07.02.1979
Neðri deild: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að því sem ég upphaflega ætlaði að segja, vil ég segja hv. 1. flm., 4. þm. Vestf., að ekki tel ég að ég og minn flokkur eigi á því sök þó að hæstv. fyrrv. landbrh., Ingólfi Jónssyni, hafi tekist að fá þá Alþfl.-menn til þess að trúa því sem almenningur í landinu vissi að gat ekki staðist og hefði ekki trúað ef honum hefði verið sagt það á sínum tíma. Auðvitað hefur þáv. hæstv. landbrh. sett það fram, sem hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, las upp áðan, til þess að milda þá, því að auðvitað hefur staðið í þeim Alþfl.-mönnum þá sem nú að standa að því sem landbúnaðinum mætti að gagni verða. Hitt verður hv. 4. þm. Vestf. að muna, að þegar ákvæðin um útflutningsbæturnar vöru upp tekin var fellt úr lögum það sem var upphaflega í framleiðsluráðslögunum, en sú löggjöf var sett af ríkisstj. þeirri sem Alþfl.-maðurinn Stefán Jóh. Stefánsson myndaði. Í stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar voru fyrstu framleiðsluráðslögin sett. Bjarni heitinn Ásgeirsson, sem þá var landbrh., fór með þessi mál sem slíkur, og í þeim lögum voru þau ákvæði, að það, sem skorti á útflutningsverð, mætti jafna með því að hækka verðið á innlendum markaði. Um þetta urðu deilur á árinu 1958 og gekk það mál til dóms, og þá var talið að skýr lagaákvæði væru um að þetta mætti gera. Um þetta var þá deilt í sexmannanefnd, og það var undanfari þess að inn á útflutningsbæturnar var farið.

Það, sem ég vil svo segja í þessu sambandi, er það, að engan þarf að undra þó að sveiflur geti orðið í landbúnaðarframleiðslu. Væri óeðlilegt ef slíkt væri ekki, því að árferðið hefur haft og hefur enn í dag sitt að segja í sambandi við landbúnaðarframleiðsluna, þó að hitt sé ljóst, að vegna tækni og aukinnar ræktunar á síðustu árum og áratugum gætir þessa minna en áður var. Þó er ekki lengra síðan en á árinu 1975, að þá var allt að því skortur á nýmjólk á bestu mörkuðunum vegna óþurrkasumarsins 1975. Og árið eftir, 1976, kom annað óþurrkasumar og hafði líka sitt að segja.

Ég minnist þess, að þegar ég sem landbrh. var að láta undirbúa breytingu á framleiðsluráðslögunum, heildarskipan þeirra mála, 1971–1972, þá var eitt af því, sem var til umr. í sambandi við þá breytingu, að staðir eins og ýmis sjávarþorp á Vestfjörðum hefðu ekki nóga mjólk og yrði að flytja mjólk og mjólkurvörur til þeirra ýmist frá Reykjavík eða Akureyri. Eitt af ákvæðunum í því lagafrv. var sérstakur stuðningur í sambandi við þennan flutning.

Ég vil líka segja það, að þó að hv. 4. þm. Vestf. sé framsýnn að hans eigin mati eins og hefur komið fram í ræðu hans, þá var það nú svo, að þeir Alþfl.-menn, sem sátu á Alþ. 1972 þegar frv. til framleiðsluráðslaga var hér til meðferðar, stóðu allir gegn því frv. Í því frv. var þó m.a. ákvæði um fóðurbætisskatt og fleiri ákvæði til að draga úr framleiðslu ef hún stefndi í það að vera um of að mati þeirra sem um fjölluðu. Það var þá þegar komið á framfæri hér þeim ákvæðum að hafa vald á framleiðslunni út frá hagsmunum þjóðarinnar. En það, sem gerðist þá, var að það var ekki þingmeirihl. hér á hv. Alþ. fyrir því að koma þessu frv. í gegn. Og það var ekki af því að framsóknarmennina vantaði til fylgis við málið, heldur voru það menn úr öðrum flokkum. Sjálfstfl. fylgdi þá þeirri stefnu, sem oft er fylgt hér á hv. Alþ., að stjórnarandstaðan er á móti málum ríkisstj., hversu góð sem þau eru og þörf, og Alþfl., sem var einnig í stjórnarandstöðu, var þá líka á móti frv. Þetta gerði það að verkum, að þetta frv. náði ekki fram að ganga í það sinn.

Af síðustu ríkisstj. var einnig af minni hendi sett n. til að endurskoða framleiðsluráðslögin, m.a. með tilliti til þess, að hægt væri að hafa meiri stjórn á framleiðslunni en verið hefði. Sú n. er enn að störfum, að ég best veit, nema hæstv. núv. landbrh. hafi lagt hana niður, sem ég hygg að hann hafi ekki gert enn þá. Ástæðan til þess, að hún er enn að störfum, er að henni hefur ekki tekist að ná samstöðu og ekki einu sinni tekist að klofna. Til þess að herða á þessum málum komu til mín formaður n. og fulltrúar frá Vinnuveitendasambandinu og Alþýðusambandinu. Það atriði, sem þeir ræddu við mig, var að fá ríkisstuðning til að fara til Noregs til að kynna sér þessi mál. Það voru tveir ungir og glæsilegir menn sem þarna komu með formanninum. Hann er að vísu ungur líka þótt hann sé heldur eldri. Það, sem ég ræddi við þá, var að ef ég beitti mér fyrir þessu, þá væri það háð því, að þeir væru í alvöru að vinna að því að reyna að leysa þetta mál. Niðurstaðan varð sú, að ég beitti mér fyrir þessu og þeir fóru þessa ferð. Það hafa hins vegar orðið mér mikil vonbrigði, að þrátt fyrir þennan velvilja, sem ég taldi raunar eðlilegt að sýna af því að ég vildi framgang málsins eins og auðið væri, skuli ekkert hafa út úr þessu komið enn. En hjá þessari n. liggur þetta mál. Það er því fleiri en fyrrv. landbrh. að saka um það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var að deila á áðan, auk þess sem ég get endurtekið það sem ég sagði áðan, að offramleiðsla, eins og hún var á s.l. ári, hefur ekki verið fyrr, og það voru ekki nema tvö ár frá því að það var allt að því að vera skortur hér á mjólk og mjólkurvörum. Þetta vil ég nú biðja hv. flm. að taka til athugunar.

Ég vil líka segja það, og það var upphaflega erindi mitt þegar ég bað um orðið, að ég taldi að þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð hefði þetta verið einn af þeim þáttum sem var í hennar verkahring að vinna að. Núv. hæstv. landbrh. hefur lagt fram á hv. Alþ., í þessari d., frv. sem m.a. gengur í þessa átt. Nú var það venja í þeim ríkisstj. sem ég þekki til þann árafjölda sem ég hef setið hér á Alþ., að þegar við stjórnarmyndun var samkomulag um að vinna að verkefnum, þá var forusta í sambandi við slík mál í höndum ríkisstj. Hæstv. landbrh. hefur sýnt að hann tekur hlutverk sitt alvarlega, því að hann hefur þegar á þessum stutta tíma lagt fram frv. sem mjög snertir þetta mál.

Ég vil taka undir það sem fram kom í ræðu hv. 4, þm. Vestf., að það verður að vinna að málinu í heild, en ekki taka út úr því einstaka þætti. En að endurflytja þetta frv., sem flutt var í stjórnarandstöðu og gat þá verið ósköp skiljanlegt, nú þegar þessir hv. þm. eru orðnir stuðningsmenn ríkisstj. og einn af þáttum þeirrar ríkisstj. er að vinna að þessum-málefnum, að þá skuli þeir taka samt upp gamla drauginn, það eru vinnubrögð sem ég þekki ekki. Alþingi þarf a.m.k. að breytast allverulega frá því sem ég þekki til þess að slík vinnubrögð séu farsæl. Það getur vel verið að það sé mikill misskilningur hjá okkur framsóknarmönnum að við tökum okkur ekki til og flytjum frv. um málefni sem hæstv. félmrh. eða utanrrh. á að fjalla um. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta ekki góður siður þm. En það er kannske bara misskilningur sem þarf að taka til athugunar og við ætlum að fara að keppa við ráðh. sem við styðjum. Ég er ekki farinn að sjá að svipurinn á Alþingi breytist til farsældar með þessum hætti. En kannske reynist það þeim sem sitja hér í framtíðinni.

Auðvitað er það mér mikil ánægja að aukning hefur orðið í tekjum bænda á síðustu árum. Enginn vafi er á því, að árin 1977 og 1978 eru bestu ár í afkomu bændastéttarinnar í landinu. Út af viðmiðunarreglunni má kannske um einstök atriði deila, en út í það ætla ég ekki að fara nú. En aðalatriði mitt var að benda á að að störfum situr n. til að endurskoða framleiðsluráðslögin. Hæstv. landbrh. er þegar búinn að leggja fyrir þingið einn þátt úr þeirri löggjöf sem önnur n. vann og var eðlilegt að gert væri meðan reynt væri til þrautar að ná árangri í hinni nefndinni. Það er í raun og veru ofar mínum skilningi að stuðningsmenn þeirrar ríkisstj., sem ætlar að taka þetta mál sem eitt af sínum málum, skuli vera flm. að þessu frv.

Hitt vil ég svo segja um það sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Vestf. áðan um þátt landbúnaðarins í iðnaðarframleiðslu, að ég held að hv. 4. þm. Vestf. þurfi að kynna sér betur þátt landbúnaðarins í iðnaðarframleiðslu og þurfi að gera sér grein fyrir því, að eitt af stefnuskráratriðum núv. hæstv. ríkisstj. er atvinnuöryggi í landinu og að forðast atvinnuleysi. En dragi verulega úr landbúnaðarframleiðslu er þegar komið atvinnuleysi í sumum byggðarlögum.

Vegna þess, sem kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um skinnaframleiðsluna og gæruframleiðsluna hér á landi, vil ég geta þess, að í frásögn, sem ég hef frá Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Mest aukning í magni og verðmæti var í skinnaiðnaði og var þar 78% hækkun í verðmæti en magnið jókst um 23%.“ Svo segir síðar: „Eins og áður er fram tekið, er ullariðnaðurinn langstærsta útflutningsgreinin“ — þá er sleppt áli og fiskframleiðsluvörunum — „og jókst útflutningur ullarvara úr 3441 millj. kr. í 4529 millj. kr. eða um 32% .“

Hér varð þó aftur samdráttur í magni, og stafaði það af því að Rússlandsmarkaðurinn brást á s.l. ári. Nú er hins vegar búið að semja um verulega aukningu þar, bæði í magni og hærra verði, svo að séð er að útflutningurinn í ullarvörum verður geysilega mikill á þessu ári. Þrátt fyrir þá offramleiðslu, sem hv. þm. talaði um, er ullin í landinu ekki orðin meiri en það, að ekki má mikið minnka til þess að nægjanleg sé sem hráefni í ullariðnaðinn. Ég held að hv. alþm. verði að gera sér grein fyrir því, að þetta er þáttur, sem einnig þarf að taka tillit til, þó að mér sé fullkomlega ljóst að sá þáttur, sem nú er til meðferðar, offramleiðsla að nokkru leyti á kjöti og einnig á mjólkurvörum, er alvarlegur meðan hann varir. Hins vegar gæti árferðið mjög bráðlega breytt því.

Ég tel líka að það hafi verið rangt hjá Framleiðsluráðinu eða sexmannanefnd í sumar að hækka verðið á smjörinu, því að með þeirri niðurgreiðslu, sem þá var, og þeirri eftirgjöf, sem þá var af hálfu framleiðenda, hefði orðið miklu meiri farsæld fyrir þau mál heldur en varð með verðhækkuninni sem þá var ákveðin. Ég tel að það hefði reynst bændum betur að þannig hefði verið fram haldið, vegna þess að kostnaðurinn við að geyma vöruna, bæði vextir og annað sem því fylgir, mun reynast meiri en það sem eftir var gefið af verði vörunnar af hálfu framleiðenda.

Ég vil líka minna á að þær gjaldeyristekjur, sem koma inn fyrir landbúnaðarafurðir sem út eru fluttar, þó að við tökum ekki nema iðnaðinn, eru verulega tekjuskapandi fyrir ríkissjóð. Ég gerði það fyrir tveim árum eða svo að reikna út meðaltolltekjur af gjaldeyri, og þá kom í ljós að ríkissjóður hafði hag af þessu, en ekki óhag. Þetta segi ég ekki vegna þess að ég vilji ekki líta af raunhæfni á þessi mál. Ég tel mig hafa gert það, þó að aðrir þeir, sem skammsýnni voru, hafi komið í veg fyrir að það væri hægt að gera á árunum 1972 og 1973. Það er líka ljóst, að til þess að vel fari og ekki verði um verulega tekjurýrnun að ræða hjá bændum þarf að fara að þessum málum með mikilli aðgæslu og heildarstefnumótun, eins og hæstv. landbrh. vinnur nú að. Frv. eins og þetta bætir þar að engu úr, nema menn telji þetta vera auglýsingastarfsemi fyrir sig. En ég held að þeir muni ekki hafa notað þetta, hv. Alþfl.-menn, á s.l. sumri í kosningunum þegar þeir voru að reyna að ná fylgi hjá bændum, þá hafi þeir túlkað það á annan veg.

Ég endurtek það, að stefnumörkun í landbúnaði hefur verið gerð hér og gerð í samráði við heildarsamtök bændanna sjálfra. Það var ekki þeim að kenna, að hv. Alþ. vildi ekki gera að lögum frv. sem var lagt fram 1972.

Ég vil líka segja það, að mjög áríðandi er að halda svo á þessum málum að ekki leiði til atvinnuleysis og minnkandi heildartekna hjá þjóðinni, en það verður ef hráefni til iðnaðar verður skorið niður. Ég vil ekki heldur taka undir það sem hv. 4. þm. Vestf. sagði, að iðnaðurinn yrði að klára sig sjálfur og því þyrfti ekkert að honum að huga í þessu sambandi. (SighB: Það sagði ég aldrei.) Þetta sagði hv. þm. Það er von að hann gleymi svona setningum fljótt, því að hann vill auðvitað ekki láta kenna þær við sig. En staðreyndin er að þetta fór fram af hans munni áðan, að það bæri ekki að taka tillit til þess í sambandi við landbúnaðarvörur hvað iðnaðurinn þyrfti á að halda, hann yrði að borga sitt sjálfur. Ég tel að iðnaðarframleiðsla hér á landi hafi aukist m.a. vegna þess að með tilliti til landbúnaðarframleiðslunnar hefur hann verið studdur eins og gert hefur verið síðustu árin.

Það er ábyggilegt, að hv. þm. Alþfl. er nauðsyn að kynna sér dálitið af því sem fyrirrennarar þeirra gerðu, en umfram allt að gera sér grein fyrir því, að flokkur, sem er búinn að taka þátt í að gera samning um myndun ríkisstj., þarf líka að vera vitandi vits hvað þar er um samið t.d. um aðgerðir í landbúnaði.