14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

168. mál, útvarpslög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þar sem 1. flm. þessa frv. er nú horfinn af Alþ., en hann sat í Nd. sem varamaður, þá rennur mér blóðið til skyldunnar að svara fyrir nokkur atriði sem komið hafa fram í umr.

Það vekur að sjálfsögðu athygli, eins og hv. þm. Ellert B. Schram benti reyndar á, að fulltrúar Alþfl., umr og frjálslyndir fulltrúar hans hér í d., hafa gert harða hríð að því frv. sem hér er til umr. Þeir tala mikið um peningamenn og það megi passa sig á þeim í þessum efnum. Þetta er þeim mun athyglisverðara þegar þess er gætt, að hér er um að ræða tvo ágætismenn, hv. þm. sem báðir hafa unnið við ritstjórn á Alþýðublaðinu, því blaði sem hefur með tíð og tíma siglt heldur betur niður á við eins og sökkvandi skúta í íslenska fjölmiðlaflotanum, og báðir þessir menn urðu að hverfa þaðan og fá sér atvinnu hjá hinu opinbera. Þeir sitja nú háðir í útvarpsráði og þeir virðast komnir hingað á Alþ. sem fulltrúar kerfisins, svokallaðir „kerfiskarlat“, eins og Vilmundur Gylfason hv. þm. mundi eflaust kalla þá ef hann stæði hér í pontu. Ég þakka honum lánið á þessu ágæta orðið sem hann hefur fundið upp og hægt er að nota um hans eigin flokksbræður að þessu sinni.

Það hefur verið minnst á að frjáls útvarpsrekstur mundi engar skyldur hafa við alþjóð. Það getur vel verið að það séu engar skyldur við alþjóð, ef talað er um hvern einasta mann í landinu. En hvaða skyldur hefur Nýja Bíó við alþjóð eða Gamla Bíó eða Stjörnubíó? Þau hafa einungis þær skyldur, að það fólk, sem er í Reykjavík þá stundina, geti farið í þessi bíó. Það getur farið í Þjóðleikhúsið á sama hátt. Það fólk, sem er statt á höfuðborgarsvæðinu, ef þessi frjálsi útvarpsrekstur er starfræktur þar, getur hlustað á þessar útvarpsstöðvar. En svona þröngur hugsunarháttur lýsir sér oft í sölum Alþingis af hálfu þeirra manna sem vilja að það hreyfi sig enginn í þessu þjóðfélagi nema það komi hverjum einasta aðila á landinu til góða. Fyrr má ekki hreyfa neitt. Og ég get nefnt dæmi um þetta: Ef við hefðum farið að ráði manna, sem hugsa svona, væri ekkert litsjónvarp á Íslandi í dag. Það varð að berjast fyrir því gegn svona hugsunarhætti, svona dreifbýlishugsunarhætti sem þessir þm. hafa tileinkað sér hér, en gerir kannske mest ógagn einmitt dreifbýlinu.

Staðreyndin er sú, að það eru skilyrði í þessu frv. Guðmundar H. Garðarssonar o.fl. um það, hvernig staðið skuli að frjálsum útvarpsrekstri. Það verður að sækja um leyfi og það verður að fá umsögn útvarpsráðs — og þar sitja þessir tveir ágætu þm. Það þarf að fá leyfi og umsögn Póst- og símamálastjórnarinnar. Leyfið er tímabundið. Það er aðeins í 3 ár í senn. Það þarf að vera reyndur dagskrárstjóri, tæknimenntaður tæknistjóri. Og það eru gerð skilyrði um fjölbreytta dagskrá, um óhlutdrægni o.s.frv. Ég veit ekki við hvað þessir menn eru hræddir. Ég get ómögulega skilið það.

Það er talað um í þessu sambandi, að í Bandaríkjunum hafi hið opinbera orðið að sjá fyrir menningunni með íhlutun í fjölmiðla sem notast við öldur ljósvakans. Það er alveg rétt. En þetta er gamalt mál. Hið opinbera hefur í Bandaríkjunum um mjög langt skeið rekið útvarp og sjónvarp um menningarleg efni. Það er alveg hárrétt. Þetta er ekkert nýtt. En þar dafnar þetta ágætlega. Þar er samkeppni um útvarpsrekstur, reyndar um sjónvarpsrekstur líka, og ég get ekki séð annað en það hafi gengið ágætlega. Auðvitað þarf að hafa eftirlit með þessu og reglur. Það er ekki verið að sleppa þessu öllu frjálsu með frv., síður en svo. Þar eru enn þá leyfisveitingar og slíkur úthlutunarhugsunarháttur, sem sumum mönnum hér virðist vera svo tamt að nota að þeir vilja helst ekki af missa.

Málið er það, að ef hv. þm. vilja gera íslenska ríkisútvarpinu verulegan greiða, þá þarf það á aðhaldi að halda. Ég hef setið í útvarpsráði um þriggja ára skeið og veit hvernig mál ganga fyrir sig þar. Ég er ekki að fara orðum um þetta vegna þess ég telji að það sé misfarið með stjórn á Ríkisútvarpinu, síður en svo. En það hafa allir gott af því að hafa aðhald og fá aðhald, og ég er viss um að frjáls útvarpsrekstur hér á landi mun ekki gera íslenska ríkisútvarpinu annað en gott.

Hitt er svo annað mál, og það vil ég taka sérstaklega undir með öllum útvarpsráðsmönnunum sem hér hafa talað, þrem hv. þm., Árna Gunnarssyni, Eiði Guðnasyni og Ellert B. Schram, að auðvitað megum við ekki vanrækja málefni Ríkisútvarpsins. Því get ég verið fyllilega sammála og undir það vil ég taka. En það sem skiptir máli, er að kominn er tími til í þessum efnum og kannske fjölmörgum öðrum efnum að átta sig á því, athuga það í reynsluskyni, hvort einhverjum öðrum sé treystandi til þess að stunda hér rekstur, þ. á m. útvarpsrekstur, eða hvort við eigum að vera fjötraðir við ríkiskerfið það sem eftir er. Hér reynir á unga þm. Alþfl.-menn sem voru kjörnir á þing með miklum sigri, menn sem komu hingað sem boðberar frjálslyndisins. Nú reynir á hvort þeir ætla að standa við þau orð, hvort þeir skipa sér í flokk með hv. þm. Vilmundi Gylfasyni eða hvort þeir eru aðeins fulltrúar kerfisins, hafa komið hingað inn á fölskum forsendum.