01.02.1979
Sameinað þing: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Matthías Bjarnason [frh.]:

Herra forseti. Forseti Sþ. er umburðarlyndur maður og hógvær, eins og allir vita. Það hafa forsetar þingsins yfirleitt verið þann tíma sem ég hef setið á þingi. En ég verð að segja það eftir þá ræðu eða það svar sem hæstv. iðnrh. gaf í umr. utan dagskrár, að umburðarlyndi forseta var nú sennilega teflt á mjög tæpt vað og fyrir okkur almúgann hér í þinginu er það ekki til eftirbreytni að stytta mál okkar, sem ég ætlaði mér að gera sannarlega, eftir þá dómadags langloku sem hæstv. iðnrh. hélt uppi áðan, og skal nú horfið að því sem frá var horfið fyrr í dag.

Þriðji samningurinn, sem er í gildi við erlenda þjóð, er samningur við Norðmenn. Þessi samningur við Norðmenn er ekki um mikið veiðimagn og í reynd er framkvæmd hans í höndum sjútvrn. Sjútvrh. getur á hverjum tíma ákveðið að afturkalla veiðileyfi norskra báta sem hér stunda veiðar samkv. þessum samningi, þegar hann eða rn. telur að það sé orðin nægileg veiði fyrir Norðmenn. Áður en núv. ríkisstj. var mynduð hafði fyrrv. sjútvrh. afturkallað veiðileyfi allra norskra báta, þannig að norskir bátar hafa ekki verið að veiðum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu frá því að núv. ríkisstj. var mynduð. Það er í hendi sjútvrh. hvenær hann gefur út slík veiðileyfi handa norskum bátum. Veiðar Norðmanna hafa verið á undanförnum árum u.þ.b. 3000 tonn, lengst af frá 2200 og upp í 3000 tonn, en voru á árinu 1962 8200 tonn. Þorskafli Norðmanna var á s.l. ári aðeins innan við 200 tonn.

Ef við lítum nú á þessa þrjá samninga við erlendar þjóðir, samninginn við Færeyinga, samninginn við Belga og samninginn við Norðmenn, og lítum á þróun þessara mála, þá var lengst af afli okkar Íslendinga á botnlægum fiski um 50% eða liðlega það af heildaraflanum. Á árinu 1972, árinu sem fært er út í 50 mílur, er þorskafli Íslendinga 57%, en á s.l. tveimur árum, 1977 og 1978, er þorskafli Íslendinga rúmlega 97%. Þannig hefur árangur náðst á þessum skamma tíma, svona gífurlegur, og þegar Bretar eru farnir úr íslenskri fiskveiðilögsögu, þegar Þjóðverja hafa horfið þaðan, þessar þjóðir sem mest veiddu, og Íslendingar hafa tekið algerlega stjórnina í sínar hendur og aðeins fara tæp 3% þorskafla í hendur útlendinga, þá þarf auðvitað að gera margar ályktanir um að nú þurfi endilega að losna við þá, nú sé gæfa og gengi þjóðarinnar í veði. Nú kemur þessi boðskapur til með að minnka enn um 1000 tonn við Færeyinga, samkv. nýgerðu samkomulagi, hann kemur vafalaust til með að lækka hjá Belgum, þannig að afli þeirra verði kannske innan við 1000 tonn. Þetta er þorskaflinn. Svo er sagt: Við skulum segja upp öllum samningum. Við skulum láta þjóðirnar, sem hafa gefið grænt ljós að drögum að nýjum hafréttarsáttmála segja: Yfirgangur Íslendinga er með þeim hætti að þeir reka burt þjóðir sem veiða samtals um 6000 tonn og meginuppistaða í þeim afla er annað en þorskur, hjá annarri þjóðinni er megin uppistaðan karfi, fiskurinn sem er vannýttur. — Við stofnum í hættu þeim mikla árangri sem náðst hefur hjá fulltrúum okkar á Hafréttarráðstefnunni. Þetta magn skiptir engu máli fyrir okkur. Við nýtum ekki þennan fiskstofn — ekki enn þá. Það er ekkert sem bendir enn til að við nýtum hann á þessu ári. Til þess þarf að gera róttækar ráðstafanir til skattlagningar á veiðar á öðrum fisktegundum, sem hafa verið ofnýttar, og hreinlega ýta mönnum út í þessar veiðar hvort sem þeim er það ljúft eða leitt. Ég sé ekki enn þá uppi neina tilburði í þá átt.

Ég hef lítið á veiðar Færeyinga með allt öðrum hætti en veiðiheimildir til annarra þjóða. Ég hef sagt það áður og ég endurtek það, að ég lít ekki á Færeyinga sem útlendinga. Ég lít á þá sem vini og nágranna sem heyja sömu hörðu lífsbaráttuna og við. Þeir eiga allt sitt komið undir fiskveiðum. Við eigum að verulegu leyti allt komið undir fiskveiðum. Og það er ekki rétt, sem hv. 1. þm. Austurl. sagði og ég sagðist koma að síðar og kem nú að, að Færeyingar eingöngu semji og leyfi erlendum þjóðum að fara inn í sína fiskveiðilögsögu. Þeir fá einnig að fara inn í fiskveiðilögsögu þessara þjóða sem þeir eru að semja við. Þeir eru sem fámenn þjóð og lítils megnug að móta sjálfstæða fiskveiðistefnu, og við eigum ekki að ýta þeim í fang Efnahagsbandalagsins, eins og einn þm. hefur mjög oft haft á orði. Við eigum heldur að koma þeim til hjálpar og aðstoðar, svo að þeir þurfi ekki að falla í faðm Efnahagsbandalagsins og láta það ráða gerðum sínum og athöfnum í fiskveiðimálum.

Þessi sami þm. sem ég vitnaði í sagði að það, sem Færeyingar veiddu hér af þorski, væri eins og Vestmannaeyjatogarar veiða. Á landlitlum jörðum, þar sem beitarþol er nýtt til hins ítrasta, gætu þeir alveg eins sagt: Hvers vegna er grasið í hinum óbyggðu hreppum, eins og Sléttuhreppi og Grundavíkurhreppi, látið fara undir snjóinn þegar kýrnar okkar naga bithagana niður í rót? — Það væru álíka skynsamleg rök. En þeir, sem í orði telja sig andstæðinga Efnahagsbandalagsins og vilja það feigt, eru auðvitað ekki á Kínverjalínunni, heldur einhverri annarri línu. Það er bara rangt. Þeir vilja veldi Efnahagsbandalagsins sem mest þegar þeir á þennan hátt vilja útiloka Færeyinga frá öllum samskiptum við þá þjóð sem þeir helst vilja eiga samskipti og samstarf við.

Ég tel að það sé mikilvægt atriði að hæstv. utanrrh., og þá í samvinnu við sjútvrh., taki upp formlega samninga við Norðmenn um veiðar loðnu austur í hafi og hafi þar samvinnu auðvitað fyrst og fremst við flokka ríkisstj. Það er líka fullkomin ástæða til þess að hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna, við Sjálfstfl., því að fiskveiðilögsaga, nýting fiskstofnanna hefur verið sameiginlegt áhugamál allra stjórnmálaflokka og allra stjórnmálamanna, og þar höfum við allt frá því að barátta okkar hófst í þeim efnum reynt að halda samstöðu eins og frekast hefur verið hægt, þó að mjög hafi á því borið að menn hlypu alvarlega út undan sér á síðustu árum, því miður.

Ég get ekki stillt mig um að nefna það, þegar fyrrv. ríkisstj. var að vinna að lausn deilna við aðrar þjóðir, sérstaklega við Breta og Vestur-Þjóðverja, hve margir það voru sem reyndu alltaf að koma landráðastimpli á þá menn sem voru að reyna að ná samningum um að losna við þá úr íslenskri fiskveiðilögsögu. Við fórum til Noregs, þáv. utanrrh., hv. þm. Einar Ágústsson, og ég sem sjútvrh. ásamt embættismönnum og öðrum sendinefndarmönnum, til þess að ná samningum við Breta eða þáv. utanrrh. Breta, Anthony Crossland heitinn, um brotthvarf breskra togara af Íslandsmiðum. Við urðum ekki fyrir neinum óþægindum þegar við komum til Noregs, nema blaðamenn og ljósmyndarar gerðust nokkuð nærgöngulir, eins og gerist og gengur. En þegar við komum að því húsi sem ráðstefnan var haldin í, þá var hinum megin götunnar talkór sem hrópaði í sífellu: Farðu heim, Einar. Farðu heim, Matthías. — Síðan komu tveir aðilar úr þessum kór og afhentu okkur sitt hvort bréfið, sem var stílað til okkar beggja, og það hefst á þessum orðum:

„Þótt vandi okkar sé að óska velkomna landa okkar sem til Noregs koma, verðum við þó að lýsa yfir hryggð okkar vegna komu ykkar hingað í þeim erindagerðum að semja við erkióvini íslensku þjóðarinnar, bresku sjóræningjana. Við lýsum megnri andúð okkar á því, að íslenskir ráðamenn skuli lúta svo lágt að setjast að samningaborði með þeim öflum er ráðist hafa með herafli á afkomugrundvöll íslensku þjóðarinnar og sem stefnt hafa íslenskum mannslífum í hættu með framferði sínu.“

Síðar segir í bréfinu: „Það væri Íslandi verðugra að halda áfram baráttunni gegn þeim, t.d. með því að gefa varðskipunum leyfi til að framfylgja íslenskum lögum og beita sér gegn breskum landhelgisbrjótum, með því að reka bandaríska herinn burt, með því að ganga úr NATO.“

Þetta var ástarbréfið frá blessuðum námsmönnunum okkar. Og síðan segja þeir að lokum:

Okkur þykir leitt að geta ekki boðið ykkur velkomna í þetta sinn. Það munum við gera ef þið eigið eftir að rekast hingað í öðrum erindagerðum en að selja hagsmuni Íslands í hendur erlendra auðjöfra. En við þetta tækifæri höfum við aðeins eina ósk fram að færa, að þið farið heim án þess að takast á við ógæfuverk er þið hafið ætlað ykkur.“

Og við unnum ógæfuverkið. Og ógæfuverkið var það að losna við breska togara úr 200 mílna fiskveiðilögsögu eftir 6 mánuði fyrir fullt og allt eftir 6 alda fiskveiðar þeirra hér við Ísland.

En það voru fleiri en þessir blessaðir unglingar sem höfðu hátt. Það var boðið til fundar fyrir utan Útvegsbankann til þess að mótmæla landráðasamningunum. Krafist var þess, að Alþ. yrði kallað saman. Hvað varð svo úr öllu þessu gaspri og öllum þessum stóryrðum? Bresku togararnir fóru út úr íslenskri landhelgi á tilskildum tíma. Og það sem vannst og var líka mikils virði, þó að það væri ekki eins mikils virði og að losna við Bretana, var að það fékkst viðurkenning á tollasamningunum við Efnahagsbandalagið. Það fólst sú viðurkenning Breta í þessu, að tollasamningurinn tók gildi. Það var stór sigur fyrir Íslendinga. Sá sigur er með þeim hætti, að við höfum milljarða í tekjur af því að þessi samningur tók gildi. Mega nú ekki margir skammast sín sem þá höfðu hátt, ef þeir kunna það? (Gripið fram í: Þú gerðir það þá.) Já, það er nú illt að kenna gömlum hundum að sitja, sumum hverjum. Þó má það takast með mikilli þolinmæði.

Varðandi það sem ég hef sagt um samninga við aðrar þjóðir, þá vil ég taka skýrt fram, að ég var andvígur áframhaldandi samningum við Breta og við Vestur-Þjóðverja. Einnig tók ég það fram í viðræðum við Efnahagsbandalagið, og við báðir ráðh. sem tókum þátt í þeim, auk mín hæstv. fyrrv. utanrrh. Einar Ágústsson, að við værum ekki til viðræðna um fiskveiðisamninga við þjóðir Efnahagsbandalagsins, en við værum til viðræðna um fiskverndarsamninga.

Ég ætla að láta það koma fram sérstaklega, þegar heyrist hvernig samkomulag er á milli stjórnarflokkanna, að ólíkt var það í fyrri stjórn í þessum málum öllum. Aldrei féll nokkur skuggi á samstarf mitt við þáv. utanrrh. og aldrei bar á nokkrum metingi okkar í milli, við skiptumst á skoðunum um allt sem við bárum inn á alla þessa fundi. Allt var það gert með fyllsta samkomulagi og gagnkvæmu trausti. Þannig álít ég og vona að menn fari að hugsa og vinna í þessum málum sem öðrum.

Lítum nú á þessar þrjár fámennu þjóðir, sem búa við Norður-Atlantshaf, Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga. Nú hafa Grænlendingar samþykkt heimastjórn sem þeir fá innan tíðar: Við eigum sannarlega að auka samskipti okkar við þessar þjóðir. Ég er þakklátur hæstv. utanrrh. fyrir það, hve fljótt hann brást við og sendi jafnágætan mann og Pétur Thorsteinsson sendiherra til Grænlands til viðræðna. Í þeim anda eigum við að lifa og starfa, að auka samskipti við báðar þessar fámennu þjóðir og þá ekki síður við Grænlendinga. Við eigum og höfum vel ráð á því að rétta þeim á margvíslegan hátt hjálparhönd. Við eigum að gera það á mörgum sviðum. (Gripið fram í: Eigum við þá ekki að styðja aðild þeirra að Norðurlandaráði?) Eigum við að styðja aðild þeirra að Norðurlandaráði? Ég vil styðja allar Norðurlandaþjóðir til aðildar að Norðurlandaráði. (Gripið fram í: Sjálfstfl. hefur verið á móti því.) Sjálfstfl.? Ég er ekki allur Sjálfstfl. Ég er bara einn af mörgum í honum. Ef þú ert í flokki, getur ekki verið að þú ráðir þar öllu. En það er kannske þess vegna sem þú ert alltaf að hlaupa á milli. (Gripið fram í.) Það er þó gott að maður getur glatt þennan ágæta Seltirning með því. (Forseti: Ég vil benda hv. 3. landsk. þm. á það að kveðja sér hljóðs, en tala ekki úr sæti sínu þegar annar er í ræðustól.)

Ef við lítum á það gífurlega hafsvæði sem þessar fámennu þjóðir ráða yfir, þá vitum við að hafsvæðið, sem við Íslendingar ráðum yfir eftir útfærsluna í 200 mílur, er 758 þús. km2, en samkv. lauslegri áætlun er fiskveiðilögsaga Færeyinga um 270 þús. km2. Fiskveiðilögsaga Grænlands verður um 1.5 millj. km2, þar af eru um 700 þús. km2 við Vestur-Grænland og um 500 þús. km2 sunnan 67° norðlægrar breiddar við Austur-Grænland. 200 sjómílna lögsaga Austur-Grænlands nær aðeins að 67° enn sem komið er. Þetta gífurlega hafssvæði koma þessar þjóðir til með að nota, í fyrsta lagi hver fyrir sig, í öðru lagi sameiginlega. Fiskar halda sig ekki innan við ákveðnar girðingar eða innan ákveðinnar fiskveiðilögsögu. Þeir fara á milli. Þarna er fyrst og fremst ástæða til og áhugavert að ná samningum.

Það, sem við höfum gert á undanförnum árum í sambandi við að hefja veiðar, tilraunir með vinnslu og lítils háttar tilraunir með markað á kolmunna, verður stórfelld tekjuaukning fyrir íslensku þjóðina. Kolmunninn kemur fyrst inn í fiskveiðilögsögu Færeyja. Það er vaxandi veiði þar, en það er eins og fyrri daginn vantrú á meðan veiðin borgar sig ekki. Nú er komið að því, að þessi veiði kemur til með að margfaldast með hverju árinu sem líður, alveg eins og hún margfaldaðist á árinu 1978 frá þeirri litlu veiði sem var á árinu 1977. Eftir þetta heldur þessi veiði áfram út af Austfjörðum eða út af Vestfjörðum eða Dohrnbanka. Þar eigum við sameiginleg kolmunnamið. Við eigum einnig sameiginleg mið á úthafsrækju sem Íslendingar hafa loksins í einhverjum mæli veitt á s.l. ári.

Við eigum það sameiginlegt, að þorskurinn gengur á milli hafsvæða Íslands og Grænlands. Við höfum þurft að sækja mikinn þorsk á Grænlandsmið fyrr á árum. Það er ekkert öruggt í þeim efnum. Fiskur getur brugðist á miðum við Island eins og oft áður, og þá er gott og nauðsynlegt að geta leitað fanga annars staðar.

Við eigum mjög mikilsverð og viðkvæm karfamið, sem hafa verið ofnýtt á undanförnum árum, á milli Íslands og Grænlands. Við vitum ekkert um hvort loðnan heldur sig innan fiskveiðilögsögu Íslands eða Grænlands, þó að Lúðvík fullyrði að hún muni aldrei verða innan fiskveiðilögsögu Grænlands. Þó maður vilji taka mikið tillit til hans, þá held ég að það sé mjög hættulegt og varhugavert að trúa því, að það geti alls ekki komið fyrir. Hins vegar verðum við að vona að hún haldi sig okkar megin.

Það starf, sem hefur verið unnið á undanförnum árum í þessum efnum, verður að halda áfram og í auknum mæli. Við náum ekki árangri, hvorki í þessu né öðru, ef við lokum hurðum aftur og segjum: Við höfum ekkert við ykkur að tala, — eins og hæstv. utanrrh. sagði í framsöguræðu sinni í dag. Það þarf að gera nákvæmlega það sama og Einar Ágústsson og ég gerðum gagnvart Efnahagsbandalaginu. Við skelltum ekki hurðum á þá. Við sögðum við þá: Við viljum ræða við ykkur um fiskverndarsamning. — Og þeir fóru með drög að fiskverndarsamningi og eftir það höfðum við og ríkisstj. besta frið fyrir þeim, því að þeir létu ekki heyra í sér á eftir og hafa ekki enn þá komið með neinar brtt. um fiskverndarsamning.

Ég taldi ekki ástæðu til þess að hafna beiðni Sovétríkjanna eða Pólverja um samning um vísindalegar rannsóknir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Við í þáv. ríkisstj. töldum eðlilegt og sjálfsagt að auka þessa samvinnu og þetta samstarf. Hér er um stóra og mikla viðskiptaþjóð að ræða og það er rangt að hugsa þannig, að við eigum að vera einir í heiminum og segja alltaf: Við erum ekki aflögufærir. Við erum svo fátækir, að við getum ekkert lagt af mörkum.

Þegar eitthvað bjátar á og við ætlum eftir slíka synjun að leita til annarra, þá er ekkert óeðlilegt að aðrir loki hurðum á okkur. Þess vegna vil ég hvetja núv. hæstv. ríkisstj. til þess að auka og efla samvinnu og tengsl sérstaklega við Færeyjar og Grænland. Ég er ekki eins mikill áhugamaður um að gera mjög nána fiskveiðisamninga við Norðmenn og við hinar tvær þjóðirnar, vegna þess að ég hef orðið þar fyrir töluvert biturri reynslu. Sá samningur, sem er í gildi við Noreg, er lítilfjörlegur fyrir okkur, en hann er enn þá lítilfjörlegri fyrir þá. Það er nauðsynlegt, ef við ætlum að taka upp formlegar samningaumr. við Norðmenn um veiði á loðnu austur í hafinu, að byrja ekki á því að segja upp samningi við þá og segja: Nú ætlum við að ræða um nýtingu loðnunnar á eftir. — Það er ekki rétt háttalag í samningum á milli manna og þar af leiðandi ekki heldur á núlli þjóða.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég lýsi því yfir að ég mun greiða atkv. með þessum samningi sem ríkisstj. hefur gert við Færeyinga, hvað sem líður mótmælum einstakra manna í þeim efnum. Þó að ríkisstj. vanti jafnvel eitt atkv. til þess að samningurinn hljóti samþykki, þá ætla ég ekkert að hlaupa yfir til hinna bara til þess að reyna að gera ríkisstj. bölvun. Ég ætla ekki að gera fiskveiðimál eða samskipti við aðrar þjóðir að einhverjum pólitískum loddaraleik.