athygli á henni með skriflegum hætti.

Virðingarfyllst,

Ingi R. Helgason.“

Í framhaldi af þessu þykir mér rétt að vekja á því athygli, að lögin um járnblendiverksmiðjuna sem kveða á um meiri hl. íslenska ríkisins í félaginu og hins vegar það stöðvunarvald, sem kemur fram í rafmagnssamningnum breyttum, þetta virðist mér ganga í gagnstæðar áttir. Lögin gera sem sagt ráð fyrir meirihlutavaldi íslenska ríkisins, en Járnblendifélagið með meiri hl. íslenska ríkisins notar þennan meiri hl. til að semja við hinn hluthafann um að þessu meirihlutavaldi skuli ekki beitt, minnihlutaaðilinn fái stöðvunarvald, m.a. um rafmagnsverð.

Það er rétt að menn rifji upp og hafi í huga samningana sem gerðir voru við Íslenska álfélagið, ÍSAL, á sínum tíma, þar sem rafmagnsverð var bundið til 25 ára. Þeir samningar þykja nú af flestum vera hin mesta óhæfa, og ég held að margir Íslendingar hafi hugsað svo, að við ætluðum ekki og ættum ekki að endurtaka slíkt. Samningarnir við Elkem-Spigerverket, sem minnihlutahluthafi hefur fengið neitunarvald gagnvart, gilda í 20 ár frá afhendingardegi rafmagns. Það er að vísu unnt að krefjast endurskoðunar auk samningsbundinna hækkana, en Elkem-Spigerverket hefur tryggt sér stöðvunarvald varðandi allar breytingar á samningnum við breytingum á 23. gr. rafmagnssamningsins í umræddum fyrsta viðauka. Þetta stendur skjalfest, þetta stendur undirritað í gögnum sem íslenska ríkisstj. hefur staðfest á sínum tíma. Þetta geta menn kynnt sér og lagt dóm á.

Þetta sást mönnum hins vegar yfir við meðferð málsins hér á Alþ. á sínum tíma. Ég hef ekki séð það, að vísu við lauslega yfirferð þinggagna frá fyrri hluta ársins 1977, að vakin hafi verið á þessu sérstök athygli. Meira áberandi var það ekki, þó að hv. 11. þm. Reykv. hafi í tilvitnun hér í lögfræðing og núv. stjórnarformann Íslenska járnblendifélagsins talið að þetta hafi verið með sérstaklega áberandi hætti. Hæstv. þáv. iðnrh. sá ekki ástæðu til að vekja sérstaka athygli Alþingis á svo afdrifaríku ákvæði við samningsgerðina. Ég hef a.m.k. ekki fundið það við yfirferð þinggagna frá þessum tíma, en kann að vera, að mér hafi sést yfir það við lauslega yfirferð. En í framsögu fyrir lagafrv., þegar það var til umr. 9. febr. 1977, er þess a.m.k. ekki getið, en þar segir hæstv. þáv. iðnrh. um rafmagnssamninginn á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Gildistími rafmagnssamnings verður 20 ár frá fyrsta afhendingardegi rafmagns, eins og áður var um samið. Í samningnum verða og sömu endurskoðunarákvæði og áður, ef til breytinga kemur á meiri háttar forsendum um orkuverð. Loks er gert ráð fyrir því, að aðilar taki upp viðræður um það, áður en 15 ár eru liðin af samningstímanum, hvort framlengja skuli samninginn og á hvaða grundvelli.“

Þetta er það sem ég hef séð í gögnum að hv. 11. þm. Reykv. hafi sagt um rafmagnssamninginn að þessu leyti í framsöguræðu sinni, en þar fjallar hann einnig um orkuverð og breytingar sem gerðar höfðu verið frá fyrri samningum þar að lútandi.

Ég tel rétt að minna á og rifja upp ummæli sem hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, viðhafði í langri og ítarlegri ræðu við umr. þennan sama dag í hv. þd., þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég álít því að við eigum að læra í þessum efnum af reynslunni. Við eigum að gæta vel að því, hvernig er staðið að samningum þó að menn geti sagt fyrir fram: Ja, þetta er nú sjálfur Union Carbide — eða: þetta er nú sjálfur Elkem, og þeir kunna nú aldeilis þessi mál. Hvað eru menn að efast um það, sem þeir segja? — Það er enginn vafi á því, að þessir aðilar, sem semja við okkur, eru harðsvíraðir viðskiptamenn. Þeir eru mjög harðsvíraðir í viðskiptum. Þeir fara eins langt og þeir geta. Þeir tryggja sig eins vel og mögulegt er, og það reynir vitanlega á það af okkar hálfu, að við grandskoðum um hvað við erum að semja, hvað kemur raunverulega út úr því.“

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja þetta miklu frekar. Ég tel að það, sem hér hefur gerst, sé sannarlega víti til varnaðar, enn eitt vítið vegna mistaka sem gerð hafa verið í samningum við útlendinga. Niðurstöðurnar af athugun iðnrn. hafa verið kynntar og þær liggja fyrir. Þar var samningsstaða þröng og það var staðfest og undirstrikað af Elkem-Spigerverket. Iðnrn. leitt einnig á kostnaðarhlið málsins og þar voru færðar fram ábendingar studdar tölum af stjórn Íslenska járnblendifélagsins um verulegan kostnaðarauka af viðkomandi frestun. Iðnrn. taldi það ekki á sínu færi að meta neitt endanlega um þær forsendur sem þar liggja að baki, enda mjög erfitt um vik þar sem þar er verið að spá fram í tímann um verðþróun á afurðinni kísiljárni sem þarna á að framleiða. En það þurfti í rauninni ekki að leggja á þetta sérstakt mat vegna ákvörðunar. Samningarnir bundu okkur. Elkem-Spigerverket hafði sagt sitt nei í sambandi við málið. Ákvæðin í viðaukanum við rafmagnssamninginn stöðvuðu athugun að öðru leyti, þó að menn hefðu viljað fara nánar út í þá sálma og taka á sig áhættu og einhver bakslög vegna frestunar. En ég vil vekja athygli á því, að umtalsverður árangur hefur náðst við þá athugun sem iðnrn. beitti sér fyrir og ríkisstj. samþykkti að gerð yrði með tilfærslu fjármuna vegna uppbyggingar þessa fyrirtækis frá árinu 1979 yfir á árið 1980. Það skiptir ekki litlu, eins og staðan er í okkar þjóðarbúskap, að geta fært til frá þessari stórframkvæmd eins og frá ýmsum öðrum framkvæmdum umtalsverðar fjárhæðir. Hér er um að ræða rösklega 1.5 milljarða kr. Ég hugsa að menn skilji það betur þegar kemur að því að lánsfjáráætlun verður kynnt hér á Alþ., að það munar um slíkan kepp.

En ég vil að endingu þakka hv. 11, þm. Reykv. fyrir það tækifæri sem hann hefur gefið hér til þess að rifja upp ýmis atriði varðandi þetta mál. Ég tel það athyglisvert, að hann skuli hafa kosið að fá þá upprifjun hér, en ég vænti þess, að það verði hv. þd. til glöggvunar og honum verði það að góðu.