13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

122. mál, snjómokstursreglur

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin, þó að ég verði að játa að ég var að gera mér vonir um fyrir fram að þau yrðu nú jákvæðari, þó að hins vegar fælist í svari hans úrbót á leiðinni frá Húsavík til Raufarhafnar. Ráðh. komst þannig að orði, að ef hægt væri að benda á mismunun væri sjálfsagt að athuga það. Ég reyndi í máli mínu áðan að koma fram með mynd af þessu, hvernig það væri, og ég held að það hafi komið glöggt fram að um mismunun er að ræða og ekki svo litla í þessu efni.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um að það verður að stilla þessum kostnaði í hóf eins og öðrum. En þegar farið er að athuga þetta kort og sést hvernig þessar reglur eru, þá kemur í ljós að það ætti a.m.k. að vera hægt að draga úr sums staðar miðað við það sem er gert víða annars staðar, þó ég sé ekki beint að koma með till, um að minnka snjómokstur annars staðar. En það væri nær að gera það miðað við þetta kort til þess að jafna þann mikla mun sem íbúarnir á ýmsum stöðum verða við að búa.

Í sambandi við Ólafsfjarðarmúla, þá hafa heimamenn óskað eftir því að fá að reyna að verktaki á Ólafsfirði taki að sér að hreinsa veginn fyrir Múlann og reikna með því, að hægt væri að gera það og halda honum opnum miklu fleiri daga fyrir svipað fjármagn og varið hefur verið til þess á undanförnu ári. Ég vil nú mælast til þess við hæstv. samgrh., að hann athugi með mér hvort ekki sé rétt a.m.k. að reyna þetta og sjá hvað út úr því kemur. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að fá sem besta þjónustu fyrir þá svipað verð.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri löng leið frá Húsavík og austur í Vopnafjörð. Hún er enn þá lengri, held ég, en þetta, um 250 km, ég man það nú ekki, en það hlýtur að vera lengra. En það verður að athuga í þessu sambandi, að Raufarhafnarbúar t.d. hafa engan lækni og sæk ja sína læknisþjónustu til Þórshafnar, þannig að ég held að það verði að líta nánar á þetta mál. Og ég ítreka það líka, að það verði athugað um snjómokstur alla leið til Vopnafjarðar, hvort það sé ekki hægt, þó að farið sé út úr mínu kjördæmi.

Hv. þm. Lárus Jónsson sagði að ég hefði átt að geta haft áhrif á þessar reglur þegar þær voru settar, af því að það var ráðh. míns flokks sem setti þær. Ég held að þær séu yfirleitt ekki samdar af ráðh., heldur Vegagerðinni. Ég hef bréf fyrir framan mig um það, að oddvitarnir í Norður-Þingeyjarsýslu og sveitarstjórarnir voru á fundi einmitt um þetta bil hjá vegamálastjóra til þess að koma fram með sínar óskir og ég var á einum þessum fundi með þeim. En ég hygg, að vegamálastjóri eða vegamálaskrifstofan hafi lagt þetta til, það sé sannleikurinn í málinu. (Gripið fram í.) Ráðh. hefur æðsta vald og ráðh. getur breytt þessu, en ég var bara að skýra málið.

Hæstv. ráðh. sagði að sjö hreppar hefðu fengið endurgreiðslu. Mér telst nú til að það séu níu, en það skiptir ekki öllu máli. En af 3.5 millj. endurgreiðslu hafa 2.2 mill j. farið í Norðurland eystra og það út af fyrir sig sýnir þörfina. Og t.d. í Svarfaðardal, eftir að búið er að borga þetta til baka, koma rúmar 1700 kr. á hvern íbúa í þeim hreppi. Ég tek þetta sem dæmi til að sýna fram á hvernig menn búa við misjafna aðstöðu að þessu leyti. T.d. í Eyjafirði eru vegir í gegnum suma hreppana sem alltaf eru mokaðir, en á öðrum stöðum verða menn að moka á sinn kostnað að hálfu leyti, eins og kom fram í svari hæstv. ráðh.

Ég sé engin rök fyrir því, að t.d. á leiðinni til Dalvíkur sé mokað tvisvar í viku, en á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks fimm daga vikunnar. Ég sé ekki neitt samræmi í þessu — eða eins og moksturinn er víða á Suðurlandi. Þó að væri mokað tvisvar í viku til Ólafsfjarðar, þá væri bara verið að rétta hlut hans og þyrfti ekki að koma aukinn mokstur annars staðar. Og ég sé það ekki eftir þessu korti, að þó að væri mokað einu sinni í viku um Norður-Þingeyjarsýslu til Vopnafjarðar, að það þyrfti að koma aukinn snjómokstur annars staðar þess vegna.

Ég endurtek áskorun mína til hæstv. samgrh. að lita líka til íbúanna þarna fyrir norðan.