13.02.1979
Sameinað þing: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég held að aðalmálið sé nú það, að þessu máli verði hraðað í gegnum þingið eftir því sem mögulegt er. Það hefur lengi beðið á dagskrá funda eftir því að verða rætt. Á meðan hefur mengunin haldið áfram að síast í gegnum jarðveginn á Suðurnesjum. Ég vil nú taka það sérstaklega fram, að mér sýnist hæstv. utanrrh. hafa tekið rösklega á málinu, og mér sýnist, að ef haldið verður áfram á sömu braut og mörkuð hefur verið nú þegar, þá verði lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir, framkvæmdaaðgerðir, þannig að Suðurnesjafólk megi búa við traust vatnsból og gott vatn á ókomnum árum.

Það er alveg ljóst, þegar litið er yfir sögu þessa máls, að það hefur snúist og velkst í kerfinu á milli stofnana, milli rn., á milli deilda o.s.frv., án þess að nokkur hafi raunverulega séð ábyrgð sína og séð ástæðu til að taka alvörufrumkvæði og ráðast að málinu, rannsaka það og leysa vandamál og koma á fót alvöruaðgerðum. Á þetta virðist hafa skort. Einnig virðist hafa skort á undanförnum árum vilja til þess að taka málin föstum tökum. Og síðast en ekki síst kostar slíkt átak sem þetta peninga. Ekki hefur verið reiknað með fjármagni til slíkra rannsókna sem þessara á fjárl., hvað þá framkvæmda, og stofnanir eru jafnan nískar á framlög af eigin fé til nýrra framkvæmda og rannsókna, ef ekki er fyrir fram gert ráð fyrir því í fjárl. Þannig hefur allt hjálpað til þess að málið hefur velkst í kerfinu án þess að sýnilegum árangri hafi verið náð fyrr en nú, að hæstv. utanrrh. sér ábyrgð sina og sýnir frumkvæði, sýnir vilja til þess að taka málið föstum tökum, segir að það sé sitt hlutverk og sitt mál að hafa hér forustu og veita þessu máli brautargengi þannig að fólk á Suðurnesjum megi búa við öryggi í þessum efnum á næstu árum. Yfir þessu vil ég lýsa ánægju minni.

Að lokum vil ég minnast nokkrum orðum á það sem hv. þm. Einar Ágústsson ræddi um, málsmeðferð málsins hér á Alþingi.

Þessi þáltill. kveður á um það, að Alþingi álykti að fela utanrmn. Alþingis að láta rannsaka málið. Ég held að hv. þm. Einar Ágústsson rugli hér saman tvennu: annars vegar því, þegar þn. íhugi að taka sjálfar frumkvæði um rannsókn tiltekinna mála, hins vegar því, að Alþ. samþykki að fela utanrmn. að láta gera eitt eða annað. Hér er um tvennt skylt en ólíkt að ræða sem ég held að sé ekki rétt að rugla saman.

Um það, hverjum Alþ. eða utanrmn. felur, ef þessi þáltill. verður samþ., að halda áfram rannsókninni á málinu, þá tel ég vissulega eðlilegast, þegar utanrrh. hefur markað málinu nýjan farveg, — farveg sem líkur eru til að muni færa málið í rétta átt, þá tel ég eðlilegt að utanrmn. fylgist með málinu í þeim farvegi og samþykki fyrir sitt leyti að láta málið þróast eftir þeim leiðum sem utanrrh. hefur ákveðið að gera og hefur haft forustu um. En eigi að síður verður Alþingi að hafa eftirlit með því, að staðið verði stórmannlega að verki og niðurstaða fáist úr þeim rannsóknum sem hafnar eru, og ekki síst að hafist verði handa um einhverjar framkvæmdir og þær kosta fé. Þá verður að útvega fjármagn. Vegna þess að þetta mál hefur verið til umr. í þinginu, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur oft, þá er ástæða til þess, að þm. verði látnar í té upplýsingar í skýrsluformi um það, hvernig rannsóknum og framkvæmdum sé háttað og hverjar niðurstöður verða. Þetta tel ég nauðsynlegt ef Alþ. ætlar að sinna því aðhaldshlutverki sem það verður að gera á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég vil ítreka þá von mína, að þetta mál fái greiðan gang í gegnum þingið, vegna þess að ég tel að hér sé um hlutverk Alþ. og nefnda þingsins að hafa hér yfirumsjón, ekki hvað síst þegar svona mál hafa velkst í kerfinu, ekki bara eitt eða tvö ár, heldur nánast 10 ár, án þess að embættismannakerfið hafi sýnst hæft til að takast á við málið. Nú er stigið nýtt skref sem vonandi er til heilla stigið. En til þess að tryggja að svo verði, þá tel ég rétt að Alþ. verði hér haft með í ráðum og hafi forustuna á hendi ásamt hæstv. utanrrh.