05.02.1979
Neðri deild: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um breyt. á l. nr. 101 frá 1966, um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl. Um þetta mál er nú mikið rætt. Sjaldan eða aldrei á seinni árum hafa jafnmargir fundir bænda verið haldnir og jafnfjölmennir víðsvegar um land til þess að ræða þetta mál. Þetta frv. snertir aðeins einn þátt heildarvandans, þ.e. offramleiðsluvandamálið í íslenskum landbúnaði í dag. Það er ekki að furða þó að ræða þurfi þetta mál, bera saman bækur og leita ýmissa úrræða, þegar málið er virt fyrir sér í heild. Við Íslendingar erum óvanir að fást við vandamál af þessu tagi. Við höfum ekki þurft á því að halda á umliðnum árum og öldum að fást við offramleiðsluvandamál. Vandamál okkar, vandi þjóðarinnar fram á þennan dag hefur verið að framleiða nógu mikið til þess að hafa nóg að bíta og brenna — eða eins og einhver frægur maður hefur sagt: Þessi kynslóð, sem nú er komin til ára sinna á Íslandi, ef svo má segja, er fyrsta kynslóðin á Íslandi sem hefur haft nóg að borða.

Það er því síst af öllu að undra þó við þurfum að eyða nokkuð löngum tíma í að fjalla nm þetta mál, þegar það er enn fremur athugað, að þetta er fyrst og fremst eða a.m.k. ekki hvað síst verðbólguvandamál, og við vanda af því tagi höfum við verið að glíma margar stundir á undanförnum árum. Það má einnig geta þess, að aðrar þjóðir hafa eytt miklum tíma, fyrirhöfn og fjármunum í að berjast við mál af þessum toga og gengið mjög misjafnlega. Er óhætt að segja að þær hafa eytt til þess orku í mörgum myndum og margar þjóðir, þegar nánar er að gætt, verja gífurlegum fjármunum í fjölmörgum greinum til að styrkja og styðja atvinnuvegi sina á einn eða annan máta og væri það mikil súpa ef heimildir um það allt væru komnar hér á borðin til okkar.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. ræddi þetta mál í fáum orðum áðan. Hann benti m.a. á nýlega grein í Morgunblaðinu sem þar hefur birst, eftir Jóhannes á Torfalæk og ber fyrirsögnina „Gjaldið“. Um þetta mál hafa margar greinar í blöðum verið skrifaðar, en þessi grein er þó með því skilmerkilegasta og skýrasta sem ég hef séð um þetta efni skrifað í blöð nú um nokkurn tíma.

Ég sagði að þetta frv. snerti aðeins einn þátt þessa mikla vandamáls. Það er flutt af hv. 4. þm. Vestf., formanni þingflokks Alþfl., o.fl. Þetta er ekki nýtt mál, því að það var flutt á síðasta þingi, eða frumvarp efnislega samhljóða því, af hv. 4. þm. Vestf. og núv. utanrrh.

Frv. þessu fylgir alllöng grg. Ekki verður gerð tilraun í þessum fáu orðum til þess að rekja hana að neinu marki. Ég vil þó aðeins benda á að ein rökin fyrir flutningi þessa frv. er að finna í grg., á þá leið, eins og sagt er þar, að frv. þetta byggist á því meginviðhorfi að beygt verði út af hinni röngu braut og til réttrar áttar, en þó með aðgát og varfærni sem nauðsynleg er eins og málum er nú komið o.s.frv.

Það verður því miður að segjast um hv. þm. Alþfl., að þeim er stundum gjarnt að benda á leið eða hina réttu leið, án þess að fara hana sjálfir. Og því hefur stundum viljað við bregða í málflutningi þeirra í vetur, að ályktanir þeirra og niðurstöður eru með nokkuð öðrum hætti en aðdragandi og rökstuðningur, enda er það svo að einn af framámönnum þeirra, hv. 2. landsk. þm., stóð upp áðan út af þessu frv., taldi hér aðeins verið að lækna sjúkdómseinkennin eða hluta þeirra án þess að kryfja orsakir eða ráðast að rótum vandamálsins. Hann benti m.ö.o. á að frv. þetta fæli í sér í mesta lagi skottulækningar, en ekki raunverulega lausn eða lækningu málsins. Á undanförnum árum hefur verið litið svo á, a.m.k. mjög almennt til sveita, að varla væri um annað að ræða en í mesta lagi einhvers konar skottulækningar á vandamálum landbúnaðarins af hendi hv. Alþfl.-þm. En sannarlega er þó virðingarvert að þeir reyna að gera grein fyrir þessum málum og hugsa þau á sína vísu.

Ég held að þetta frv., ef samþ. yrði, mundi ekki koma að miklu haldi og málið verði að skoðast í víðara sjónmáli.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. flutti fróðlega ræðu, benti m.a. á það, sem margir samþykkja og flestir vonandi, að bændum beri að tryggja sambærileg kjör við aðrar stéttir og að umr. þessi snerti allt þjóðfélagið og í raun og veru allar stéttir þess og atvinnuvegi. Þó horfið yrði að því að draga mikið úr framleiðslu landbúnaðarins og fækka bændum stórlega, þá þykir mörgum óréttlátt að slíkar byrðar verði látnar bitna á bændum einum.

Margir njóta góðs af framleiðslu landbúnaðarins og hafa gert á undanförnum árum, og á þeirri framleiðslu byggjast nú orðið heilar atvinnugreinar, ekki léttvægar í íslenskum þjóðarbúskap.

Hæstv. landbrh. fór um þetta mál nokkrum orðum í upphafi fundar og benti á að mál þetta væri fjölþætt. Ég er á sama máli og hann um þetta, og margir fleiri hafa talað í sömu átt. Mál þetta er mjög fjölþætt og viðamikið. Þetta er hagsmunamál í hæsta máta og viðurhlutamikið hvernig til tekst um lausn þess. Verður að skoða það allt að mínum dómi á miklu breiðari grundvelli en frv. þetta gerir ráð fyrir og skoða það frá öðrum sjónarhóli en hér er eingöngu byggt á. Þess vegna ætla ég á þessu stigi ekki að hafa orð mín fleiri, en lýsi yfir að ég er frv. andvígur.