06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Klukkan er nú hálfa stund yfir miðnætti og hér hefur margt verið sagt. Ég skal ekki lengja þessar umr., þó ég hafi verið beðinn fyrir orðsendingar frá ýmsum þeim þm., sem hér hafa talað áður, til þeirra sem töluðu frá því að þeir töluðu. Ef ég ætti að koma öllum þeim orðsendingum á framfæri, þá mundi það sjálfsagt lengja ræðuna mikið. Þó vil ég ekki skjóta mér undan því loforði sem ég gaf hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, að fræða hv. þm. Halldór E. Sigurðsson um þá sögulegu staðreynd, að upphaf þessara mála hefði verið 1944 í nýsköpunarstjórninni.

Ástæðan fyrir því, að ég hef kvatt mér hér hljóðs, eru tvö atriði sem ég vildi leggja sérstaka áherslu á áður en þessari umr. lyki. Afstaða mín til þessara samninga hefur komið fram utan þings í þann mund sem þeir voru gerðir, en þau tvö atriði, sem ég vil láta koma hér fram, eru þessi:

Í fyrsta lagi eru framkvæmd og form á utanríkissamningum ekki síður mikilvæg en efnisatriði málsins. Við sjáum það á þeim starfsháttum sem þróast hafa í samskiptum þjóða og í meðferð utanríkismála með þjóðum, að þar er formið oft og tíðum talið mikilvægara heldur en jafnvel efnið sjálft. Ég fagna því, að utanrrh. lýsti yfir hér í dag, að hann viðurkennir að meðferð málsins, forminu við þessa samningagerð, hafi verið ábótavant. Ég held að það sé afar mikilvægt, að þeir, sem fara með stjórn í þessu landi nú, og þeir, sem gera það síðar, læri af þessum mistökum og láti slíkt ekki koma fyrir aftur. Við Íslendingar höfum ekki efni á því að slíkur ágreiningur eyðileggi samstöðu okkar.

Hæstv. utanrrh. kvað það hafa verið sína ætlan, að utanrmn. yrði í þessu efni sá samráðsvettvangur sem slík nefnd væri hjá sumum öðrum þjóðþingum. Í fiskveiðimálum hefur utanrmn. ekki verið höfð til slíks. Ef sú breyting hefði átt að verða í reynd, þá hefði verið nauðsynlegt að nefndin hefði komið miklu tíðar til funda í aðdraganda samningsgerðarinnar og á meðan samningarnir fóru fram, en ekki að það væru haldnir aðeins tveir fundir í n. nokkru áður en samningarnir voru gerðir, þar sem neitað var beiðni fulltrúa Alþb. í n. að gefa tóm til þess að þingflokkar gætu rætt málið, eftir því sem sá fulltrúi hefur frá skýrt. Þess vegna held ég að ef þetta eigi að vera starfshátturinn í framtíðinni, þá sé nauðsynlegt að öllum þingflokkum verði gerðar kunnugar þær vinnuaðferðir sem ríkisstj. í heild eða ráðh. ætlar að hafa í framtíðinni, því vissulega er víðs fjarri að það liggi ljóst fyrir nú.

Það hefur komið fram í þessum umr. um annað mál, að því miður virðist í ýmsum málum hið óljósa fylgja þeim tökum á utanríkismálum sem hafa verið höfð hér undanfarna mánuði, og ég vil taka undir með ýmsum öðrum þm., að því tímabili verður að linna. Það verða að fást skýr og ákveðin efnistök á þessum málum.

Því miður er það ekki aðeins meðferð málsins í utanrmn. sem við höfum gagnrýnt, heldur einnig þáttur eða réttara sagt þátttökuleysi ríkisstj. í meðferð málsins. Í þeim efnum hefur utanrrh. látið frá sér fara tvær yfirlýsingar sem ég vil gera hér sérstakar athugasemdir við.

Önnur yfirlýsingin og sú fyrri kom í fjölmiðlum, að hann hefði haft samband við forsrh. um samningsgerðina, og þau ummæli voru á þann veg, að greinilegt var að utanrrh. taldi það nægjanlegt. Svo er ekki. Í samsteypustjórnarkerfi af því tagi sem hefur verið á Íslandi fer forsrh. ekki með slíkt vald, að samband við hann einan sé nægilegt, heldur þarf sambandið að eiga sér stað formlega á vettvangi ríkisstj. Ég veit að í ýmsum öðrum stjórnkerfum, sem ráðh. gæti sjálfsagt vitnað til, eins og t.d. í hinu breska, gæti slík aðferð dugað. En miðað við þá stjórnarhætti og þá stjórnskipan, sem hér hefur þróast bæði formlega og í reynd, vara ég við því að ætla að veita forsrh. einum sér slíkt vald, að samtöl við hann meðan á samningum stendur við erlendar þjóðir jafngildi samráði við ríkisstj. í heild. Meðan við búum hér við samsteypustjórnarkerfi af þessu tagi, þá held ég að slíkar starfsaðferðir kunni ekki góðri lukku að stýra.

Hitt atriðið voru ummæli sem hæstv. ráðh. viðhafði hér í umr. þegar málið var hér fyrst til umr., að hann hefði borið sig saman við forsrh. um það, hvort ætti að taka málið fyrir formlega í ríkisstj. eða ekki, og þeir hefðu komið sér saman um að bíða og sjá til hvort einhver hæfi máls á því í ríkisstj., en þeir mundu sjálfir ekki flytja málið inn á borð ríkisstj. Slíkar starfsaðferðir við gerð milliríkjasamninga, að láta það nánast vera undir hælinn lagt og vera háð tilviljunum, háð dagskrá ríkisstjórnarfundar það og það sinnið eða hugsanlegri vöku samráðherra sinna í ríkisstj., hvort málið er þar lagt formlega inn eða ekki, eru vinnubrögð sem alls ekki má viðhafa við gerð milliríkjasamninga — alls ekki. (Gripið fram í.) Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að þegar þeir hefðu metið það, hann og forsrh., hvort ætti að taka málið formlega fyrir í ríkisstj. og ríkisstj. ætti að taka afstöðu í málinu eða ekki, þá hefði það verið þeirra niðurstaða að taka málið ekki formlega á dagskrá, heldur bíða og sjá til, hvort einhver annar yrði til þess, sem málið heyrði ekki undir. Þær vinnuaðferðir tíðkast í ríkisstj. hér, að þeir ráðh., sem málin heyra undir, flytji þau inn til ríkisstj., en aðrir séu ekki að grípa þar fram fyrir hendurnar á ráðh.

Hæstv. viðskrh. sagði hér í umr., og ég hef enga ástæðu til annars en að treysta orðum hans, að málið hefði ekki verið tekið fyrir í ríkisstj., samningarnir hefðu ekki verið ræddir í ríkisstj. fyrir fram og hefðu ekki verið ræddir þar enn. Mér finnst nánast hvar sem á þessa samningsgerð er litið, að slík efnismeðferð megi ekki eiga sér stað aftur og það verði að vera miklu ljósara hvar og hvernig á málunum er tekið, bæði gagnvart þinginu, gagnvart stjórnmálaflokkunum í landinu og gagnvart ríkisstj. sjálfri. Mér finnst, án þess að ég ætli að lengja hér umr. um hið svokallaða Jan Mayen-mál, að þar séu aftur á ferðinni hin lausu tök, þar hefði ég kosið að fá skýrar og afdráttarlausar fram afstöðu ríkisstj. Íslands; eins og óskað var eftir í Ed. í gær, en komið hefur fram í umr. hér í dag. Ég vil hins vegar taka undir með hv. þm. Stefáni Jónssyni, að þar til annað kemur fram er ég reiðubúinn að túlka þau ummæli, sem hér voru höfð, á þann veg að þetta liggi ljóst fyrir. En formsins vegna og í milliríkjaviðskiptum er formið oft það sem máli skiptir, formsins vegna þyrfti það að liggja miklu skýrar fyrir.

Hið síðara atriði, sem ég vildi ræða í þessum umr., og það, sem mótar að miklu leyti afstöðu mína til þessara samninga sem hér eru til umr., er það, að í raun og veru erum við ekki að ræða hér samskipti Færeyinga og Íslendinga. Það er alveg rétt sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði áðan, aðalpersónan í þessu máli, ef svo má að orði komast, aðalþátttakandi er tröllið Efnahagsbandalagið. Það er sá skuggi sem öll þessi samningsgerð er gerð undir. Það er sá veruleiki sem við erum hér að glíma við. Það vill svo til að Færeyingar kusu að vera ekki í Efnahagsbandalaginu, og það eru líkur á að Grænlendingar að fenginni heimastjórn kjósi líka að standa utan Efnahagsbandalagsins. Þá er ljóst að þessar þrjár þjóðir hér í Norður-Atlantshafi, sem í sameiningu hafa yfir miklum auðlindum hafsins að ráða, geta komið fram sem sterkur og öflugur aðili í sameiningu gagnvart Efnahagsbandalaginu. En þær geta líka orðið veikur aðili í þeim samskiptum með því að láta Efnahagsbandalagið komast upp með að semja við þau sitt í hvoru lagi, semja við þau án þess að fyrir liggi sameiginleg afstaða þessara landa, Færeyja, Íslands og Grænlands gagnvart fiskveiðiásókn Efnahagsbandalagsins. Stóra málið í framtíðinni í þessum heimshluta varðandi fiskveiðar og landhelgismál verða samskipti Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga við Efnahagsbandalagið. Þessi samningur, sem hér er verið að leggja til samþykktar, er þegar öllu er á botninn hvolft í raun og veru samningur við Efnahagsbandalagið. Hann er samningur sem Færeyingar þurftu á að halda til þess að geta haldið áfram sinni samningsgerð við Efnahagsbandalagið, til þess að geta látið undan þeim þrýstingi sem Bretar og Vestur-Þjóðverjar láta þá sæta í gegnum Efnahagsbandalagið, líkt og þeir beittu okkur áður. Það er skortur á raunsæi að halda að frændsemismálefni okkar við Færeyinga séu hér aðalatriðið, vegna þess að í þessari samningsgerð eru Færeyingar í raun og veru milliliður.

Ég hefði kosið að ríkisstj. Íslands hefði í þessum samningum, sem fóru fram hér í byrjun árs, eingöngu haft uppi könnunarviðræður við Færeyinga, þar sem hefði verið kynntur fyrir þeim vilji okkar til þess að ná sameiginlegri afstöðu með Færeyingum og síðar Grænlendingum gagnvart fiskveiðimálum í þessum heimshluta, Færeyingar hefðu verið beðnir um að athuga það mál, kanna hvað þeir gætu náð langt með okkar styrkleika í samningum við Efnahagsbandalagið, og við áttuðum okkur á því eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson orðaði réttilega, „hver er tröllið í þessum leik“.

Hv. flokksbræður mína, sem styðja þennan samning, velflestir, ef ekki allir, eingöngu í nafni frændsemi og vináttu við Færeyinga, vil ég aðeins minna á það, að slíkar frændsemi-, vínáttu- og bræðraröksemdir hafa líka verið notaðar af öðrum í sögu þessa lýðveldis. Þær hafa líka verið notaðar af þeim sem hér hafa réttlætt bandaríska herstöð fyrir sakir frændsemi, vináttu og sögulegs skyldleika við Norðmenn. Þær eru ófáar ræðurnar sem stuðningsmenn vestrænnar samvinnu hafa flutt um frændsemiböndin við Norðmenn, sögulega reynslu okkar beggja og skyldu okkar í bræðralagi. Við skulum ekki láta frændsemitengsl okkar við Færeyinga villa okkur sýn á veruleika Efnahagsbandalagsins frekar en við Alþb.- menn höfum látið frændsemiröksemdir gagnvart Norðmönnum villa okkur sýn varðandi Atlantshafsbandalagið.