05.02.1979
Efri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég er nú í hópi þeirra þm. sem urðu sannast sagna furðu lostnir við þá frétt austan úr Noregi, að hæstv. utanrrh. Benedikt Gröndal hefði lýst yfir því, að hann teldi Norðmenn hafa rétt til þess að færa út efnahagslögsögu við Jan Mayen í 200 sjómílur. Nú hefur hæstv. utanrrh. sagt okkur það skýlausum orðum, að hvorki hann né nokkur embættismaður ríkisins, sem um þau mál fjallar, hafi gefið Norðmönnum í skyn neina slíka skoðun af sinni hálfu.

Það þekkjum við, a.m.k. þau okkar sem starfað höfum langan tíma við fjölmiðla, að það er gjarnan úr alllöngu viðtali, ekki síst um málefni eins og það sem hér var um fjallað, hægt með lagni — það er misjafnlega auðvelt — að draga saman úr tali stjórnmálamanna merkingu, ef laglega er að unnið, og setja hana síðan fram í lok viðtals eða eftir viðtal sem skýlausa skoðun þess sem við var rætt. Við þekkjum mörg dæmi þess arna og ég vil alls ekki bera brigður á lýsingu hæstv. utanrrh. á því, með hvaða hætti þetta bar að í sjónvarpsviðtalinu við hann. Af þessum sökum var það sem ég innti eftir því úr sæti mínu, hvort unnt mundi vera að fá þessi ummæli hans skrifleg, og átti þá við miklu ítarlegra og lengra mál en það sem fram kemur í Morgunblaðinu, því að það verður að liggja ljóst fyrir okkur, einmitt þetta atriði, með hvaða hætti frændur okkar Norðmenn og þeir, sem þannig vilja leggja út, komast að þessari niðurstöðu. Þennan texta þyrftum við því að geta haft fyrir okkur skriflega í heild til þess að geta athugað þetta mál.

Nú segir hæstv. utanrrh. okkur í þessari hv. d., sem ég trúi, að hann hafi alls ekki lýst yfir þeirri skoðun sinni að Norðmenn hefðu rétt til slíkrar útfærslu við Jan Mayen. Ég tek undir það, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði og einnig hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, að hin gagnstæðu sjónarmið hæstv. utanrrh. þurfa að verða ljós þannig að ekki verði um deilt. Hvað okkur alþm. varðar, þá mundi að mínum dómi nægja að hæstv. utanrrh. lýsti yfir því ljósum orðum, enn þá ljósari orðum en hann áðan gerði, að hann sé þeirrar skoðunar að Norðmenn hafi ekki rétt til þess að færa út einhliða við Jan Mayen á þennan hátt. Með þeim hætti væri hann búinn að leiðrétta þennan misskilning gagnvart okkur, og þeirri leiðréttingu yrði síðan komið á fullnægjandi hátt til skila við Norðmenn. Þetta mundi nægja okkur. Þar með teldi ég að við værum komin á þennan stað, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, og raunar hv. þm. Eyjólfur Konráð líka, taldi að við ættum að vera á í sátt okkar og samlyndi um þessi mál. Ég tek undir það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði. Ég hygg að allir þm., sem fjölluðu um fyrrnefnda þáltill. í jólaösinni, hafi verið einmitt þeirrar skoðunar að þann veg skyldi með þetta mál farið.

Ég vil ekki að þessu sinni fara að tæpa á þeim atriðum, sem ég vil vænta að séu óskhyggja eða afbrigðileg málsmeðferð af hálfu sumra aðila í Noregi, að hin hernaðarlega staða á Norðaustur-Atlantshafi ráði því, að Norðmenn hafi hikað við að færa út einhliða lögsögu sína, sem þeir telji sér við Jan Mayen. A.m.k. er það ábyggilega ekki vegna hernaðarstöðunnar á Jan Mayen. Ef um er að ræða að hernaðarstaða valdi einhverju þar um, þá hygg ég að Norðmenn séu að gefa í skyn að það sé af sérstakri tillitssemi við Íslendinga, sem Norðmenn þurfi enn sem fyrr að hafa alveg framúrskarandi góða, til þess að þeir hætti ekki að hafa herstöð fyrir Norðmenn á Keflavíkurflugvelli. Það er fremur sú ástæða en það sem lýtur að hernaðarstöðu í næsta nágrenni við Jan Mayen eða á Jan Mayen.

Ég vil minna á það í því sambandi sem lýtur að ágætri stuttri málsgrein í ræðu hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar, sem laut að samstarfi Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga um tilhögun fiskveiðimála og um fiskveiðar og annað það sem lýtur að þessum þýðingarmikla þætti í efnahagsgrundvelli þjóðanna við Norður-Atlantshaf, að á þingi 1971 var samþykkt þáltill. þar sem því var beint til ríkisstj., að hún ætti frumkvæði að viðræðum um raunverulegt samstarf að fiskveiðum þeirra þjóða, sem lifa á fiskveiðum við Norður-Atlantshafið, og þá að því vikið, að það samstarf ætti ekki aðeins að ná til vísindalegra rannsókna og nýtingar fiskstofna sem flakka á milli lögsaga þessara þjóða, heldur einnig beinast að markaðsmálunum og öðru því sem lýtur að því að þessar þjóðir tryggi sem besta afkomu sína af fiskveiðunum til frambúðar.

Sjálfur næri ég ekki í brjósti mér glæstar vonir í sambandi við nýtingu okkar á auðæfum á hafsbotni, þótt á eða í framhaldi af landgrunni okkar séu. Aftur á móti er ég því sammála, að við verðum að taka tillit til þess möguleika, að ef við forsómum að gera kröfu til einkaréttar á slíkri vinnslu, ef við forsómum að helga okkur slíkan rétt, eigum við á hættu að aðrir kynnu að gera það sem mundu þá kannske minna skeyta um þau lífrænu verðmæti á þessum svæðum sem eru okkur mjög þýðingarmikil. Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson minntist á olíu- og gasvinnslu á miklu dýpi. I.jóst mál er að við tilraunir til slíkrar vinnslu kynni ýmislegt að geta skeð sem spilla mundi þeim verðmætum sem nú eru okkur efst í huga og við sjáum fram á að hljóta að verða undirstaða afkomu okkar um ófyrirsjáanlega framtíð.

Margar hugmyndir hafa komið fram. Sjálfur hef ég ekki átt þess kost að sitja ráðstefnur um hafréttarmál sem háðar hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna, en allmikið lesið af þeim plöggum sem þar hafa komið fram. Hugmyndirnar hafa verið ótalmargar, sem þar hafa komið fram í mynd ýmiss konar skjala, og þ. á m. þær hugmyndir að hugsanlegt væri að ein þjóð, og á sú hugsun sér býsna langan aðdraganda í sambandi við meðferð þessara mála, eigi rétt til vinnslu verðmæta úr hafsbotni, en önnur þjóð rétt, þótt á landgrunni sé, til að nýta þar fisk eða helga sér þau verðmæti sem synda þar yfir. Þar er náttúrlega skemmst af að segja, að um tíma lögðum við í landhelgisátökum okkar megináhersluna á þetta atriði, sem laut að eignarhaldi á fiskinum yfir sjávarbotni, sem við gerðum ekki tilkall til eignarréttar á.

Ég skal ekki segja að hve miklu leyti við getum farið að líkja saman stöðunni á Eyjahafi, þar sem nú koma fram Grikkir og Tyrkir vegna hugsanlegra verðmæta á hafsbotni, borið það dæmi saman við það sem er umhverfis Jan Mayen. En hvað sem því liður hefur búseta verið ólíkt meiri og lengur á Tyrklandi, ef við skyldum setja okkur í spor Grikkja, en búseta Norðmanna á Jan Mayen. Hitt er ég alveg sammála um, að um þessi mál hljótum við að ræða nánar. Ef mig minnir rétt, gáfum við engin fyrirheit um það þegar við drógum miðlínu okkar á milli Íslands og Jan Mayen á sínum tíma, að í slíku fælist einhvers konar viðurkenning á sérstökum rétti Norðmanna til efnahagslögsögunnar við Jan Mayen. Þetta var látið liggja á milli hluta. Það var lýðum ljóst og einnig hitt, að það kom mjög til álita að þessu mundum við breyta.

En aðeins þetta í lokin, að ég tel að okkur ætti að nægja í þessari hv. þd. og á Alþ. ef hæstv. utanrrh. vildi nú með ljósum orðum, sem ég tel að honum hljóti að vera ljúft, lýsa yfir því, að hann sé þeirrar skoðunar að Norðmenn hafi ekki rétt til einhliða útfærslu við Jan Mayen — það ætti að nægja okkur alveg fyllilega — og þar af leiðandi að orð hans hafi verið mistúlkuð í Noregi.

Svo í allra síðasta lagi þetta: Það hafa fleiri orðið fyrir því en hæstv. utanrrh. og gengið frá því alveg ógrátandi, að samantekt væri gerð úr alllöngu viðtali í útvarpi eða sjónvarpi, þar sem fjallað er um allflókin mál og maður er knúinn til að taka tillit til ýmissa sjónarmiða, að orð hans væru túlkuð á þá lund að hann væri ekki ánægður með það á eftir. En slíkt er auðvelt að leiðrétta með ljósum orðum. Það er aðeins þetta sem ég legg áherslu á.